Ásta Möller og einkavæðing heilbrigðiskerfisins

Í kjölfar þess að Siv Friðleifsdóttir lýsti áhyggjum sínum með áætlun Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins sem Guðlaugur Þór gat ekki svarið af sér í Silfri Egils á sunnudaginn var, hefur Ásta Möller greinilega verið sett í að skrifa grein í Morgunblaðið til að reyna að draga úr skaðanum. Biður Ásta Siv að hætta að snúa út úr stefnu Sjálfstæðisflokksins.

Er Ásta með ýmsar tilvitnanir í heilbrigðisstefnu Sjálfstæðisflokksins, þar sem leiðin til einkavæðingar er reyndar vörðuð, eins og ég hef áður rakið, en hún lætur eiga sig að minnast á að í atvinnumálastefnu flokksins segir með tilvísun í góðan árangur af einkavæðingu bankanna:

"...Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði  heilbrigðis-, mennta- og orkumála. "

Þarf frekari vitnanna við?

Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að einkavæða heilbrigðiskerfið með stuðningi Samfylkingarinnar, sem samþykkt hefur stjórnarsáttmála sem rúmar allar nauðsynlegar undirbúningsaðgerðir áður en skrefið verður stigið til fulls.


Engar aðgerðir kynntar

Fyrst nú, nokkrum mánuðum eftir að búið var að gefa yfirlýsingar um að til stæði að kalla saman alla aðila efnahagslífsins, tuðlaðist ríkisstjórnin til að kalla hluta þess hóps á samráðsfund í dag. Hún hefur greinilega ekki þorað að tala við nema hluta þeirra.

Hafa ýmsir beðið með eftirvæntingu eftir því hvað ríkisstjórnin hefði fram að færa, enda liðnar fleiri vikur frá því að forsætisráðherra tilkynnti á ársfundi Seðlabankans að í undirbúningi væru aðgerðir í efnahagsmálum sem kynntar yrðu innan tíðar, sem og utanríkisráðherra og viðskiptaráðherra.

En hvernig kom ríkisstjórnin undirbúin? Með ekkert! Hún las sem sagt ekkert fyrir prófið og var í rauninni að biðja um hjálp með því að segja að greina þurfi vandann í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins!!!!

Ekki svo að skilja að góð samvinna við alla aðila sé ekki af hinu góða, síður en svo, en hefur ríkisstjórnin verið gersamlega upptekin við að pressa fínu fötin og skoða stimplana í vegabréfunum?

Hvernig á maður að skilja yfirlýsingarnar sem gefnar voru áður, hafði engin greining átt sér stað og enginn undirbúningur?

Voru þær yfirlýsingar bara plat?

Þvílík vinnubrögð, þvílíkur sofandaháttur!

Er nema von að efnahagslífið eigi við trúverðugleikavanda að stríða?

Eins gott að ríkisstjórnin er þó búin að kalla þessa aðila saman og vonandi gengur þeim eitthvað að vinna heimavinnuna fyrir ríkisstjórnina, svo einhver glóra verði í efnahagsstjórninni.


mbl.is Ætla að vinna á verðbólgunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er stefna Guðlaugs Þórs í heilbrigðismálum?

Guðlaugur Þór Þórðarson komst í krappan dans í Silfri Egils í dag. Hann vék sér undan því að svara Siv Friðleifsdóttur um hvert hann stefndi með heilbrigðiskerfið. Það vekur tortryggni að ekki sé svarað skýrt um hvort einkavæðing heilbrigðiskerfisins sé á dagskrá.

Björgvin G Sigurðsson reyndi að koma honum til hjálpar með því að benda á að stjórnarsáttmálinn væri í gildi, en þar kvæði um jafnt aðgengi óháð efnahag. En í stjórnarsáttmálanum stendur einmitt að auka eigi útvistun verkefna, sem er það sem þarf til að Guðlaugur geti undirbúið að koma stefnu Sjálfstæðisflokksins til framkvæmda, þar sem segir meðal annars:

"Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda almannatryggingum og að heilbrigðisþjónusta sé að mestu greidd úr sameiginlegum sjóðum.  Fundurinn telur að breyta þurfi kerfi sjúkratrygginga á þann veg að ljóst sé að um raunverulegt tryggingakerfi sé að ræða þar sem menn njóta skilgreindra réttinda til þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir með sérstökum iðgjöldum. Skilgreina þarf lágmarkssjúkratryggingu svo að einstaklingarnir viti hver trygging þeirra er. "

og:

"Æskilegt er að settar verði reglur um hámarksbið og að skilgreindur verði réttur sjúkratryggðra til að leita annað eftir þjónustu."

Ég feitletraði það sem ég staldraði við. Reyndar staldraði ég mest við það sem ekki stóð í samþykktinni. Í stefnu Sjálfstæðisflokksins stendur nefnilega hvergi að tryggt skuli jafnt aðgengi að heilbrigðiskerfinu. Er að í samræmi við annað sem í stefnunni stendur.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að sjúklingar taki verulegan þátt í heilbrigðisþjónustunni. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart úr þeirri áttinni, enda átti Framsókn í stöðugu stríði við íhaldið um þátttökugjöldin í síðustu ríkisstjórn.

En það er orðalagið um lágmarkssjúkratryggingu sem maður staldrar helst við, þegar það er sett í samhengi við stefnu flokksins um rétt sjúklinga til að leita annað eftir þjónustu. Það að segja að sjúklingar eigi að fá að leita annað eftir þjónustu ef sú þjónusta sem ríkið veitir á grundvelli lágmarkssjúkratryggingarinnar dugar ekki, þýðir ekkert annað en að það sé stefna Sjálfstæðisflokksins að hægt verði að fara til einkaaðila með lágmarkssjúkratryggingatékkann frá Tryggingastofnun og bæta því við sem einkarekni spítalinn eða stofan setur upp og borga sig þannig fram fyrir biðröðina ef einhver skilgreind markmið um hámarksbið nást ekki.

Það er að fara af braut jafns aðgengis allra að heilbrigðiskerfinu, óháð efnahag.

Orðið lágmarkssjúkratrygging felur í sér að eitthvað skuli vera til sem er umfram lágmarkið, ef menn greiða hærra iðgjald en þann 4.500 kr á mann á mánuði, óháð aldri, sem heilbrigðiskerfið kostar í dag. Þá líklegast í einkarekinn sjúkrasjóð.

Til að koma þessu vonda kerfi á laggirnar þarf að koma sem mest af verkefnum út úr spítölunum til að tryggja rekstrargrundvöll einkaspítala, minnka afkastagetu ríkiskerfisins og koma á ástandi biðraða og sveltis sem mun svo kalla á frekari einkavæðingu og í leiðinni aukið fylgi við skilgreininguna um hámarksbið, sem verður líklega verkefni næsta kjörtímabils, en á þessu kjörtímabili virðist ætlunin að undirbúa jarðveginn.

Þegar er búið að skipa nefnd til að skilgreina hverju er hægt að henda út úr Landsspítalanum í fyrstu umferð, undir forystu Vilhjálms Egilssonar.

Þetta er í algerri andstöðu við stefnu Framsóknar og komst íhaldið aldrei neitt í þessa átt í tíð síðustu ríkisstjórnar, svo það er ekki skrítið að formaður Flokksins lýsi því glaður yfir að nú sé hægt að gera breytingar á heilbrigðiskerfinu sem aldrei hefði verið hægt að gera í samstarfinu með Framsókn.

Guðlaugur Þór virðist sem sagt vera á þeirri leið sem flokkssamþykktir hans segja til um, óháð því sem stjórnarsáttmálinn segir til um. Mun Samfylkingin kyngja því eins og öllu öðru?


Framsóknarhjartað slær í takt

Guðni Ágústsson sló góðan takt í dag. Takt sem hjörtu Framsóknarmanna slá nú í. Um leið fór Framsókn að sýna sitt rétta andlit, sem flokkur sem getur fundið skynsamlega leið til lausnar á flóknum viðfangsefnum sem þjóðin þarf að kljást við, eins og spurningin um stöðu Íslands í Evrópu er.

Innan flokksins eru margir sem hafa ekki gert upp við sig hvert beri að stefna, en einnig stjórnarmenn í Heimssýn, samtökum andstæðinga ESB aðildar, formaður Evrópusamtakanna og stjórnarmenn í þeim samtökum. Þannig er alveg ljóst að Framsókn mun aldrei koma fram með niðurstöðu í þessu máli sem allir flokksmenn munu geta fylgt.  Í viðurkenningu á því felst einmitt styrkur Framsóknar, að geta borið virðingu fyrir skoðunum hvers annars og fundið þeirri umræðu skynsamlegan farveg, sem á endanum leiðir til lýðræðislegrar niðurstöðu þjóðarinnar.

Umræðan um framtíðarstöðu Íslands í Evrópu hefur hingað til verið allt of grunn og stjórnast um of tilfinningum og trú. Líklegast vegna þess hve margt er á huldu, forsendur óljósar og staðreyndir á reiki. Hefur hún oft frekar líkst rifrildi manna um ágæti fótboltaliða sinna en vitrænni umræðu um alvarleg málefni.

Upp úr því fari verður umræðan að komast og markar Framsókn með tillögu sinni um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu leið til þess. Umboðið yrði skýrt, markmiðin og viðfangsefnin betur skilgreind og verkefni stjórnmálamannanna þar með einfaldara og vænlegra til árangurs en ella.


mbl.is Þarf að breyta stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Refsing fyrir orð án athafna

Þessi skoðanakönnun er í rauninni skilaboð um eitt. Það er ekki nóg að vera með fagurgala. Það verður að aðhafast eitthvað. Það þarf að sýna að orðin hafi einhverja merkingu.

Síðasta dæmið um það er enn ein yfirlýsingin um að kalla þurfi saman alla aðila til að ræða efnahagsmálin. Ef ég man rétt var það efst á lista í kosningaefnahagsstefnu Samfylkingarinnar. Það orðalag komst einnig ómengað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nú síðast í fréttum í dag er enn reynt að spila sama spilinu út sem svari við ástandinu í efnahagsmálum. Að tala saman.

Engar aðgerðir, bara að tala saman. Það er gott að tala saman og alveg bráðnauðsynlegt, en ekkert bólar hins vegar á efndum, þrátt fyrir að hafa tæpt ár til að koma samráðsvettvangnum á.

Af hverju er ekki löngu búið að kalla þessa aðila saman?

Það ætti nú ekki að vera mikið mál að hringja í þessa aðila og fá þá á fund. Ég er nokkuð viss um að þeir gætu fundið tíma í dagatalinu hjá sér til þess.

Er það vegna þess að ríkisstjórnarsamstarfið þolir ekki að sjónarmið þessara aðila komi fram á formlegum samráðsvettvangi þar sem taka þarf málefnalega afstöðu til þeirra?


mbl.is Fylgi við Samfylkingu og ríkisstjórn minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband