Biskup er greinilega sammála núverandi stjórnvöldum

Biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson kemur inn á mikilsverða hluti í páskaprédikun sinni. Ég er ekki að sjá að biskup sé kominn í neina stjórnarandstöðu - eins og sumir hér á blogginu halda fram. Hann bendir einfaldlega á að framtíð lífs á jörðu sé ógnað af mannavöldum, sem er í algerum samhljóm með þeirri stefnu sem núverandi stjórnvöld hafa sett sér um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda og í algerum samhljóm um stefnumörkun hins opinbera um sjálfbæra þróun.

"Til að hamla gegn aðsteðjandi umhverfisvá þarf samstillt átak hinna mörgu. En umfram allt þurfum við öll að horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar. Við verðum að fara að horfast í augu við að draumar okkar og framtíðarsýnir séu ef til vill byggðar á kolröngum forsendum. Að áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta, er tál. Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta og ágóða, þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, er frelsari heimsins, frelsari þinn."

Þótt við í okkar daglega lífi séum agnarsmá í samanburði við mannkyn allt, þá skiptir okkar hegðun máli í þessu samhengi sem öðru. Okkar kærleikur, hlýja og umhyggja gerir lífið betra, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur alla í kringum okkur og þá vonandi aftur á þá sem eru þar um kring.

Hið sama á við um kærleik okkar, hlýju og umhyggju fyrir komandi kynslóðum sem við meðal annars sýnum með því að láta gott af okkur leiða í umhverfismálum. Um það snýst hugsunin um sjálfbæra þróun meðal annars.

Við fáum ekki jörðina í arf frá forfeðrum okkar, heldur að láni hjá afkomendum okkar.

Gleðilega páska


mbl.is Áherslan á endalausar framfarir er tál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Þóroddsson

.....og hér er hr Karl líklega að tala um hann Davíð "Meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, er frelsari heimsins, frelsari þinn"

Tómas Þóroddsson, 8.4.2007 kl. 16:58

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ekki fyndið, Tommi...

Gestur Guðjónsson, 8.4.2007 kl. 16:59

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Það er engin umhverfisvá þótt það hlýni eða kólni. Það er eðlilegt að það gerist, það hefur gerst oft og á eftir að gerast aftur. Aldrei fyrr í sögu jarðarinnar hefur hlýnað eða kólnað af mannavöldum og að halda því fram að hlýnunin sé af mannavöldum nú, er afar hæpin fullyrðing í því ljósi. Ég bendi áhugasömum á að við sveimum í kring um logandi eldkúlu sem sendir öðru hvoru heitar gusur frá sér. Miklu líklegra er að við séum í slíkri gusu nú en í svitabaði vegna koltvísýringsútblásturs sem er bara brotabrot af því gasi sem myndar lofthjúp jarðar. Ræða biskupsins er reist á sandi og stendur ekki í Biblíunni að heimskur maður byggi hús sitt einmitt þar? Ég ætla nú ekki að segja að biskupinn sé heimskur, en þetta stendur í Biblíunni. Ekki lýgur hún.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 8.4.2007 kl. 22:29

4 Smámynd: Tómas Þóroddsson

Sorry Gestur, ætlaði ekki að móðga þig.

Tómas Þóroddsson, 8.4.2007 kl. 23:03

5 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Ekki málið Tommi.

Sigurgeir:  Held að það sé rétt að þú kynnir þér skýrslu Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingarnar. Býst við að þeir hafi staðbetri þekkingu á loftslagsmálum en biskupinn, en ég geng út frá því að biskupinn byggi málflutning sinn á niðurstöðum þeirra og sé því ágætlega grundaður í sínum málflutningi. Þú hefur vissulega rétt fyrir þér með því að það hafi áður hlýnað og áður hefur kólnað. Það er rétt og náttúran mun aðlaga sig. En það sem er vandinn eru vanþróuð ríki sem ekki ná að aðlaga sig ef breytingarnar gerast of hratt. Skrifaði nánar um þetta hér

Gestur Guðjónsson, 8.4.2007 kl. 23:12

6 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Það fellur eins og flís við rass að byggja predikun á skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Fjölmargir, vísindamenn sem og aðrir, hafa einmitt bent á að skýrslan sé miklu meira í ætt við trúarbrögð en vísindi. Ég var ekki búinn að sjá tenginguna, takk fyrir að benda mér á þetta.

Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum munu fyrst og fremst bitna á vanþróuðum ríkjum vegna þess að þau þurfa að losa meira gróðurhúsagas vegna uppbyggingar. Afríkuríki (og Kína og Indland) líta á slíkar hugmyndir sem miklu meiri ógn en loftslagsbreytingar. Enda sérðu það að biskupinn talar um að framfarir séu tál. Segðu fátæka fólkinu í Afríku það.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 9.4.2007 kl. 12:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband