Tímamótagrein Jóns Sigurðssonar um ESB
29.4.2008 | 09:35
Það er ekki bara að Jón Sigurðsson sé fyrrverandi formaður Framsóknar, hann er líka fyrrverandi Seðlabankastjóri. Hann leiddi einnig Evrópunefnd Framsóknar, nefnd sem greindi málin afar djúpt og skilaði af sér skynsamlegum tillögum sem okkur ber að líta til. Þessi grein markar í mínum huga tímamót. Það er ekki lengur hægt að bíða og sjá til. Jón færir sterk rök fyrir því að ESB-Grýlan sé ekki eins ljót og hún virðist við fyrstu sýn.
Ég hef verið afar tvístígandi í minni afstöðu, eins og ég held að meirihluti þjóðarinnar sé. Finnst ég ekki hafa forsendur til að taka afstöðu, langar ekki beint inn í ESB, en tel samt að hagsmunir þjóðarinnar þurfi að fá að ráða umfram tilfinningar. Það er líklegast munurinn á minni kynslóð og þeim sem upplifðu 1944. Það er alveg ljóst að það þarf að skera á þennan hnút og taka afstöðu.
Þess vegna er ég fylgjandi tillögu Magnúsar Stefánssonar, að raunhæf samningsmarkmið verði mótuð í samvinnu allra aðila og í framhaldinu yrði ákvörðun um hvort sækja eigi um á grundvelli þeirra samningsmarkmiða lögð fyrir þjóðina í næstu sveitarstjórnarkosningum.
Með því vinnst margt:
Umboð til aðildarviðræðna yrði mjög skýrt. Bæði til handa þeim sem færu í viðræðurnar, sem ættu þá að fá frið til að vinna sína vinnu, en ekki síður skýr skilaboð tið ESB um hvað við ætlum okkur. Samningsstaða okkar yrði því sterkari en ella.
Ef tillagan yrði felld, yrði hugsanleg ESB umsókn ekki viðfangsefni íslenskra stjórnmála um einhvern tíma, áratug eða svo.
Almenningur gæti undirbúið sig fyrir sjálfa ákvörðunina um inngöngu. Fræðsla til almennings verður stóraukin í tengslum við þá kosningabaráttu sem færi í gang. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki rétti vettvangurinn fyrir þessa umræðu. Til þess eru of skiptar skoðanir innan þeirra. Eðlilegt væri að ríkið styrkti Heimssýn og Evrópusamtökin og önnur slík samtök til að standa að kynningu, en einnig yrði sendiherra ESB gagnvart Íslandi boðið að opna tímabundna ræðisskrifstofu, þar sem almenningur og samtök gæti aflað sér milliliðalausra upplýsinga.
Á meðan næst vonandi skikkur á efnahagsmálin hjá okkur sjálfum áður en að sjálfum aðildarviðræðunum kæmi. Það verður að nást, óháð umsókn.
Birti grein Jóns hér:
TÍMI UMSÓKNAR ER KOMINN
FJÁRMÁLAATBURÐIR síðustu mánaða hafa haft mikil áhrif á umræður um Evrópumál og langflestir virðast telja að aðild Íslands að ESB sé óhjákvæmileg. Við erum nú þegar aukaaðilar að ESB með aðildinni að EES. Full aðild Íslands að ESB snertir fjögur svið sérstaklega: landbúnað, sjávarútveg og fiskveiðiauðlindina, peningamálastefnu og gjaldmiðilinn, og síðast en ekki síst fullveldi Íslands. Enginn skyldi halda að almenningur taki létt á þessum málum. Íslendingar gleyma ekki þorskastríðunum eða þjóðfrelsisbaráttu liðinna tíða.En hver er staðan á þessum fjórum sviðum ?Væntanlegar stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar munu valda róttækum breytingum í landbúnaði á rúmum áratug. Þegar að þessu kemur verður aðild að ESB landbúnaðinum frekar til stuðnings heldur en hitt. En ekkert er gefið án fyrirhafnar í samningum.Álendingar hafa í aðildarsamningi Finna sérstakan rétt heima fyrir til að eiga og reka fyrirtæki og til að eiga fasteignir og lóðir. Sams konar ákvæði eru í samningi Maltverja. Þessu til viðbótar er sérstakt ,,Norðurslóðaákvæði í stjórnarskrárfrumvarpi ESB. Þessi atriði skipta máli.Forsendur sameiginlegrar fiskveiðistefnu ESB eiga ekki við á Íslandsmiðum. Nálægðarregla ESB og regla þess um stöðug hlutföll virða fiskveiðistjórnarkerfi hvers aðildarríkis. Viðurkennt er að útlendingar eiga ekki rétt til veiða á Íslandsmiðum. Trúlega stendur þó eftir að tillaga aðildarríkis um heildaraflamagn sé staðfest í ráðherraráði ESB. En Azoreyingar, Kanaríeyingar, Madeirabúar og fleiri hafa sérstök ákvæði í 299. grein aðalsamnings ESB sem tryggja þeim sérstöðu. Maltverjar hafa líka varanlegt sérákvæði. Þrátt fyrir þessi fordæmi verða sjávarútvegsmálin erfið viðfangs í samningum við ESB. Vandi Íslendinga á sviði gjaldeyris- og peningamála er augljós. Íslenska ríkið verður að verja fjármálakerfið og aðstoða bankana með eðlilegum skilyrðum. Hér er galopið lítið hagkerfi og flest leiðandi fyrirtæki eru þátttakendur í öðrum miklu stærri hagkerfum. Í hagkerfi okkar eru í raun þrír gjaldmiðlar: íslenska krónan, verðtryggð og gengistryggð reiknikróna og evra. Seðlabankinn hefur aðeins vald yfir íslensku krónunni og verður að forskrúfa hana til að getahaft áhrif á önnur viðskipti. Þetta gengur ekki nema á stuttu millibilsskeiði. ESB og evra virðast framtíðarvalkostur og aðrir möguleikar aðeins fræðilegir. En innganga að fullu inn í miklu stærri efnahagsheild er mjög vandasamt og flókið mál.Full aðild að ESB felur í sér nýja skilgreiningu fullveldis, þannig að þættir þess verða sameiginlegir. En hún er ekki einhliða takmörkun fullveldis. Í stjórnarskrárfrumvarpi ESB er ákvæði um úrsagnarrétt aðildarríkis og þetta ákvæði er líka í endurskoðuðum tillögum innan ESB. Ákvæði um úrsagnarrétt eyðir vafa um stöðu fullveldisins.Þetta verður að vera algerlega ljóst.
Úrslit í Evrópumálum verða aðeins ráðin við samningaborð og í þjóðaratkvæðagreiðslu. Íslendingar eiga ekki að bíða lengur með framtíðarákvarðanir um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Tími umsóknar er kominn."
![]() |
Tímabært að sækja um ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Máttarstólpar þjóðfélaga
29.4.2008 | 09:01
Ég ætla að leyfa mér þann þjófnað að endurbirta snilldarfærslu Þráins Bertelssonar:
"Björgólfur Thor Björgólfsson er í 29. sæti á lista yfir ríkustu menn Bretlands sem Sunday Times birtir í dag.
Ég er hins vegar númer eitt á listanum yfir ríkustu íbúa við Fischerssund í Reykjavík og borga skattana mína glaður."Ekki veit ég hvar ég er á listanum yfir ríkustu íbúa við Grettisgötu, en fæ í það minnsta ekki að kaupa neinar hallir niðri í miðbæ, eða neitt.Kannski vegna þess að ég borga mína skatta hér.