Geir ber greinilega ekki mikið traust til VG og S
15.5.2007 | 20:42
Það að Geir Haarde skuli virkilega vilja reyna til þrautar að fá Framsókn, stórlaskaða, með sér í áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf, með eins þingmanns meirihluta í stað þess að fara í stjórn með Samfylkingunni eða forvitnilega stjórn með VG segir meira en mörg orð um hvaða augum Geir sér þessa flokka.
Félagsfræðitilraun fjölmiðlamanna
15.5.2007 | 07:29
Var að horfa á Silfur Egils í gærkvöldi. Þegar Hannes Hólmsteinn, af öllum, ásakaði Gunnar Smára um að hafa gefið út blað til höfuðs Framsókn og skammaði Egil Helgason fyrir að hafa gjammað fram í í hvert skipti sem Jón Sigurðsson vildi tala í leiðtogaumræðunum var því ekki mótmælt. Þeir horfðu bara skömmustulegir, annað hvort í gaupnir sér eða út í tómið.
Skýrari játningar er ekki að vænta frá þeim herramönnum. Það hefur hvarflað að mér að sú óvild sem Framsókn verður fyrir í fjölmiðlum, kannski eftir hið stórundarlega Auðuns Georgs mál og svo uppsafnaðrar gremju í tíð ríkisstjórnarinnar, hafi myndast sú stemming meðal fjölmiðlamanna, meðvitað eða ómeðvitað, að nú skyldi 4. valdið grípa inn í og ganga af Framsókn dauðri. Sjá hvert vald fjölmiðla er.
Það er alveg ljóst að umfjöllun fjölmiðla hafði mikil áhrif á kjósendur, Framsókn var máluð eins ljótum litum og hægt var og náði hámarki í Jónínumálinu. Eins tel ég að ótrúleg framkoma palladómaranna í eftir leiðtogaumræðurnar, sérstaklega Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, hafi líka haft áhrif. Það hefur engum dulist andúð hennar á flokknum, sem hún sér sem ógnun við Ingibjörgu Sólrúnu, sem hún hefur ljóst og leynt hampað umfram aðra stjórnmálamenn í störfum sínum sem blaðamaður.
Það er ekki eingöngu við fjölmiðlana að sakast, Framsóknarmenn eru oft á tíðum allt of varkárir og hógværir, trúir sinni lífssýn, sem er ekki fjölmiðlavænt.