Biskup er greinilega sammála núverandi stjórnvöldum
8.4.2007 | 15:22
Biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson kemur inn á mikilsverða hluti í páskaprédikun sinni. Ég er ekki að sjá að biskup sé kominn í neina stjórnarandstöðu - eins og sumir hér á blogginu halda fram. Hann bendir einfaldlega á að framtíð lífs á jörðu sé ógnað af mannavöldum, sem er í algerum samhljóm með þeirri stefnu sem núverandi stjórnvöld hafa sett sér um takmörkun losunar gróðurhúsalofttegunda og í algerum samhljóm um stefnumörkun hins opinbera um sjálfbæra þróun.
"Til að hamla gegn aðsteðjandi umhverfisvá þarf samstillt átak hinna mörgu. En umfram allt þurfum við öll að horfa í eigin barm og endurmeta lífsstíl ágengni og sóunar og temja okkur lífsstíl hófsemi og hógværðar. Við verðum að fara að horfast í augu við að draumar okkar og framtíðarsýnir séu ef til vill byggðar á kolröngum forsendum. Að áherslan á endalausar framfarir, sívaxandi auð og velsæld, mátt hins hrausta, sterka og stælta, er tál. Á móti kröfum hátækni og háhraða og hámörkun afkasta og ágóða, þarf að koma vægi alúðar og umhyggju fyrir lífinu, landinu, náunganum, ungviðinu veika og brothætta. Meistarinn, sem dó á krossi og reis af gröf, er frelsari heimsins, frelsari þinn."
Þótt við í okkar daglega lífi séum agnarsmá í samanburði við mannkyn allt, þá skiptir okkar hegðun máli í þessu samhengi sem öðru. Okkar kærleikur, hlýja og umhyggja gerir lífið betra, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur alla í kringum okkur og þá vonandi aftur á þá sem eru þar um kring.
Hið sama á við um kærleik okkar, hlýju og umhyggju fyrir komandi kynslóðum sem við meðal annars sýnum með því að láta gott af okkur leiða í umhverfismálum. Um það snýst hugsunin um sjálfbæra þróun meðal annars.
Við fáum ekki jörðina í arf frá forfeðrum okkar, heldur að láni hjá afkomendum okkar.
Gleðilega páska
![]() |
Áherslan á endalausar framfarir er tál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Gleðilega páska
8.4.2007 | 12:38