Össur og Evrópusambandið
5.2.2008 | 12:53
Í nýjasta næturpistli sínum reynir Össur að mála Framsókn sem stefnulausan flokk í Evrópumálum. Þetta er svo sem ágæt tilraun, en samt spaugilegt að það skuli vera Samfylkingarmaður sem farinn er að kalla aðra vindhana í pólitík. Maður hlýtur að spyrja sig hver sé með bjálkann og hver flísina í auganu?
Málið er að í þessum málum er ekki kominn tími ákvarðana. Til þess eru engar forsendur. Stefna Framsóknar er skýr. Koma þarf á jafnvægi í efnahagslífinu fyrst og þarf það jafnvægi að hafa staðið í nokkurn tíma áður en menn meta hvort sækja eigi um eður ei. Slíka ákvörðun á að taka í styrkleika með langtímahagsmuni í huga, en ekki sem flótta frá aðstæðum.
Menn geta haft sína trú á það hvar hagsmunir þjóðarinnar liggja þá og þegar aðstæður í efnahagslífinu eru með þeim hætti að spyrja eigi þeirrar spurningar, en það er svo margt sem getur gerst þangað til og eftir því sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sofa lengur sínum Þyrnirósarsvefni í efnahagsstjórninni, því lengra verður þangað til að við getum tekið sólarhæðina í þessu sambandi.
Þess vegna má eiginlega segja að Samfylkingin sé ásamt íhaldinu það stjórnmálaafl sem á undanförnum árum hefur fært okkur hvað hraðast frá aðild að ESB, jafnvel þótt ESB-trúarbrögð þau sem iðkuð eru í Samfylkingunni hafi farið hátt og muni fara hátt. Maður hlýtur að spyrja sig hvort það sé ákvarðanatökufælni og minnimáttarkennd sem knýr þessi trúarbrögð svona sterkt áfram?
Það breytir samt ekki þeirri knýjandi spurningu um hvort peningamálastefnan sem framfylgt sé í dag sé sú rétta. Hvort fara eigi aftur í fastgengisstefnu og þá hvaða mynt ætti að tengjast og á hvaða gengi. Hvort halda eigi áfram fljótandi gengi, en hækka verðbólgumarkmiðið þannig að raunhæft sé að ná því, sem hefði óhjákvæmilega langþráða vaxtalækkun í för með sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)