Vegna fréttar Stöðvar 2 um birgðastöðina í Hvalfirði

Ég starfa sem umhverfis- og öryggisfulltrúi Olíudreifingar og vil nýta þennan vettvang til að koma eftirfarandi á framfæri vegna fréttar Stöðvar 2 í kvöld um olíubirgðastöðina í Hvalfirði:
  • Viðskiptaaðili  Olíudreifingar í þessu tiltekna máli er finnska ríkisolíufyrirtækið NESTE.  NESTE er virt félag sem hefur m.a. vottað gæðakerfi og hefur hlotið viðurkenningu fyrir sína umhverfis- og öryggisstefnu.  Fulltrúar NESTE komu hingað til lands oftar en einu sinni til að fylgjast með og taka út þá viðhaldsvinnu sem unnin var í birgðastöðinni Hvalfirði.  Öll framkvæmdin hlaut því viðurkenningu þeirra ásamt opinberra aðila.  NESTE hefur m.a. þá sérstöðu að reka eigin skip með finnskri áhöfn þar sem þeir vilja halda utan um öryggismálin alla leið. 
  • Skipið var aldrei í hættu við bindingu á þriðjudaginn og losun á miðvikudaginn var. Um þessar aðgerðir hefur félagið, í samvinnu við Siglingastofnun, sett stífar reglur um við hvaða veðuraðstæður taka megi skip í legufæri, hvenær megi hefja dælingu, hvenær henni skuli hætt vegna veðurs og hvenær eigi að leysa skip úr legufærum. Sömu reglur segja til um hversu marga dráttarbáta eigi að nota við þessar aðgerðir
  • Bryggjan sem um ræðir er ekki hrörleg og uppfyllir allar þær kröfur sem gerðar eru til hafnarmannvirkja. Stór olíuskip leggjast ekki að bryggjunni, heldur í legufærum utan við bryggjuna. Öryggismál og vöktun uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til hafnarverndar og hefur viðurkenningu Siglingastofnunar þar að lútandi. Stöðug vakt er á bryggjunni þegar skip er við bryggjuna eða í legufærum.
  • Olíubirgðastöðin hefur starfsleyfi frá Umhverfisstofnun til geymslu bensíns. Fyrir útgáfu þess voru allir þeir geymar sem notaðir eru til geymslu bensíns skannaðir og viðgerðir og eru í fullkomnu lagi.
  • Olíudreifing og forverar hafa rekið olíubirgðastöðina í Hvalfirði og tekið þangað fjölda skipa af ýmsum stærðum.   Til staðar er því mikil reynsla bæði hjá starfsmönnum félagsins sem og hjá þeim lóðsum sem Olíudreifing hefur notið þjónustu frá við móttöku og afgreiðslu skipa við þessar aðstæður.  Olíudreifing hyggst halda þessari starfsemi áfram enda er það meginverksvið félagsins að taka á móti, geyma og dreifa eldsneyti. 
  • Það er ekki á vitorði Olíudreifingar að Faxaflóahafnir hafi sent stjórnvöldum umkvörtun vegna starfsemi félagsins í Hvalfirði.  Rétt er að Faxaflóahafnir beindu því til yfirvalda að sett yrði lóðsskylda á skip sem sigldu um Hvalfjörð.  Sú ábending snerti Olíudreifingu ekkert þar sem að skip á vegum félagsins hafa alltaf notið þjónustu lóðs þegar um önnur skip en skip félagsins eiga  í hlut.  Lóðsskylda breytir því engu um vinnutilhögun Olíudreifingar við móttöku olíuskipa í Hvalfriði.

Í hvaða stjórnarsamstarfi er Helgi Hjörvar?

 Rakst á afar furðulega grein eftir Helga Hjörvar í 24 stundum í morgun. Skrifar hann þar um þær framfarir sem orðið hafa í kjörum öryrkja og aldraðra síðan Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn tóku við völdum og þvílíkur munur það sé frá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og Framsóknarflokksins. Breytingarnar sem hann mærir svo mjög bæta reyndar aðallega kjör þeirra sem hafa fyrir nokkuð trygga framfærslu en koma að afar litlu gagni fyrir þá lífeyrisþega sem verst standa, ef nokkuð. Þeir gagnast sem sagt lítið þeim sem komu seint inn í lífeyrissjóðakerfið og sitja núna uppi án uppsafnaðra réttinda. Það er tímabundinn nokkuð vel skilgreindur vandi sem tak þarf sértækt á. Það er ekki gert með þessum aðgerðum.

En þessar söguskýringar Helga er eitthvað það vitlausasta sem ég hef séð lengi og er þó af nógu að taka. Ég veit ekki betur en að Davíð Oddsson hafi hætt sem forsætisráðherra fyrir að rúmum þremur árum síðan og í ríkisstjórn fyrir rúmum tveimur árum. Við honum tók Geir H Haarde, fyrst sem utanríkisráðherra og svo sem forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Helgi skrifar um fyrri ríkisstjórn annaðhvort af fáránlegri fávísi eða með hreinum fölsunum um fyrri ríkisstjórn, nema hann upplifi Sjálfstæðisflokkinn það sundraðan að hann telji sig geta vísað til ákveðinn fylkinga innan hans?

Það er augljóst hvað Helgi er að fara með þessum söguskýringum sínum. Hann vill sýna fram á að framfarir hafi orðið vegna nýrrar ríkisstjórnar en vill um leið ekki horfast í augu við þá staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn var í þeim báðum og þorir ekki að styggja hina nýju vini sína. Þetta er hvorki heiðarlegur né drengilegur málflutningi og alþingismanninum til mikillar skammar.


Bloggfærslur 15. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband