Til íhugunar fyrir Björgúlfana

Ef þessi frétt er rétt, að Björgúlfarnir séu gengnir í lið með bretum og farnir að nýta sér hryðjuverkalög breta til að kaupa eignir á brunaútsölu út úr þrotabúi þeirra sjálfra af íslensku þjóðinni er rétt að skoða eftirfarandi ákvæði í stjórnarskrá Íslands:

"66. gr. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti. Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki."

Eins er rétt að minna á ákvæði Almennra hegningarlaga um landráð:

"X. kafli. Landráð.

...
87. gr. Geri maður samband við stjórn erlends ríkis til þess að stofna til fjandsamlegra tiltækja eða ófriðar við íslenska ríkið eða bandamenn þess, án þess að verknaðurinn varði við 86. gr., þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár eða ævilangt. Sé þetta í því skyni gert að koma erlendu ríki til þess að skerða sjálfsákvörðunarrétt íslenska ríkisins á annan hátt, þá varðar það fangelsi allt að 8 árum.


89. gr. Beri íslenskur ríkisborgari í ófriði vopn gegn íslenska ríkinu eða bandamönnum þess, þá varðar það fangelsi ekki skemur en 2 ár.

Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem í ófriði, eða þegar ófriður vofir yfir, veitir fjandmönnum íslenska ríkisins liðsinni í orði eða verki eða veikir viðnámsþrótt íslenska ríkisins eða bandamanna þess."


mbl.is Bretar selja eignir Landsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað ætli sé að gerast?

Þetta verður einn sá áhugaverðasti blaðamannafundur sem maður hefur fylgst með lengi.

Ég er nokkuð sannfærður um að við erum að tala um að IMF sé að koma inn með Noreg sem meginlánveitanda. Hugsanlega einhverjar fleiri þjóðir með minna.

Á þann hátt tryggja Norðmenn eins og hægt er að við sækjum ekki um ESB aðild á undan þeim og ef við sæktum um á undan þeim, værum við í betri samningsstöðu gagnvart ESB og fengjum því betri samning.

Slæmur samningur okkar við ESB myndi stórskaða samningsstöðu þeirra ef við sæktum um á undan, á sama hátt og það myndi skaða samningsstöðu okkar að Norðmenn færu inn á undan okkur með slakan samning.

En hvor þjóðin sem yrði á undan, eru það gagnkvæmir hagsmunir þjóðanna að gengið yrði til samninganna í sem mestum styrk

Þess vegna eru þetta gagnkvæmir hagsmunir þessara þjóða að koma efnahagslífinu á Íslandi í gang á ný.


mbl.is Þingflokkar á fundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mengunarbótasjóðir fyrirmynd nýs innistæðutryggingakerfis?

Það fyrirkomulag sem við lýði hefur verið í innistæðutryggingum banka gengur ekki og þarf að endurskoða.

Það er alveg ljóst að þjóðríki geta ekki sinnt þessu hlutverki í alþjóðavæddum heimi. Pólitík má ekki blanda í öryggi fjármálakerfis heimsins og er bankakreppan íslenska og viðbrögð breta við henni gott dæmi um það.

Við því þarf að bregðast.

Fyrirkomulag mengunarbótasjóða olíuskipaeigenda geta verið góð fyrirmynd við þá endurskoðun, en í gegnum það kerfi er hægt að sækja bætur allt að 953.000.000 SDR, eða um 167 milljarða króna fyrir eitt mengunarslys, en það er sérstakt við rekstur olíuflutningaskipa að þau eru skaðabótaskyld fyrir þeim skaða sem þau valda, upp að þessari upphæð, þótt saknæmt hátterni sé ekki orsök tjónsins.

Olíuskipaeigendur tryggja sig í samvinnufélögum, svokölluðum tryggingaklúbbum (e:P&I clubs), sem þeir greiða inn í og greiða klúbbarnir svo iðgjald inn í alþjóðlega sjóði sem taka á sig risatjónin.

Eigandinn greiðir sjálfur einhverja sjálfsábyrgð í hverju tjóni í samræmi við reglur klúbbsins, sem gæti verið áhætta hluthafa í bankatilfellinu, og mætti eigið fé bankans ekki fara yfir þá upphæð.

Klúbburinn greiðir svo tjón allt að 5 milljónir USD, tæpar 600 milljónir króna, sem svo er skuldajafnað árlega milli klúbbmeðlima, þannig að allir klúbbmeðlimir greiða fyrir tjón ársins í hlutfalli við stærð sína. Ef afgangur er af greiddum iðgjöldum fá menn endurgreitt, en ef tjón ársins eru hærri, greiða menn aukaiðgjald til að standa straum af því. Einhverjir klúbbar endurtryggja sig hjá hefðbundnum tryggingafélögum fyrir stórum tjónum, en með því að nýta samtakamátt klúbbfélaga fást þær tryggingar á góðum kjörum.

Fyrir stærri tjón, eru svo tveir sjóðir, sem reknir eru á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem skipaeigendur greiða í gegnum klúbbana. Eru þeir í rauninni heimstryggingafélag fyrir risatjónin.

Á sama hátt væri hægt að gera fyrir bankana. Til að fá bankaleyfi þyrftu þeir að sýna fram á ákveðna endurgreiðslugetu. Þá endurgreiðslugetu gætu þeir fengið í gegnum þátttöku í alþjóðlegum samtryggingarklúbbum, sem virkuðu á svipaðan hátt og innistæðutryggingarsjóðir þjóðríkjanna, en til að draga úr óþarfa sjóðssöfnun, gætu klúbbarnir keypt hefðbundna tryggingu fyrir hluta áhættunnar.

Klúbbarnir geta svo sett skilyrði fyrir þátttöku og ákvarðað iðgjald sem hlutfall af fleiru en innistæðumagni, eins og eiginfjárhlutfalli og öðrum rekstrarþáttum og hefðu eftirlit með því að rétt væri greint frá. Þeir eru ekki bundnir af landamærum á sama hátt og þjóðríkin.

Klúbbarnir greiddu svo í sameiginlegan sjóð, sem hægt væri að hýsa hjá IMF, sem tæki á sig stærri tjón. Sá sjóður þyrfti að vera til í raun og veru, liggjandi sem gull og gjaldeyrir. Þannig væri í rauninni komið á hálfgildings gullfæti fyrir alla gjaldmiðla heimsins.

Á þessu eru efalaust margar hliðar sem ég hef ekki hugsað út í, en einhvernvegin í þessa átt hlýtur þetta mál að verða leyst í framtíðinni.


mbl.is Innistæðueigendur fara í mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband