Össur í spretthlaupi undan ábyrgð

Dagskipun Samfylkingarinnar er að kenna Davíð Oddssyni um allt það neikvæða við hrunið, að persónugera allt í honum til að henni verði ekki kennt um neitt.

Það gerir Samfylkingin, þótt Icesave-dæmið hafi allt farið fram á valdatíma hennar í viðskiptaráðuneytinu og Samfylkingin hafi ekki lagt fram neinar breytingar á regluverki fjármálalífsins nú þegar kjörtímabilið er að verða hálfnað.

Nú hikar Össur Skarphéðinsson ekki við að ljúga blákalt á Alþingi, nema hann sé gersamlega óvita um þá samninga sem sú ríkisstjórn sem hann situr sjálfur í hefur gert, þegar hann sagði á Alþingi í dag:

"Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun."

og í seinna andsvari

"Það er einfaldlega þannig að Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun."

Seðlabankinn sagði þvert á móti við kynningu á stýrivaxtahækkuninni:

"Í liðinni viku gerði ríkisstjórnin samkomulag við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í samkomulaginu, sem lagt verður fyrir framkvæmdastjórn hans til staðfestingar á næstu dögum, felst m.a. að Seðlabankinn skuli þá hafa hækkað stýrivexti í 18% sem nú hefur verið gert."

Þetta staðfesti forsætisráðherra einnig í dag.

Það er lágmarkskrafa að menn segi satt og kannist við eigin ábyrgð. Það verður Samfylkingin að gera. Nú er ekki tími skoðanakannanapólitíkur. Menn verða að láta verkin tala og koma fram af heilindum.


mbl.is Alþingi niðurlægt af ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stýrivaxtahækkun er tvíbent sverð

Einhversstaðar las ég að raungengi krónu væri mælikvarði á það verðmæti þess samfélags sem lægi á bakvið. Verðmætið er að megninu til afleiðing af þeirri framleiðslu sem verður til í viðkomandi hagkerfi. Þeim tekjum sem verða til í hagkerfinu.

Í rauninni sama og gengi hlutabréfa fyrirtækja ræðst af því hversu mikils arðs það má vænta af rekstrinum, ekki þeirrar fjárfestingar sem liggur í raun að baki rekstrinum.

Þess vegna er hættulegt að vera með háa stýrivexti, því það dregur úr framleiðslu og lækkar þar með gengið.

Á hinn bóginn verða stýrivextir að vera hærri en verðbólgan, því enginn vill eiga krónur sem rýrna sífellt að verðgildi. Það myndi þar með lækka gengið.

Þess vegna verður að halda stýrivöxtum eins lágum og hægt er, án þess að þeir verði neikvæðir.

Því verður ríkisstjórnin og Seðlabankinn að gefa það út að þeir ætli sér að halda raunstýrivöxtum föstum, t.d. 2-3%.

Þannig væri það hagur þeirra sem ákveða kostnað, fyrirtæki og opinberir aðilar, að verðbólgan verði sem lægst, því það lækkaði stýrivexti og góður spírall myndaðist.

Meðan þessi þróun væri að komast í gang, verður að tryggja greiðsluflæði innanlands, með því að losa um peningamarkaðssjóði og veita fyrirtækjum aðgang að lánsfé, þá líklegast með prentun seðla, en það verður að gera með varúð til að það valdi ekki meiri verðbólgu en ella. Þar reyndi á ábyrgð verðákvarðandi aðila.

Það væri hin nýja þjóðarsátt.


mbl.is Hækkun stýrivaxta mun ekki virka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband