Orð dagsins...

... á Hanna Birna Kristjánsdóttir í Silfri Egils áðan, þegar hún kannast ekkert við klofning hjá íhaldinu en minnti jafnframt á að sexmenningarnir hafi komið úr báðum örmum flokksins.

Þetta slær út næst bestu orð dagsins, sem hún átti sjálf þegar hún sagði að það hefði aldrei hvarflað að henni að meirihlutinn myndi springa, jafnvel þótt hún segði stuttu síðar að á sama tíma hefðu verið ýmsar þreifingar í gangi...


Er gjaldmiðilsumræðan að færast á vitrænt plan?

Það er allrar athygli vert að lesa viðtöl við viðskiptaforkólfa þessa dagana. Telja þeir inngöngu í ESB ekki fýsilegan kost, en um leið telja þeir krónuna ekki á vetur setjandi. Ég merki þáttaskil í yfirlýsingum þeirra.

Þetta er afar líkt þeim málflutningi sem við Framsóknarmenn höfum haldið uppi undanfarin ár. Innan flokksins hefur verið rætt um kosti og galla, innan og utan ESB, upptöku evru eða annarra mynta. Umfram allt hefur verið ljóst að slíkar ákvarðanir eigi að taka í styrkleika okkar en ekki í flótta, uppgjöf og ákvarðanatökufælni, eins og maður hefur upplifað málflutning Samfylkingarinnar, en um leið verður að ræða málin af fullri eindrægni, öfugt á við íhaldið og VG.

Það væri mikil fórn sú fórn á fullveldinu sem innganga í ESB væri og afsal á mörgum möguleikum á alþjóðavettvangi og ef tilgangurinn væri sá einn að nýta stöðugleika myntkerfis ESB, Evrunnar, eru fleiri möguleikar en að taka hana upp. Tökum sem dæmi Dani, sem hafa bundið sína mynt við Evru, áður þýska Markið í áratugi og farnast vel með það fyrirkomulag. Ef okkur hentaði ekki það fyrirkomulag lengur eða vildum skipta um mynt hefðum við alla möguleika á að breyta því ef við kysum svo.

Hægt væri að "teika" svissneskan Franka, Dollar, Pund.

Það er á einhverjum svona nótum sem ég teldi farsælast að umræðan færi að þróast og vonandi marka þessi ummæli forkólfanna upphaf þeirrar umræðu á víðum grundvelli.

En umfram allt er ljóst að fyrst þarf að ná stöðugleika í efnahagsmálum, áður en menn geta leyft sér að hugsa til ákvarðanatöku sem þessarar. Því miður virðist núverandi ríkisstjórn ekki vera nægjanlega samlynd til að hún megni það.


Bloggfærslur 30. desember 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband