Kapphlaupið um Árna Mathiesen
25.1.2008 | 09:16
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvor aðilinn verður á undan að kippa ráðherrastólnum undan Árna Mathiesen, Héraðsdómur og Hæstiréttur eða Umboðsmaður Alþingis.
Sigurður Líndal skrifar enn og aftur þungaviktargrein í Fréttablaðið í morgun þar sem hann rekur þann feril sem ráðherra á að fara í ráðningarferlinu.
Þar segir m.a.
"...dómnefnd skuli senda dómsmálaráðherra umsögn sína ásamt gögnum þegar hún hefur lokið störfum. Þessu næst skal dómsmálaráðherra kynna hverjum umsækjanda álit dómnefndar um hann sjálfan og gefa honum kost á að gera skriflegar athugasemdir. Ef ráðherra berast slíkar athugasemdir skulu þær bornar undir dómnefndina."
Ég veit ekki betur en að Björn Bjarnason hafi sagt sig frá málinu á ríkisstjórnarfundi 20. desember sl. Ríkisstjórnarfundir hefjast um klukkan hálf níu og líkur um ellefuleytið. Seinnipartinn sama dag (finn fyrstu frétt tímasetta um kl 16) er Árni Mathiesen búinn að skipa Þorstein í embættið. Hef heyrt á skotspónum að umsækjendum hafi verið tilkynnt um ráðninguna um hálf þrjú.
Sama hvort er, að Árni Mathiesen hafi tekið sér 3 eða 5 klukkutíma í þetta ferli, er ljóst að hann hefur aldrei sinnt þeim skyldum sem á honum hvíla, rannsóknarskyldu, virðingu andmælaréttar og samráð við dómnefnd á þeim tíma. Það hefði þá komið fram.
Ætli þessi 3ja tíma ákvörðun, sem tók hann 3 vikur að rökstyðja, kosti hann embættið eftir 3 mánuði?
Það er eins gott fyrir hann að íhaldið hafi brátt lausan stól fyrir hann og gefi honum það vondaverkefni að gera Landsvirkjun klára fyrir einkavæðingu. Verst að það er bara ekki eins gott fyrir okkur hin...