Framsókn er einni treystandi til ESB viðræðna

Framsókn telur að þjóðin eigi að taka afstöðu til þess hvort Ísland eigi að ganga inn í ESB eftir aðildarviðræður.

Á þann hátt einan er hægt að taka málefnalega afstöðu til spurningarinnar um hvort ganga eigi inn í ESB.

Svarið má ekki byggjast á trúarbrögðum um inngöngu án skilgreindra skilyrða eins og hjá Samfylkingunni sem telur ESB aðild leysa allan vanda, þannig að íslensk stjórnvöld þurfi ekkert að gera framar, meðan VG og Sjálfstæðisflokkurinn vilja ekki ræða málið, heldur halda hausnum í sandinum áfram.

Framsókn hefur skilgreint hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt. Þau eiga sér öll fordæmi í aðildarsamningum annarra þjóða og skipta Íslendinga miklu máli.

  • Skýr og einhliða úrsagnarréttur, sem er þegar viðurkenndur í aðalsáttmála ESB, verði hluti aðildarsamnings.
  • Staðfest verði að Íslendingar einir hafa veiðirétt innan íslenskrar fiskveiðilögsögu og að fiskveiðistjórnun verði áfram innanríkismál Íslendinga, enda styðjist hún við reglur ESB um stöðug hlutföll, nálægðarreglu og Lúxemborgarsamkomulagið. Ísland verði sjálfstæður aðili að samningum um flökkustofna.
  • Fæðuöryggi þjóðarinnar verði tryggt og viðurkennd nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar.
  • Viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður.
  • Framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra búfjárstofna.
  • Staðfest verði að vegna aðstæðna á Íslandi og fámennis þjóðarinnar hafi Íslendingar varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.
  • Í upphafi viðræðna verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.
  • Tekið verði tillit til stöðu íslensks efnahagslífs við umbreytingu peninga- og gjaldeyrismála á Íslandi.
  • Ákvæði verði um varðstöðu um íslenska þjóðmenningu, þjóðtungu og þjóðhætti á Íslandi. Íslenska verði viðurkennt sem eitt hinna opinberu tungumála ESB.

mbl.is Trúi ekki að Samfylkingin láti stranda á ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlédís

Takist þetta, Gestur, slæ ég til með ánægju! Held ég gengi bara í Ný-Framsókn, tækist flokknum að koma ofantöldum atriðum til leiðar! Er það mikið sagt, þar sem hef ALDREI tekið í mál að ganga í stjórnmálaflokk og bara kosið B-listann einu sinni fyrir langa löngu!

Es: Vigdís Hauksdóttir stóð sig vel á fundinum í gær - það gerðu ekki allir. Ekki að fundurinn væri stórmerkilegur ;)

Hlédís, 23.4.2009 kl. 08:52

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Komdu fagnandi

Gestur Guðjónsson, 23.4.2009 kl. 09:31

3 Smámynd: Hlédís

Þakka, Gestur!

Ný slóð - Sumaróskir: http://disdis.blog.is/blog/dis/ 

Hlédís, 23.4.2009 kl. 09:51

4 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Illa upplýstir frambjóðendur.

Svandís veit þó hvað hún er að tala um varðandi ESB aðildarumsókn. V-G,  Frjálslyndir og Sjálfstæðisflokkur gera sér grein fyrir því hvað ESB stendur fyrir.

Hinir flokkarnir nálgast ESB af fullkomnu þekkingarleysi og  ætla bara að prófa að ræða við risann og sjá til hvað hann býður. Hvar hafa þessir frambjóðendur haldið sig undanfarin ár? Hafa þeir ekkert fylgst með fréttum af spillingu og valdníðslu ESB? Hafa þeir ekki hlustað á gagnrýnisraddir almennings í aðildarlöndunum? Að halda það að ESB sé að bjóða íslendingum einstök kjör sem önnur ríki ESB geta ekki látið sig dreyma um, er álíka heimskulegt og að prófa að tala við Kínverja og bandaríkin og sjá til hvort að þessi ríki bjóði íslendingum einhverskonar aðildarsamninga sem eru gjörsamlega frábrugðin allri stefnu þeirra.

Það verður þokkalegt þegar að íslendingar verða kallaðir í ESB herinn sem rætt er um að stofna, og ekki veitir af Evrópuher eftir að Tyrkland er komið inn í ESB, því þá liggja landamæri hinnar sameinuðu Evrópu að Íran og Írak!

En hvað með það þó svo að íslendingar verði í framtíðinni að gegna herskyldu vegna fáfræði Framsóknaflokks Borgarahreyfingarinnar, Samfylkingarinnar og Lýðræðishreyfingarinnar? Við fáum þó Evru! En mun evran lifa kreppuna af?  Af hverju ekki að bíða með gjaldmiðlaskipti þar til að við erum búin að ná okkur upp úr botninum og heimskreppan gengin yfir? Þá væri upplagt að taka upp þann gjaldmiðil sem er hægt að treysta til framtíðar.

Guðrún Sæmundsdóttir, 23.4.2009 kl. 10:09

5 Smámynd: Birnuson

Hver yrði staða mála eftir aðildarviðræður Íslendinga? Skoðum þessi skilyrði Framsóknarmanna:

  • Úrsagnarréttur: Já, með fyrirvara. ES myndi aldrei samþykkja þetta sem hluta af aðildarsamningi. Hins vegar er ákvæði af þessu tagi í Lissabonsáttmálanum og telja má líklegt að hann öðlist gildi áður en langt um líður (fer eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi síðar á árinu).
  • Veiðiréttur: Nei, með fyrirvara. Það er lítil von til að Íslendingar gætu haldið óbreyttri fiskveiðistjórnun sem aðildarríki ES. Aftur á móti eru allar líkur á að við gætum samið um varanlegar undanþágur frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni, t.d. með takmörkunum á veiðum annarra þjóða.
  • Fæðuöryggi: Já. Fer þó eftir því hver þessi „sérstöku ákvæði“ eiga að vera.
  • Heimskautalandbúnaður: Já. Finnar og Svíar sömdu á þessum nótum um landbúnað í norðurhéruðum sínum.
  • Búfjárstofnar: Já. Eftir því sem ég best veit er þetta í góðu samræmi við núverandi stefnu ES.
  • Forgangsréttur að jarðeignum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum: Já, en aðeins að hluta. Rétt eins og sum núverandi aðildarríki ES gætu Íslendingar samið um undanþágur að því er varðar t.d. jarðeignir. Forgangsréttur að atvinnufyrirtækjum yrði varla samþykktur.
  • Stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann: Já. Evrópski seðlabankinn myndi væntanlega styðja krónuna þannig að unnt væri að halda gengissveiflum innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir samkvæmt gengissamstarfi Evrópu (ERM II).
  • Umbreyting peninga- og gjaldeyrismála: Já, ef til vill. (Þetta skilyrði er alltof óljóst.)
  • Varðstaða um íslenska þjóðmenningu, íslenska viðurkennd: Já. Þetta er reyndar fyrst og fremst undir okkur sjálfum komið, en til að mynda er enginn vafi á að íslenska yrði eitt hinna opinberu tungumála ES.

Birnuson, 29.4.2009 kl. 16:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband