Framsókn góður kostur í öllum tilfellum

Allir flokkar lýsa því yfir að þeir gangi óbundnir til kosninga. Það getur þýtt svo margt, en atkvæði greitt Framsókn styrkir flokkinn í þeim góðu áhrifum sem hann hefur í þeim stjórnarmynstrum sem hann gæti tekið þátt í, samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn eða samstarfi við VG og Samfylkinguna. Nefni ekki aðra flokka, þar sem ég tel þá óstjórntæka.

Framsókn hefur verið í stjórn til hægri undanfarin 12 ár. Hefur flokkurinn haldið aftur af þeirri frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins sem er grunnstef hans. Hefur það valdið því að á síðasta kjörtímabili fóru 138,8 milljörðum meira í velferðar-, heilbrigðis- og menntamál, sem auk öflugs atvinnulífs eru helstu áherslumál Framsóknar. Það er því ekki hægt að segja annað en að síðasta stjórn hafi verið velferðarstjórn, þökk sé áhrifum Framsóknar og ef Framsókn færi í samstarf til hægri þarf hún að vera sterk til að geta staðið áfram vaktina af krafti.

Í samstarfi til vinstri gegnir Framsókn hlutverki hins jarðbundna, skynsama áttavita í efnahags- og atvinnumálum. Það þarf ekki annað en að skoða loforðalista Samfylkingarinnar og Vinstri Grænna til að átta sig á því að full þörf er á flokki sem skilur ábyrgð öflugs atvinnulífs, aðhalds, styrkrar efnahagsstefnu sem byggist á yfirsýn og þekkingu. Fer Jón Sigurðsson, formaður flokksins og fyrrverandi Seðlabankastjóri þar fremstur í flokki, en frambjóðendur Samfylkingarinnar þurfa að leita út fyrir eigin raðir til að fá efnahagsráð og Vinstri Græn eru heillum horfin í efnahagsmálum með sinn óhefta sósíalisma.

Það er því sama á hvorn veginn stjórnarmyndunin fer, atkvæði greitt Framsókn er atkvæði greitt til góðs fyrir samfélagið.


Hátt atvinnustig - áfram - ekkert stopp

Hátt atvinnustig er engin tilviljun. Það er afleiðing af stöðugum framförum í samfélaginu, uppbyggingu og ábyrgð í atvinnumálum. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við er atvinnuleysi 10-15% og dulið atvinnuleysi enn hærra, því fólk er sett yfir á örorkubætur eftir nokkurn tíma.

Frjálshyggjupésunum í Sjálfstæðisflokknum er illa við hátt atvinnustig, því það heldur uppi launum og er atvinnustigið helsta efnahagsstjórntækið í löndunum í kringum okkur, en ekki stýrivextir. Vinstrimenn virðast ekki átta sig á þessu en halda áfram sínum beljanda um stöðvun atvinnulífsins, þvert gegn hagsmunum launþega.

Það vill Framsókn ekki. Frekar tímabundið hærri vexti en atvinnuleysi, því atvinnuleysi brýtur samfélagið og einstaklinginn niður innan frá og er eitt mesta böl hvers samfélags. Davíð Oddsson seðlabankastjóri hefur opinberað sína sýn á þetta með sinni síðustu efnahagsspá, þar sem hann spáir 3,5% ef aðgerðaráætlun Seðlabankans er hrundið í framkvæmd.

Ætli það sé vegna þessarar áherslu á hátt atvinnustig sem Baugsveldið vill fá Framsókn út úr ríkisstjórn og leiða Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn til valda?


mbl.is Enn dregur úr atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baugur markar þáttaskil í stjórnmálasögunni

Með auglýsingu sinni í Fréttablaðinu í morgun, þar sem Jóhannes Jónsson hvetur til að kjósendur kjósi Sjálfstæðisflokkinn og striki Björn Bjarnason út og makalausri útgáfu DV um daginn, er brotið blað í íslenskri stjórnmálasögu.

Baugur vill greinilega stjórn S og D, sem ég hef kallað Slow Down stjórnina en mun héðan í frá heita Baugsstjórnin. Baugur beitir nú afli sínu með áður óþekktum hætti og stefnir nú að því leynt og ljóst að eignast það síðasta sem þeir eiga ekki á Íslandi, ríkisstjórn Íslands. Minnir þetta mann á sögur af útgerðarmönnum sem hótuðu starfsmönnum sínum til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Ekki nóg með að Baugur hafi aðstoðað Samfylkinguna í síðustu kosningum með afnotum af Iðuhúsinu og þrálátur orðrómur er um að Baugur hafi aðstoðað Samfylkinguna með þeim hætti að flokkurinn eigi nú skuldlaust húsnæði á Hallveigarstíg, heldur stendur Baugur nú í virkri kosningabaráttu fyrir ríkisstjórn sinni með stuðningsyfirlýsingum við báða flokka.

Það er greinilegt að lög um fjárreiður stjórnmálaflokkanna eru að snúast upp í andhverfu sína með þessum aðgerðum, auglýsingum Framtíðarlandsins, einstaklinga fyrir VG og Öryrkjabandalagsins, eins og ég skrifaði reyndar um hér og taka þarf allan málaflokkinn til gagngerrar endurskoðunar

Svona yfirlýsingar hljóta að telja í samantekt Capacent Gallup, sem verður að taka saman óbeinar auglýsingar af þessu tagi eftir kosningar.


Bloggfærslur 11. maí 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband