Ákvarðanatökufælni á háu stigi?

Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru ráðherrar nokkrum sinnum vanhæfir til að úrskurða í þeim málum sem þeir höfðu tjáð skoðanir sínar um áður en að úrskurði kom. Skemmst er að minnast setningu Jóns Kristjánssonar sem umhverfisráðherra í úrskurðinum um Þjórsárverin.

Mér sýnast ráðherrar Samfylkingarinnar vera að koma sér hjá fjöldan allan af erfiðum málum með því að vera að blaðra um skoðanir á hinum og þessum málum sem gætu seinna komið til úrskurðar þeirra. Þar sem umræddir ráðherrar eru að lýsa skoðunum sínum í málum sem gætu komið til úrskurðar þeirra. Össur Skarphéðinsson er hvað duglegastur í þessu, en umhverfisráðherra hefur einnig verið með yfirlýsingar sem miðað við það sem á undan er gengið virðist einnig gera hana vanhæfa. Sem dæmi má nefna yfirlýsingar um olíuhreinsistöð og virkjanir í neðri hluta Þjórsár.

Þetta eru einstaklingar sem hafa talsverða reynslu og ættu að vita hvað þeir séu að gera, þannig að það sem blasir við er að þeir vilja ekki hafa ákvarðanir í þessum málum á sinni málaskrá og eru að skrifa sig frá þeim með yfirlýsingum sínum. Það er ákvarðanatökufælni.


Breytingar í dönskum stjórnmálum

Eitthvað myndi nú heyrast hér á landi ef formaður eins flokks myndi ganga í annan og leggja til að hann yrði lagður niður og Jyllands-posten greindi frá á dögunum, en Bjarne Møgelhøj, formaður CD gekk á dögunum í hinn nýja flokk Ny Alliance og lagði til við sinn gamla flokk að hann yrði lagður niður. Ny Alliance virðist vera að festa sig í sessi og ýta öðrum flokkum út af vinstri hluta dönsku miðjunnar og ýta krötunum lengra til vinstri en þeir kannski hefðu viljað sjálfir.


Tvöföld lögheimilisskráning barna

Fyrir nokkrum árum heyrði ég í fréttum að óhefðbundnar fjölskyldur væru orðnar fleiri en hefðbundnar. Það eru sem sagt fleiri fjölskyldur í dag þar sem annað hvort er einstæður foreldri eða að eitthvert barna annars hvors foreldris er ekki barn hins.

Við þessari staðreynd nútímasamfélagsins hefur "kerfið" ekki brugðist, þótt sameiginleg forsjá sé orðin meginreglan samkvæmt lögum. Barn verður að vera skrá á einum stað og einungis einum stað, jafnvel þótt forræði barnsins sé hjá tveimur einstaklingum sem hafa sitt hvort lögheimilið og sá sem "fær" lögheimilið fær stöðuna einstætt foreldri, amk meðan sá aðili er ekki skráður í sambúð. Bætur og skattaumhverfið nýtist einungis þeim sem er með lögheimilið meðan að framfærsluskyldan og aðrar skyldur eru að sjálfsögðu jafnar. Svo er þeim sem ekki hefur lögheimilið skylt að greiða meðlag, að lágmarki 219.408 kr á ári! Reyndar er ekki sagt nákvæmlega til um hvernig uppgjöri þess skuli háttað, en foreldrið sem fær lögheimilið fær auk þess barnabætur upp á allt að 288 þúsund á ári, hækkun á hámarki vaxtabóta upp á 154.762 kr eða 84.000 hærri húsaleigubóta við eitt barn.

Þetta er allt í allt allt að 443 þúsund sem ríkið greiðir meira til lögheimilishafans, auk þess sem hinn aðilinn verður að greiða um 220 þúsund í meðlag að lágmarki, allt í allt mismunun upp á 880 þúsund bara vegna þess að ekki er hægt að skrá lögheimili barns á tveimur stöðum.

Þetta er eitthvað sem þarf að breyta. Réttarstaða við sameiginlegt forræði verður að vera skýr og sanngjörn.


Hugrakkar konur

Mætti einni konu áðan, sköllóttri eða broddaklipptri. Mikið er gaman að sjá svona hugrakkar konur sem eru ekkert að fela það hvað þær eru að ganga í gegnum og leyfa okkur hinum þar með að hugsa fallega til þeirra.

Er gjaldmiðlaumræðan of þröng?

Nú ríða menn um héruð og predika að við eigum að kasta krónunni og taka upp Evru. Skeggrætt er hvort fara eigi að ráðum Svartfellinga og taka hana einhliða upp eða hvort full þátttaka í myntbandalaginu með inngöngu í Evrópusambandið sé nauðsynleg til þess að svo megi verða.

Ég tel reyndar ólíklegt að sú leið verði farin, þar sem full þátttaka í myntbandalaginu krefst þess að hér sé efnahagsástandið gott í langan tíma og ef aðstæður yrðu með þeim hætti væri á þeim tímapunkti erfitt að sannfæra þjóðina um að breyta þyrfti til, enda ástandið þá dágott.

En það eru fleiri möguleikar en að tengjast Evrunni, sem þyrfti að skoða og ræða. Helst hefur verið rætt um að tengjast dollaranum eins og El Salvador gerði, en hann hefur ekki verið að sýna mikinn styrk og hætt er við að áhrif annarra, eins og t.d. Kínverja á hann séu of mikil eða muni verða til að hann sé fýsilegur. En það eru aðrar leiðir mögulegar, eins og t.d. pundið eða svissneska Frankanum.

Annar möguleiki væri að fara í myntbandalag með öðrum þjóðum í EFTA og bjóða jafnvel öðrum þjóðum eins og Dönum og Svíum með. Þannig gætum við farið í stærra myntsvæði án þess að uppfylla skilyrði Evrusamstarfsins og samningsstaða okkar gagnvart Evrópusambandinu væri miklu betri.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu í framhaldinu.


Af tröppum stjórnarráðsins skal hoggið...

Ef ég væri Einar Hermannsson myndi ég íhuga það alvarlega að kæra Kristján Möller fyrir rógburð og árás á starfsheiður, en ráðherra samgöngumála lýsir því yfir af tröppum Stjórnarráðsins þann 14. ágúst að hann hafi krafist þess af Vegagerðinni að hún leiti aldrei framar ráða hjá honum. Hið sama hlýtur þá að gilda um önnur ráð skipaverkfræðingsins á verksviði sínu og þar með megi Siglingastofnun ekki samþykkja neitt það sem Einar skrifar upp á og er hann því samkvæmt því verklaus á Íslandi. Það hefur ítrekað komið fram að hann gaf ráð miðað við allt aðra framkvæmd og allt aðrar forsendur en Samgönguráðherra og Vegagerðin fóru svo af stað með.

  • Hann miðaði við að ástandi skipsins vegna lélegs viðhalds yrði komið í viðunandi horf, en að öðru leiti yrði það óbreytt.
  • Hann miðaði við að verkið yrði unnið í Austur-Evrópu, þar sem verð eru miklu lægri, en vegna þrýstings frá hagsmunasamtökum var veittur afsláttur frá útboðsskilmálum og samið við innlent fyrirtæki sem uppfyllti engan vegin þau skilyrði sem sett voru.
  • Hann miðaði við að skipið yrði skoðað betur áður en gerður yrði kaupsamningur.
  • Hann miðaði við að skipið fengist á mun lægra verði en raunin varð.
  • Hann vann ekki þá skilmála og lýsingar sem verkið var unnið eftir og eftir að skipið var keypt kom hann á engan hátt að málinu.

Þess vegna getur Kristján á engan hátt staðið við þessi orð sín, en hann hefur þegar fellt sinn dóm, hafandi sent þessi fyrirmæli til Vegagerðarinnar, gert mannin ómerking sem skipaverkfræðing innan lands og verður að standa skil á þeim.

Ég myndi kæra.


Lögbrot í boði fjármálaráðherra

Þetta Grímseyjarferjumál er sífellt að vinda upp á sig. Í ljós hefur komið að Fjármálaráðherra, Samgönguráðherra og Vegagerðin gerðu með sér samkomulag um að brjóta lög og fara 400 milljónir fram úr þeim lagaheimildum sem þeir höfðu til Grímseyjarferjunnar.

Þar sem yfirmaður fjármála ríkisins tekur þátt í gjörningnum finnst mér Árni Mathiesen Fjármálaráðherra vera að fría Sturlu Böðvarsson ábyrgð hvað varðar eyðslu umfram fjárheimildir, og situr í rauninni einn ábyrgur fyrir þeirri ákvörðun að fara vísvitandi á svig við fjárlög ríkisins, sem sett eru af Alþingi sem eitt hefur heimild til að úthluta fé ríkisins.

Mér þykir athygli vert hversu lítið fjölmiðlar beina kastljósi sínu að honum.


Er ekki rétt að horfa á orsökina en ekki afleiðingarnar?

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur frumorsök þessa klúðurs fram. Hún er sú sama og Vegagerðin hefur orðið að búa við frá upphafi og á ekki síður og kannski mun frekar við þá vegi sem ekki fljóta. Alþingismenn að skipta sér af hlutum sem þeir eiga ekki að vera að skipta sér af og Vegagerðin fær ekki að láta fagleg hlutlaus sjónarmið ráða ákvörðunum.

"Félag járniðnaðarmanna sendi alþingismönnum m.a. bréf, þar sem því var haldið fram að í útboðsgögnunum væru sett skilyrði sem gerðu íslenskum skipasmíðastöðvum erfitt fyrir að bjóða í og jafnvel ómögulegt að fá verkið. Af þessu tilefni fór fjármálaráðuneytið þess á leit að Ríkiskaup tækju til skoðunar hvort bregðast mætti við ábendingum félagsins. Ríkiskaup brugðust við ábendingum frá fjármálaráðuneytinu með því að slaka nokkuð á umræddum kröfum og breyttu útboðslýsingunni í samræmi við það. Í svari sínu frá 30. janúar 2006 við erindi fjármálaráðuneytisins tóku Ríkiskaup engu að síður fram að upphaflegar kröfur, skilmálar og matslíkan útboðsins hafi endurspeglað markmið kaupanda með útboðinu."

Sem sagt þrýstingur frá Alþingismönnum varð til þess að fyrirtæki sem ekki uppfyllti almenn skilyrði til að mega bjóða í verk hjá hinu opinbera fékk verkið að því að virðist handvirkt. Neikvæð eiginfjárstaða er t.a.m. afar góð vísbending.

Vonandi verður þessi skýrsla til þess að Alþingismenn hætti að skipta sér af hlutum sem þeir ættu ekki að vera blanda sér í en vandi sig þeim mun betur að því að setja okkur almenn og góð lög.


mbl.is Vegna greinargerðar Ríkisendurskoðunar um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að virkja á þremur stöðum í Þjórsárdal?

Eitthvað virðist umhverfisráðherra vera að misskilja hlutina þegar hún segir að Þjórsárdalur verði aldrei samur, verði af áformum Landsvirkjunnar um þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Ég vissi ekki betur en að það sé bara ein þeirra, Hvammsvirkjun, sem snerti Þjórsárdal. Reyndar er það sú sem helst mætti breyta til að minnka umhverfisáhrif, enda fer fallegt og gott land undir fyrir síðustu metrana sem ná á í fallhæð. Ef ég man rétt var ekkert fjallað um þann möguleika að lækka hana í umhverfismatinu fyrir virkjunina.

Ráðherra verður að passa sig á að láta ekki ýkjur og afvegaleiðingar mótmælenda villa sér sýn.


mbl.is Þjórsárdalurinn aldrei samur verði af virkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugavert hvaða svör Jón fær um Ratsjárstofnun

Með ríkisstjórn sem er með aukinn meirihluta á bakvið sig á þingi, verður fróðlegt að sjá hvaða svör hann fær. Svo virðist sem hann muni fá eitt svar frá hverjum ráðherra og formanni fastanefndar, sama í hvorum flokknum sem hann er. Það er glæsilegt að búa við ríkisstjórn sem hefur allar stefnur í hverju máli.
mbl.is Óskar eftir fundi um yfirtöku á Ratsjárstofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband