Af tveimur vondum kostum velur Geir hvorugan
13.11.2008 | 19:25
Ákvarðanatökufælni er orð sem ég hélt að væri meira bundið við krata í vinsældastjórnmálum.
Það virðast liggja tveir valkostir í stöðunni og er hvorugur góður:
- Girða sig í brók og fara til bretlands og Hollands að tala við þá herra augliti til auglitis, hugsanlega með tillögu um að fá sáttasemjara að málinu, eins og Norðmönnum fórst vel úr hendi í síðasta þorskastríði, gegn því að IMF lánið haldi áfram og komist í gegn. Skuldir þjóðarbúsins yrðu örugglega meiri til skamms tíma en ef við létum allt falla. Eitthvað kæmi og til baka í málaferlum við breta. Þá upphæð þarf að bera saman við þá þær eignir og framleiðslu sem hægt væri að bjarga og koma á fót í samvinnu við nágranna okkar og fyrri bandalagsþjóðir.
- Hins vegar að fara í plan B og loka landinu, stúta viðskiptavild þjóðarinnar í þessum stærstu viðskiptalöndum okkar, framleiða og framleiða, safna gjaldeyri til að borga innlendar skuldir ríkisins, en gefa erlendum lánardrottnum langt nef, lánshæfismat sem hægt væri að finna niðri í kjallara, sem kæmi í veg fyrir erlenda fjárfestingu hér á landi um talsvert langan tíma, bág lífskjör og landflótti hlytu að fylgja með. Innflutningshöft, gjaldeyrishöft og fjármagnsskömmtun eru allt helstu næringarefni spillingar, sem myndi óhjákvæmilega gegnsýra landið. Með ónýtan gjaldmiðil og kolbrennt ESB sem myndi ekki taka aðildarumsókn okkar fagnandi, yrðum við að finna aðrar leiðir í gjaldeyrismálum, sem hefðu líklegast í för með sér meira fullveldisframsal en inngangan í ESB. Líklegast yrði EES samningnum sagt upp við okkur, vegna þeirra brota sem við höfum hugsanlega framið og verðum að fremja vegna gjaldeyrismála.
Manni virðist Geir ætla að fara hvoruga leiðina. Á meðan blæðir atvinnulífinu hratt út sem leiðir af sér fjöldagjaldþrot og fjöldaatvinnuleysi og fjöldalandflótta.
![]() |
Enginn góður kostur í stöðunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er Samfylkingin að liðast í sundur?
13.11.2008 | 13:52
Það er eins og kosningabandalagið Samfylkingin hafi þegar liðast í sundur og fréttir af því að verið sé að yfirfara stjórnarsáttmálann gæti verið vísbending um að Ingibjörg Sólrún hafi viðurkennt það og ætli að endurnýja ríkisstjórnarsamstarfið á nýjum grunni, þá hugsanlega með einhvern hluta þingmanna kosningabandalagsins á bak við sig, enda leifir það vel af meirihlutanum að hún hefur efni á því.
Talsverður hluti þingmanna þess hefur á síðustu vikum hagað sér eins og þeir séu í stjórnarandstöðu og talað af algerri óábyrgð í hreinu vinsældakapphlaupi.
Alþýðubandalagshlutinn, með Össur Skarphéðinsson í forystu og Björgvin G Sigurðsson, valdamesta Alþýðubandalagsmann frá tímum Hannibals Valdimarssonar, sér við hlið, tekur undir með VG og fer í stjórnarandstöðu trekk í trekk. Nú síðast í þessu máli um loftrýmiseftirlit Breta.
Alþýðuflokkshluti Samfylkingarinnar og einhver hluti Kvennalistans gætu verið að koma út úr skápnum sem hreinir hægri kratar og vilja áframhaldandi stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Krötum hafa alltaf fundist ráðherrastólarnir þægilegir og þykir gott að sitja við kjötkatlana og ausa úr þeim til vina og vandamanna. Árásir Lúðvíks Bergvinssonar og ASÍ á Björgvin eru eitt dæmið um stríðið sem geisar þarna á milli.
Áhugaverðast verður að sjá hvernig Jóhanna Sigurðardóttir og Þjóðvaki muni taka þessu. Jóhanna sér fram á að fjöldi manns missi vinnuna og þurfi að taka á sig rýrð kjör og mun reiði fólks óneitanlega bitna einnig á henni, sem ráðherra félags- og tryggingamála. Það er örugglega freistandi fyrir hana að fara í stjórnarandstöðu á þessum tímum, til að byggja enn undir vinsældir sínar, hafandi komið miklu af sínum málum í framkvæmd, sem nú liggur fyrir að draga þurfi úr, vegna efnahagsástandsins, en á móti kemur að Ingibjörg Sólrún verður að hafa stuðning hennar til að halda meirihluta á þingi.
En eins og ríkisstjórnin er ekki að stjórna núna held ég að affarasælast væri að forsetinn myndi utanþingsstjórn sem starfaði fram að kosningum, sem haldnar yrðu um leið og verstu hríðinni slotar.
![]() |
Kyssir ekki á vönd kvalaranna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Neyðarlagavitleysan
13.11.2008 | 09:53
Það er eins og mönnum hafi ekki sést fyrir við setningu neyðarlaganna.
Eins og lagatextinn stendur, er enginn greinarmunur gerður á þjóðerni innistæðueigenda og reyndar get ég ekki lesið ótakmörkuðu ábyrgðina út úr textanum heldur, en ég er ekki lögfræðingur.
Þess vegna er erfitt að sjá annað en að útlendingar eigi að hafa sama rétt og Íslendingar.
Því verður sú spurning sífellt áleitnari, hvort við eigum ekki að afturkalla hluta neyðarlaganna og miða innistæðutrygginguna einungis við þau mörk sem tilskipunin kveður á um, þeas ca 3 milljónir, ef það er þá hægt, það er ef það stendur í lögunum yfir höfuð.
Að vísu gilda hafa yfirlýsingar ráðherra eitthvað réttargildi, en þeir hafa ekki lagasetningarvald.
Hversu miklum hagsmunum værum við að fórna hérna innanlands fyrir að losna undan milljarðahundraða ábyrgðum. Það mætti jafnvel hugsa sér að bæta þeim Íslendingum sem yrðu fyrir tjóni á einhvern hátt, til dæmis með því að fara í þjóðarsöfnun til að bæta þeim Íslendingum sem áttu yfir 3 milljónum sitt tjón.
Hins vegar má alveg ímynda sér að um leið og bretar yfirtóku Landsbankann í bretlandi á óvinveittan hátt með vísun í hryðjuerkalög hafi þeir einnig yfirtekið allar ábyrgðir í leiðinni. Það verður jú ekki bæði sleppt og haldið.
![]() |
Deilur vegna Íslands í gerðardóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)