Íhaldsgrýlan í felum bakvið blæju velferðarstjórnarinnar
10.5.2007 | 14:02
Það vekur athygli mína, þegar maður flettir blöðunum að þar sem flokkarnir eru allir spurðir sömu spurninga og stillt upp, að Sjálfstæðisflokkurinn svarar ekki. Má nefna nýjasta tölublað Grapevine, Varaformannsspurningar DV í gær, undanflæmingur frambjóðenda í ýmsum málum og nú síðast spurningum Nátturuverndarsamtaka Íslands um stefnu flokksins í umhverfismálum.
Það virðist vera meðvituð taktík hjá Sjálfstæðisflokknum að svara engu. Af hverju ætli það sé?
Er Sjálfstæðisflokkurinn að fela sig á bakvið blæju velferðarstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem hafa aukið framlög til velferðar- heilbrigðis- og menntamála um 138,8 milljarða á síðasta kjörtímabili?
Það er ekki mikil hægristefna, heldur velferðarstefna í anda Framsóknar og því eðlilegt að þeir vísi til þess sem Framsókn hefur náð í gegn í samstarfinu og orði stefnuskrá sína þannig að þeir stæri sig af því sem gert hefur verið í stað þess að vísa til þess sem þeir ætla að beita sér fyrir á næsta kjörtímabili. Þeir hafa þeir hægra fylgið og vilja bæta við sig stuðning þeirra kjósenda sem aðhyllast velferð og skilgreina sig á miðjunni. Frjálshyggjupésarnir eru áberandi rólegir undir þessum málflutningi, þar sem þeir vita vel að íhaldsgrýlan er þarna blundandi undir blæjunni og mun koma sínum stefnumálum í framkvæmd ef samstarfsaðilinn gáir ekki að sér.
Það hentar ekki Sjálfstæðisflokknum að rætt sé um málefni, grunngildi og stefnur, enda fælir það hugsandi miðjukjósendur frá. Getur verið að hið lækkandi fylgi þeirra undanfarið og aukið fylgi Framsóknar sé merki um að stefnuleysi þeirra sé þegar farið að hafa áhrif á þennan hóp, sem sér glitta í íhaldsgrýluna þarna undir?