Er markmið fréttamanna að meiða?
16.2.2008 | 13:49
Ég var spurður að því í gær hvort ég væri ekki feginn að Framsókn væri ekkert í umræðunni núna vegna REI málsins. Jú, ég var það svosem. En spurningin fékk mig til að hugsa af hverju svo væri, því vissulega er Framsókn hluti þessarar atburðarásar og var mikið í umræðunni til að byrja með. Fulltrúi flokksins sat jú í stjórn REI og stjórn OR og tók þátt í þeim ákvörðunum sem þar voru teknar, þótt vissulega væri forystan á hendi Sjálfstæðisflokksins.
Getur verið að það sé vegna þess að Björn Ingi sé hættur í borgarstjórn og umræða um hans þátt í málinu sé því hætt að geta valdið honum pólitískum búsifjum?
Getur það virkilega verið að fréttamenn séu búnir að missa sig algerlega í að reyna að meiða og koma höggi á þá sem þeir eru að fjalla um en gleyma að fjalla um atburðina eins og þeir áttu sér stað í raun og veru?
Renndi yfir blöðin í morgun og verð að segja að efnistökin í fréttaflutningnum um vandræðaganginn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins kveði ekki spurninguna niður, nema síður sé.
Er ekkert fréttnæmt nema að það komi einhverjum illa?
Verð að segja að þetta sé áleitin spurning. Hún á við um alla flokka, mismikið þó.