Fréttastofa Sjónvarpsins að missa allan trúverðugleika

Sjónvarpið er ekki hætt rógsherferð sinni á hendur Jónínu Bjartmarz, umhverfisráðherra.

Þau rifja upp málið á sama hátt og í gær, hamra á því að mál þessarar stúlku sé einstakt þrátt fyrir að formaður Allsherjarnefndar hafi fullyrt að svo sé ekki. Hann skýrði greinilega frá því að 30% af þeim 150 sem hefðu fengið íslenskt ríkisfang með þessum hætti á síðasta kjörtímabili, hefðu dvalið hér á landi innan við 2 ár, en 15 mánaða dvalartími hennar er það sem Helgi Seljan, fv kosningastjóri Samfylkingarinnar, notar sem aðalrök í sínum málflutningi. Í því ljósi verður að spyrja, Hvað gengur þeim til að halda áfram sinni rógherferð? Af hvaða hvötum eru þau að níðast á þessari stúlku frá Guatemala?

Að sjálfsögðu má Bjarni Benediktsson ekki greina nákvæmlega frá málsatvikum, frekar en að hann mætti ekki greina frá því af hverju þeim palestínsku konum sem dregnar voru inn í fréttatímann var synjað.  Reyndar kom ekki fram í fréttinni að þær hefðu sótt um ríkisfang til Alþingis. Bara að Útlendingastofnun hefði hafnað þeim.

Þær eru svo látnar koma með fyrirsögnina, spurðar leiðandi spurningar "eru allir jafnir fyrir lögum?" sem þær svara leiddar neitandi. Hvers konar endemis vinnubrögð eru þetta?

Að leiða einhvern einstakling úti í bæ sem ekkert þekkir til málsins og biðja hann um að meta það hvort stúlkan frá Guatemala hefði átt að fá ríkisfang en ekki hún sjálf, eru svo ótrúleg vinnubrög af hendi Sigríðar Hagalín að það tekur ekki nokkru tali.

Það er afar eðlilegt að fjölmiðlar fjalli um þetta ferli eins og allt annað í samfélaginu, en ættu að forðast að draga mál einstaklinga inn í umræðuna.

Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Helgi Seljan, Kastljósið og öll fréttastofa sjónvarpsins setur mikið niður og trúverðugleiki þeirra er stórlaskaður og það er greinilegt að Páll Magnússon verður að taka til sinna ráða. Ég hvet alla til að styrkja hann í þeirri óhjákvæmilegu skoðun sinni með því að senda honum áskorun á pall.magnusson@ruv.is um að taka til hendinni á fréttastofunni og í Kastljósinu.


Galdrar í byggðamálum?

Var að horfa á kjördæmaþátt NV í sjónvarpinu áðan. Það var eins og það væri bara eitt hérað í þessu kjördæmi, Vestfirðir. Verandi kvart-Vestfirðingur ætti ég að vera kátur með það - og þó. Jón Bjarnason, VG, gjammaði eins og Lilli klifurmús ofan í allt og alla, leyfði mönnum ekki komast að, þannig að þáttastjórnendur þurftu að klippa á með því að spila innslag af bandi. Ekki einu sinni lokaorð manna fengu að vera í friði fyrir gjamminu. Þegar svo var ítrekað gengið á hann um hvaða lausnir hann hefði á vanda Vestfirðinga, fór hann bara að skamma núverandi stjórnarmeirihluta, aftur og aftur en engar lausnir. Jú eitthvað um opinber útgjöld og opinber störf. Minntist ekki einu sinni á venjulega galdraorð VG í atvinnumálum, ferðamennsku. Kannski er hann búinn að átta sig á því að það er afar árstíðabundin vinna, með lágum launum og miklum umhverfisáhrifum , bæði vegna átroðnings á náttúruverðmæti og losun gróðurhúsalofttegunda og örugglega hæstu gjaldþrotatíðni af öllum atvinnuvegum? Nei. Held að hann hafi bara gleymt því í orðaflaumnum. Olíuhreinsistöð? Nei, fuss og svei. Eina sem hann minntist á voru samgöngur og jöfnun flutningskostnaðar. Mál sem ég held að allir flokkar séu sammála um. Íslandshreyfingin dinglaði með og bergmálaði það sem VG og Frjálslyndir tölu um á víxl.

En til að það sé hægt að jafna flutningskostnað og til þess að það sé eitthvað að flytja þarf að vera atvinnulíf. Atvinnulíf sem blómstrar og það blómstar helst ef því eru sköpuð almennileg rekstrarskilyrði, einfalt og gagnsætt regluverk, sveigjanlegur vinnumarkaður og öflug nýsköpun og þróun. Ekki bara nýsköpun í litlum fyrirtækjum, heldur í öllum fyrirtækjum, stórum sem smáum. Það vill stundum gleymast og árangurinn er mældur í fjölda lítilla óburðugra fyrirtækja sem því miður fara of oft á hausinn. Þar þarf ekki endilega sértækar aðgerðir fyrir hvert svæði, aðallega að það sé hægt að reka fyrirtækin.

Búið er að gerbylta öllum nýsköpunar- og þróunarstuðningi í íslenskum atvinnuvegum undanfarin ár. Árangur þess hefur ekki að fullu komið í ljós, en þar hefur finnsku leiðinni verið fylgt, sem Ómar vill nú endilega að við förum að fylgja!

Milljarður af símagullinu fór í nýsköpunarsjóð og hálfur milljarður í tækniþróunarsjóð og fyrirheit eru um enn meira. Þetta er það sem ríkið á að standa í, öllum atvinnuvegum til góða, hvar sem þau eru á landinu. Sértæk hjálp letur bara og er ekki sjálfbær til lengdar, þótt tímabundnir vaxtarsamningar við héruðin séu réttlætanlegir. Svo þarf að vinna að því að einfalda regluverkið og það verður fyrst gert af einhverju viti með stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Held að allir flokkar hafi það á sinni stefnuskrá, svo ég vona að stólagírugheit við næstu stjórnarmyndun tefji það mál ekki frekar.

Mér fannst Addi Kidda Gau góður. Mér líkar vel við manninn, þótt ég þekki hann ekkert. Virkar heiðarlegur og blátt áfram. Verst hvað hann er í slæmum félagsskap þessa dagana og ég sárvorkenni honum í þessari útlendingaumræðu sem hann hefur greinilega enga sannfæringu fyrir. Er honum reyndar algerlega ósammála í fiskveiðistjórnuninni, hvernig ætlar hann að fjármagna afnám kvótakerfisins, en mig minnir að uþb 80% þeirra heimilda sem eru í kerfinu hafi verið keypt, en ekki "afhent" í upphafi? Það er ekkert í þeirra stefnu um hvaðan þeir peningar eigi að koma. Þeir verða að koma úr Velferðinni, samgöngum eða menntuninni. Það er ekki um mikið annað að ræða, nema þeir vilji hækka skatta. Þeir eru brattir þykir mér.

Samfylkingarmaðurinn er að koma til. Mér finnst alltaf traust þegar menn melda pass í málum sem þeir þekkja ekki. Það er heiðarlegt og ber að virða og Sturla virðist einnig vera að komast í þjálfun.

Finnst hallærislegt að vera að mæra eigin menn um of, en Magnús hefur vaxið mikið síðan hann varð félagsmálaráðherra. Traustur og rökfastur, lætur ekki vaða yfir sig og kynnir góða stefnu Framsóknar þannig að maður skilur hana.

Hafandi sagt þetta á móti sértækum aðgerðum vildi ég koma með þá hugmynd að Þingeyrarflugvöllur verði byggður þannig að hann gæti þjónustað vöruflutninga til beins útflutnings. Það sparar landflutningskostnað og bætir samkeppnisstöðu fiskvinnslunnar á Vestfjörðum og bætir um leið öryggi fjórðungsins.


Bloggfærslur 28. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband