Þjófnaður frá þeim sem minna mega sín
15.3.2008 | 15:25
Ég er sáttur við að borga skatt til að tryggja almenna velferð samfélaginu. Í því felst meðal annars jöfn tækifæri til menntunar, heilsugæslu og annarar þjónustu sem greidd hefur verið úr sameiginlegum sjóðum í gegnum ríki og sveitarfélög. Sömuleiðis félagsþjónusta, stuðningur og framfærslutrygging fyrir þá sem hallast standa. Það geri ég í trausti þess að vel sé farið með peningana.
Þess vegna svíður mér rosalega að sjá mínar skatttekjur fara til þeirra sem misnota kerfið með því að falsa hjúskaparstöðu sína og gerast með því hreinir og klárir þjófar. Það lítilmannlegasta við þann þjófnað er að það er verið að stela af þeim sem verst standa í samfélaginu, þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda.
Allir þekkja örugglega fjölda dæma um fólk, þar sem móðirin er skráð einstæð móðir en heimilisfaðirinn er skráður annarsstaðar. Allar bætur hækka, leikskólagjöld lækka og komist er framhjá biðröðum í kerfinu. Þessi svik geta numið hundruðum þúsunda og milljónum á ári, ef börnin eru mörg. Virðist fólk gera þetta jafnvel þótt afkoma þess virðist bara bærileg, bílarnir fínir og einbýlishúsin stór og endurnýjuð reglulega. Við þessu verður að bregðast.
Ég bar þetta upp við Árna Magnússon, sem þá var félagsmálaráðherra. Sveið honum þetta alveg eins og mér og sagðist ætla að skoða leiðir til að sporna við þessu. Seinna, þegar Jón Kristjánsson var orðinn ráðherra, bar ég málið undir aðstoðarmann hans og sögðust þau vera að skoða leiðir, t.d. að hægt yrði að tilkynna þjófnaðinn nafnlaust eins og hægt er hjá skattinum, en þar sem málið féll þá undir tvö ráðuneyti og fara þyrfti vandlega yfir alla lögfræði í málinu, gekk það hægt, jafnvel þótt fullur vilji væri til staðar á báðum stöðum.
Nú er búið að sameina þá málaflokka sem þetta snýst helst um í eitt félags- og tryggingamálaráðuneyti, svo það ætti að vera hægari heimatökin fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að taka á þessu máli og stýra því örugglega í höfn. Ég vona svo sannarlega að hún geri það, svo þeir peningar sem ætlaðir eru í velferð fari í ríkari mæli til þeirra sem þurfa á henni að halda og hægt sé að gera betur við það fólk. Ekki veitir af.