Sjálfstæðisflokkurinn vill endurstofna Þjóðhagsstofnun

Davíð Oddsson lagði niður Þjóðhagsstofnun þegar hún hafði ítrekað sagt hluti sem honum var ekki að skapi, enda Þjóðhagsstofnun sjálfstæð stofnun. Í framhaldinu var spárhluti hennar sett inn í Fjármálaráðuneytið, þannig að sú þjóðhagsspá sem fjárlagafrumvarpið byggir á, er gerð af framkvæmdavaldinu sjálfu.

Nú kveður svo við að Ármann Kr Ólafsson, fjárlaganefndarmaður úr Sjálfstæðisflokknum, segir í umræðum á Alþingi að fjárlaganefnd ætti að hafa hagdeild sér til ráðgjafar í sínum störfum. Þingmaðurinn er sem sagt ekki að leggja annað til en að endurstofna Þjóðhagsstofnun. Öðruvísi mér áður brá.

Hins vegar verður að segjast eins og er, að það sé lítils virði að stofna hagspárdeild ef meirihlutinn hlustar ekki á hana fremur en allar þær hagdeildir og greiningadeildir sem hafa sagt  að það beri að sýna ítrasta aðhald við fjárlagagerðina. Það hefur hann ekki gert, því miður....

 


Mörg skattþrep

Starfsgreinasambandið hefur kynnt kröfugerð sína fyrir kjarasamninga. Ein þeirra er krafa til Alþingis um að taka upp sérstakt 18% skattþrep til þeirra sem hafa undir 200 þúsund á mánuði. Ég hélt reyndar að verkalýðsfélög semdu við vinnuveitendur, en Alþingi væri kjörið af þjóðinni til að setja lög, þám um skattheimtu og væri ekki aðili þessa máls.

Þessar tillögur kunna að hljóma vel, en ég vill gjalda verulegum varhug við þessum tillögum.

Það er hægt að skilja þær á tvennan hátt.

Annars vegar að allir greiði 18% af fyrstu 200.000, en ef fólk hefur tekjur yfir því séu greidd 35% af því sem er greitt er umfram 200.000. Ef það er það sem lagt er til er alveg eins hægt að leggja til 34 þúsund króna hækkun á persónuafslættinum. Það kemur á sama stað niður og engin þörf á að flækja skattkerfið þess vegna.

Hinsvegar ef þeir sem hafi laun undir 200.000 hafi 18% skattprósentu af öllum tekjum og hinir greiði 35% af sínum tekjum, munu þeir sem hafa milli 200.000 og 252 þúsund fá minna útborgað en þeir sem hafa lægri tekjur! Ef einhver sem er með tæp 200 þúsund í laun lendir í því að fá yfirvinnugreiðslur sem færði launin yfir þröskuldinn, þyrfti viðkomandi að endurgreiða mismuninn eftir á og launþeginn stæði fátækari á eftir, búinn að eyða því sem hann fékk og í sömu stöðu og þeir sem misreikna sig gagnvart Ttryggingastofnun. Ekki hefur það verið talið til fyrirmyndar. Þetta er svo arfavitlaust að það tekur ekki nokkru tali og felur í raun í sér afnám staðgreiðslukerfisins.

Þess vegna er þessi kröfugerð með öllu óframkvæmanleg og vonandi verður ekki hlustað á hana.

Aftur á móti væri hækkun persónuafsláttar allt annað mál og jákvæðara, ef efnahagsástandið þolir það. Þætti mér eðlilegt að miðað væri við að ekki sé greiddur skattur af lágmarksframfærslu hvers og eins en svo sé greitt til samfélagsins af því sem umfram það er.


Andsamfélagslegur áróður VG

Enn á ný sýna þingmenn VG að þeir hafa fullan hug á að grafa undan þeirri samfélagsgerð sem íslenska samfélagið byggist á. Nýjasti vitnisburðurinn er fyrirspurn Auðar Lilju Erlingsdóttur um kristilegt siðgæði í starfsháttum grunnskóla.

Spyr hún um hvað átt sé við með því þegar starfshættir grunnskólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi og hvort ráðherra telji kristið siðgæði að  eitthvað frábrugðið almennu siðgæði, eins og því sem trúlausir, hindúar, múslimar, ásatrúarmenn og fólk annarra trúarbragða aðhyllist og spyr í framhaldinu hver sé ástæða þess að ein trúarbrögð skuli tiltekin og einn siður.

Í spurningunni felst það viðhorf þingmannsins að kristin trú eigi ekki að vera ríkistrú Íslendinga og siður Íslendinga eigi ekki að byggjast á kristnum gildum.

Ég geri mér fulla grein fyrir því sem kristinn einstaklingur að ég er vanhæfur til að taka hlutlausa afstöðu, en það eru í rauninni allir þannig séð. En meðan 90-95% þjóðarinnar aðhyllist kristna trú, þarf að hafa afar skrýtna sýn á lýðræðið til að geta séð út úr því að sá yfirgnæfandi meirihluti eigi engu að fá ráðið um siðinn í landinu, heldur eigi kallandinn í eyðimörkinni að fá að stjórna. Kristin trú boðar umburðarlyndi, þám gagnvart hinum "vantrúuðu", en það felur ekki þar með í sér að gefa eigi allt eftir gagnvart öðrum trúarbrögðum og siði.

Þetta er sama viðhorf og kommúnistar Sovétríkjanna höfðu og virðist enn lifa góðu lífi hjá VG. Hvernig gekk með siðinn þar, manngæskuna, umburðarlyndið og virðinguna fyrir mannslífum, þar?


Starfsheitisumræðan um ráðherrana

Ég er sammála Steinunni Valdísi að starfsheitið ráðherra sé karllægt og óþjált þegar konur gegna embættinu, en er um leið til efs að það finnist betra heiti á það. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.

En þangað til að betra nafn finnst ætti að útnefna þetta starfsheiti, ráðherra, minnisvarða um þá skoðun sem forfeður okkar höfðu á þátttöku kvenna í stjórnmálum og um leið ævarandi hvatning um að sofna aldrei á verðinum í jafnréttismálum.


Enn ein stefnubreytingin í umhverfismálum Samfylkingarinnar?

Kristján L Möller vill að sótt verði um undanþágu frá losunartakmörkunum frá íslenska flugflotanum. Eins og ég hef rakið áður, losar hann um það bil það sama og öll íslenska stóriðjan sem Samfylkingin var svo mikið á móti, amk fyrir kosningar.

Þetta er á engan hátt í samræmi við yfirlýsingar umhverfisráðherra Samfylkingarinnar sem vill ekkert íslenskt ákvæði um losun gróðurhúsalofttegunda, engar undanþágur, sem er ekki í samræmi við vilja iðnaðarráðherra Samfylkingarinnar sem vill hefja leit að olíu og áframhaldandi uppbyggingu, að maður tali nú ekki um vilja forsætisráðherra sem vill framhald stefnu fyrrverandi ríkisstjórnar.

Ef blaðamannastéttin ber einhverja viðringu fyrir sjálfri sér, ætti hún að komast að því hverja af þessum meintu stefnum Samfylkingarinnar formaður Samfylkingarinnar telji að sé stefna Samfylkingarinnar. Það er í það minnsta ekki Fagra Ísland sem virðist vera ofaná. Ætli það sé með Fagra Ísland eins og annað hjá Samfylkingunni, bara plat þar sem Samfylkingin er komin í ríkisstjórn, eins og Helgi Hjörvar lýsti því?


Stefnubreyting Helga Hjörvar

Helgi Hjörvar ritar undaurfurðulega grein í 24 stundir um helgina, sem hann kallar Fagra Ísland. Þar reynir hann að eigna Samfylkingunni allt það góða sem gerst hefur í umhverfismálum undanfarið og sverja af sér allt annað.

Nafnlaus síða, huslesturinn.blogspot.com svarar honum vel og hrekur málflutning hans lið fyrir lið. Ég hef engu við það svar að bæta.


Undarleg stjórnsýsla við sölu eigna ríkisins

Ætli Morgunblaðið eða RÚV muni spyrja Árna M Mathiesen um þessa frétt, sem birtist á www.dv.is?

"Fjárfestingarfélagið Háskólavellir hefur fest kaup á tæplega 1700 íbúðum á varnarliðssvæðinu á Miðnesheiði án þess að kaupin hafi farið eftir hefðbundnum reglum um sölu ríkiseigna. Að félaginu standa m.a. Glitnir, fasteignafélagið Þrek, fjárfestingafélagið Teigur, Sparisjóðurinn í Keflavík og fasteignaþróunarfélagið Klasi, sem Þorgils Óttar Mathiesen er í forsvari fyrir. Keyptu Háskólavellir íbúðirnar af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar. Heildarvirði samningsins er um 14 milljarðar króna."


Í ljósi útlendingaumræðunnar undanfarið

... væri kannski hollt að rifja upp ummæli sem fallið hafa af vinstri vængnum vegna misstiga bandarískra hermanna af Vellinum í gegnum árin. Þess sama vinstri vængs sem undanfarið hefur verið heilagt misboðið vegna þess að fjölmiðlar hafa getið þjóðernis þeirra sem hafa misstigið sig á síðustu mánuðum.

... þá helgaði tilgangurinn meðalið, en ekki lengur?

... þætti annars líklegt að ef tekinn væri tilsvarandi hópur íslendinga, gagnvart kyni, aldri og hjúskaparstöðu væri hlutfallslegur fjöldi afbrota ekki ósvipaður, og hjá þeim hópi útlendinga sem er að freista gæfunnar hjá okkur þessi misserin.


Fáránlegur málflutningur Eiríks Bergmann

Evrópusinninn, stjórnmálafræðingurinn, dósentinn, en ekki síst Samfylkingarmaðurinn Eiríkur Bergmann leyfir ekki athugasemdir á bloggi sínu. Í sinni seinustu færslu segir hann:

"Birkir Jón Jónsson, sem kynnir sig stjórnmálamann á Alþingi og í Framsóknarflokknum, fellur í þann grautfúla pytt sumra stjórnmálamanna sem þrýtur rök að ráðast að starfsheiðri manna"

Það áhugaverða við færslu Eiríks er að hann kemur ekki með nein rök eða skýringar á því hvernig hann kemst að þessari niðurstöðu.

Er Eiríkur hafinn yfir það að gera grein fyrir upphrópunum sínum í krafti stöðu sinnar?


VG á móti lýðræðinu?

Þessi málflutningur VG er dæmigerður fyrir viðhorf þeirra til lýðræðisins. Það á nefnilega bara við ef það nýtist þeim sjálfum. Þau virðast ekki átta sig á því að lýðræðið byggist á því að hlýta vilja meirihlutans. VG vill geta tekið fram fyrir hendurnar á meirihlutanum og svipt hann meirihlutavaldi sínu með málþófi, sem er alls ekki til að auka virðingu Alþingis né stjórnskipuninni yfirhöfuð. Þessi vinnubrögð gerir það einnig að verkum að einstaka mál taka allan tíma þingsins og önnur eru þar með unnin í hasti og því ekki á eins vandaðan hátt og æskilegt væri. Það er alvarlegt.

Hafandi sagt þetta á að sjálfsögðu að tryggja að öll sjónarmið fái að koma fram áður en ákvörðun er tekin og allar upplýsingar liggi fyrir. En valdarán málþófs á ekki að líða og lýsi ég sérstakri ánægju minni með Sturlu í þessu máli.


mbl.is Alþingi vinni vinnuna sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband