Rýtingur í bak bænda

Nú er hinn sanna sýn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins á mikilvægi landbúnaðarins að koma í ljós. Þeim er sléttsama um fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðaþróun í landinu. Afkoma bænda er þeim óviðkomandi.

Óvild Samfylkingarinnar í garð landbúnaðarins hefur lengi verið ljós, hana fékk hún í arf frá Alþýðuflokknum, en nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn gefið eftir þrýstingi þeirra og ætlar ekki að standa við gerða samninga gagnvart bændum. Sannfæring íhaldsins var þá ekki meiri eftir allt saman.

Í öllu fátækratalinu held ég að félagsmálaráðherra væri réttar, í stað þess að standa að svona gerningi, að kanna fátækt í sveitum landsins og hverjar framtíðarhorfurnar séu.

Ég held að bændur landsins og þeir sem tengjast íslenskum landbúnaði ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir greiða þessum tveimur flokkum atkvæði sitt.


mbl.is Hætt við vísitölutengingu í búvörusamningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vönduð málefnavinna Sjálfstæðisflokksins?

Daginn eftir að Sjálfstæðisflokkurinn byrjar Evrópuumræðu sína með pompi og prakt, þar sem yfirlýsingin er að velta eigi við hverjum steini á þeim litlu 7 vikum sem til stefnu eru, kemur varaformaður flokksins með yfirlýsingu um að niðurstaðan liggi fyrir. Það beri að sækja um Evrópusambandsaðild.

Ekki að ég sé ósammála niðurstöðunni, en hvers konar sýndarmennska er málefnastarf Sjálfstæðisflokksins, fyrst þetta er með þessum hætti, að niðurstaðan sé gefin fyrirfram?

Við skulum átta okkur á því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins stýrir innra starfi flokksins, þám málefnastarfinu.

Í framhaldið af þessu verður maður að spyrja hvers konar misnotkun á almannafé það er að Evrópunefnd Alþingis sé notuð til að sækja umsagnir úr samfélaginu inn í þetta starf?

Tímasetning og form þeirrar beiðnar er í það minnsta afar heppileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn svo ekki sé meira sagt.


mbl.is Ekkert annað hægt en sækja um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er siðferði og vinnubrögð fulltrúa VG?

Það að foreldrar stúlkunnar hafi samþykkt að eitt af þeim fjórum bréfum sem gengið hafa milli borgarinnar og hennar er það samt sem áður trúnaðarbrot af hálfu Þorleifs Gunnlaugssonar gagnvart 32. grein Sveitarstjórnarlaga að senda bréfið til fjölmiðla.

Ef foreldrar stúlkunnar hefðu birt bréfið eru þau einnig að brjóta trúnað gagnvart barninu, sem er ekki sjálfráða, þannig að samþykki þeirra á þessum gjörningi Þorleifs hefur ekkert að segja í mínum augum.

Mér þykir miður að Sóley Tómasdóttir skuli verja þennan gjörning, en fyrir borgarstjórn, sem ég vona að hún setjist sem fyrst í, liggur að samþykkja siðareglur, þar sem segir í 6. gr. um trúnað

"Kjörnir fulltrúar gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls. Trúnaðurinn helst áfram eftir að kjörnir fulltrúar láta af störfum.

Kjörnir fulltrúar virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á lokuðum fundum í nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar, sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að vegna starfa sinna og trúnaður skal vera um, enda byggi hann á lögmætum og málefnalegum rökum."

Þorleifur hlýtur að leggjast gegn því að þetta verði samþykkt, sé hann samkvæmur sjálfum sér.


mbl.is Álasa ekki Þorleifi fyrir bréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. desember 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband