Öskrandi þögn Samfylkingarinnar í kjaramálum
7.1.2008 | 20:58
Eins og ráðherrar Samfylkingarinnar hafa verið yfirlýsingaglaðir um hvað eina sem viðkemur þeirra ráðuneytum og annarra, er þögn þeirra í sambandi við tillögur ASÍ í tengslum við kjarasamninga æpandi. Sérstaklega kemur þetta á óvart þegar haft er í huga hve greiðan aðgang forysta ASÍ hefur að innsta hring Samfylkingarinnar.
Getur það verið vegna þess að þeir hafi viðhaft varnaðarorð eins og Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, viðhefur á bloggi sínu í dag, þegar hann segir ríkisstjórnina skorta yfirsýn í efnahagsmálum.
Bendir hann á, rétt eins og Framsókn hefur gert um árabil, núna síðast í umræðum um fjárlögin fyrir jól, að efnahagsmálin séu stóru kjaramálin:
"Það hefur alltaf legið fyrir að ef ríkisstjórnin komi ekki að málinu með ábyrgri efnahagstjórn, þá liggur fyrir að tilboð SA sem er helmingi lægra en verðbólgan og verður enn lægra þegar líður á árið vegna, sem bein afleiðing rangrar afstöðu ríkistjórnarinnar. "
og líkur máli sínu á eftirfarandi hátt:
"Hafa stjórnvöld ekki áttað sig á því að núverandi ástand kallar á stefnubreytingu í efnhagsstjórn?"
Hverju svarar Samfylkingin þessu, er hún sammála afstöðu Sjálfstæðisflokksins, sem telur illmögulegt væri að veita lágtekjufólki auka persónuafslátt upp á tuttugu þúsund krónur, eins og verkalýðshreyfingin hefði farið fram á?
Reyndar get ég ekki verið sammála Guðmundi í söguskýringu sinni að "Mestu mistökin voru að sleppa bönkunum afskiptalausum inn á íbúðalánamarkaðinn til þess að efna kosningaloforð." Vill Guðmundur að bönkunum hefði verið bannað að fara inn á íbúðalánamarkaðinn og taka þar með upp skömmtunarkerfi lánsfjármagns á ný?
Gassaleg innkoma bankana á íbúðalánamarkaðinn var ekki stjórnvaldsákvörðun, heldur óábyrg varnaraðgerð bankanna til að verja stöðu sína á markaði, þar sem þeir höfðu getað makað krókinn við fjármögnun síðustu 20-35% íbúðakaupa almennings, sem fyrirheit síðustu ríkisstjórnar um allt að 90% lánshlutfalli á góðum kjörum, ef efnahagsástand hefði leyft, óneitanlega var.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tillögur til bóta eða hvað?
7.1.2008 | 12:27
Mér sýnast þessar tillögur sem Viðskiptaráðherra ætlar sér að fara að vinna og fá í gegnum ríkisstjórn og svo Alþingi góðra gjalda verðar. Finnst reyndar vogað af honum að segja hvað hann ætli sér að ná í gegnum ríkisstjórn og þingflokka ríkisstjórnarinnar án þess að það liggi fyrir, en það er hans mál.
Ég hef heyrt raddir um að seðilgjaldið sé ólöglegt eins og það er í dag, þar sem það liggur blátt bann við gjaldtöku fyrir útgáfu reiknings. Veit einhver hvort Hæstiréttur hafi fjallað um heimild til álagningar seðilgjalds?
Hvað uppgreiðslugjaldið varðar, þá þýðir það 0,25% hærri vexti, ef miða má við Íbúðalánasjóð. Þannig er í rauninni verið að þvinga 0,25% vaxtahækkun á alla sem taka 50 milljón króna lán eða minna. Betra væri að hafa þetta valkvætt fyrir öll lán.
Viðbrögð bankanna við takmörkunum á FIT kostnaði hlýtur að vera að bjóða viðskiptavinum upp á tvennt. Annaðhvort að hafa FIT kostnaðinn áfram eða að undirgangast harðara eftirlit með reikningum manna, lokun á kortum, auknar innhringingar o.s.frv. En það er gott að þetta skuli vera gert samningsskylt, eins og öll kjör eiga að vera. En þetta tel ég að muni ekki breyta miklu.
Ég held almennt að þessar aðgerðir muni lítið gagnast til að auka samkeppni á bankamarkaði. Það verður ekki fyrr en stimpligjaldið verður afnumið að einhver raunveruleg samkeppni mun skapast milli bankanna að maður tali nú ekki um innkomu fleiri aðila á markaðinn.
![]() |
Seðilgjöld heyri sögunni til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)