Umhverfisumræðan um olíuhreinsun er á villigötum

Ríkisútvarpið fjallaði um málþing um stóriðju á Vestfjörðum fyrir skömmu. Var yfirskrift og meginumfjöllunarefni fréttarinnar yfirlýsing embættismanns í Utanríkisráðuneytinu um að Íslendingar væru varnarlausir gagnvart meiriháttar mengunarslysum.

Þeim málflutningi mótmælti ég í færslu strax þá um kvöldið og benti á þann viðbúnað sem í landinu er og þá samninga og tengingar sem við höfum til að bregðast við mengunarslysum, sem er sama nálgun og aðrar þjóðir hafa gagnvart meiriháttar mengunaróhöppum, að nýta afl samvinnunnar. Það er eðlileg nálgun, enda virðir mengun engin landamæri.

Þegar ég svo skoðaði þá fyrirlestra sem fluttir voru á málþinginu  og birtust seinna á heimasíðu Fjórðungssambands Vestfjarða, kom í ljós að fréttamaður RÚV hafði alls ekki haft rétt eftir Ragnari Baldurssyni. Hann segir hvergi að við séum varnarlaus gagnvart meiriháttar mengunarslysum, heldur bendir hann réttilega á að með auknum flutningum þarf aukinn viðbúnað. Það er hárrétt og ég er honum algerlega sammála. Ég hef talað fyrir því að við eigum að minnsta kosti að hafa tvö varðskip, eins og það sem verið er að hefja smíði á, enda olíu, gas eða gámaflutningaskipin öll stór og fara stækkandi. Það er óháð byggingu olíuhreinsistöðvar. Við þurfum sífellt að meta hvort sá bráðamengunarvarnarbúnaður sem í landinu er, henti og sé til í nægjanlegu magni og gera viðeigandi ráðstafanir ef þörf er á. En umfjöllun RÚV er þeim ekki til vegsauka.

En öflugasta mengunarvörnin er að reyna að koma í veg fyrir að skip lendi í nauðum og hafa nægjanlegan viðbúnað til að koma í veg fyrir að skip strandi eða sökkvi. Þar gegna skip og búnaður Landhelgisgæslunnar lykilhlutverki. Það er ekki fyrr en skip hefur lent í nauðum að kemur til kasta búnaðar Umhverfisstofnunnar og erlendra tengiliða, eins og t.d. við strand Wilson Muuga þar sem innlendir aðilar gátu klárað málið.

Umhverfisumræðan um hugsanlega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum eins og hún fór fram á málþinginu finnst mér annars vera á villigötum. Hún hefur að megninu til snúist um hlut sem er ekki einu sinni til umræðu. Hvort losunarheimildir séu til staðar fyrir hreinsistöðina.

Þær eru ekki til. Það liggur fyrir. Ef byggð yrði olíuhreinsunarstöð myndi framkvæmdaaðilinn, sem líklegast væri að leggja niður hreinsistöð af svipaðri stærð, þurfa að koma með losunarkvóta með sér.

Nema þá að hann gæti nýtt sér jarðvarma í grunnhitun olíunnar og næði að tryggja sér raforku til vetnisfrmaleiðslu sem er annar afar orkukrefjandi þáttur í rekstri slíkrar stöðvar. Ef slíkar hugmyndir um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa við hreinsunina væru uppi á borðinu, væri t.d. Húsavík með nágrennið við gufuna og hitann á Þeistareykjum og raforkuna þaðan mun hagkvæmari staðsetning. Sérstaklega ef farið yrði í olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Umræðan um umhverfisáhrif olíuhreinsistöðvar á að fjalla um önnur atriði, þá aðallega siglingarnar og þá auka áhættu sem siglingin inn að hreinsistöðinni hefur í för með sér, en einnig losun rokgjarnra efna, svifryks og fastra efna og meðhöndlun þeirra. Losunarkvótar eru mál rekstraraðilans, ekki ríkisns.


Náttúruauðlindir í þjóðareigu - strax

Verið er að ræða frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á orkulögum og fleira á Alþingi núna. Það sem verið er að leggja til þar að auðlindir sem eru ekki í séreign í dag, séu sameign þjóðarinnar.

Er ákvæðið ekki ósvipað og það sem stendur í fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaganna. Gildi eða réttara sagt réttarvirkni þess ákvæðis um sameign hefur verið véfengt og ekki talið verja hagsmuni þjóðarinnar nægjanlega.

Það er þess vegna sem Framsókn hefur lagt fram tillögu til stjórnarskrárbreytingar um sameign þjóðarinnar á öllum þeim auðlindum sem ekki eru þegar í einkaeigu.

Það er eina leiðin til að ná markmiðum frumvarps iðnaðarráðherra. Ef Samfylkingin er samkvæm sjálfri sér frá því fyrir kosningar getur hún því ekki annað en stutt stjórnarskrárbreytinguna.


Bloggfærslur 28. febrúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband