Hitt er alvarlegra, að menn tali tungum tveim í ríkisstjórninni
21.5.2008 | 13:43
Á vef Samfylkingarinnar í dag birtist pistill þar sem því er haldið fram að Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, hafi í viðtali í lok árs 2006 sagst hafa varað við ákvörðun um hvalveiðar í ríkisstjórn og að menn þyrftu að vera tilbúnir til að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.
Þarna tekst textasmiðum Samfylkingarinnar heldur óhönduglega til því ef þeir læsu sjálfa fréttina sem þeir vitna til þá er hægur leikur að sjá að Guðni Ágústsson, þá landbúnaðarráðherra, sagðist hafa varað við því í ríkisstjórn að markaðsþróun í Bandaríkjunum gæti verið í uppnámi ef farið yrði út í hvalveiðar. Ekkert kemur fram um það að ráðherrann hafi verið andvígur hvalveiðunum sjálfum. Það er svo viðskiptaráðherrann sem segir að auðvitað komi til álita að vega saman meiri og minni hagsmuni og raunar sögðu fleiri svo á þessum tíma.
Þvert á móti því sem ýjað er að í pistli Samfylkingarinnar þá hefur Guðni Ágústsson barist ótrauður fyrir rétti Íslendinga til hvalveiða og verið skýr í þeim efnum, m.a. í umræðum á Alþingi um þessi mál haustið 2006. Við þá sömu umræðu sagði hins vegar formaður Samfylkingarinnar, þá í stjórnarandstöðu: ...ég held að þetta sé rangt hagsmunamat hjá ríkisstjórninni sem hafi farið fram í þessu máli. En, það er önnur saga. Hitt er alvarlegra, að menn tali tungum tveim í ríkisstjórninni."
Svo mörg voru þau orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar og núverandi utanríkisráðherra, þeirra hinnar sömu og sendi frá sér yfirlýsingu um sjöleytið sl. mánudag sem hljóðar svo:
Nú þegar sjávarútvegsráðherra tekur ákvörðun um útgáfu reglugerðar um hrefnuveiðikvóta er það skýrt á milli ráðherra í ríkisstjórninni að ráðherrar Samfylkingarinnar eru ekki fylgjandi þessari ákvörðun. Útgáfa reglugerðar um hrefnuveiðikvóta er ákvörðun sjávarútvegsráðherra, tekin í framhaldi af stefnu sem hann mótaði 2006. Sjávarútvegsráðherra hefur stjórnskipulegt forræði á útgáfu reglugerðar sem þessarar án þess að hún komi til afgreiðslu í ríkisstjórn. Sem utanríkisráðherra tel ég að verið sé að fórna meiri hagsmunum fyrir minni þrátt fyrir að kvótinn sé minni í ár en fyrri ár. Ég mun á erlendum vettvangi og þar sem þess gerist þörf útskýra þau rök um sjálfbæra nýtingu hrefnustofnsins sem að baki liggja."
Alvarleiki þess að menn tali tungum tveimur í ríkisstjórninni er greinilega ekki lengur fyrir hendi og þrátt fyrir að enginn ráðherra Samfylkingarinnar sé fylgjandi ákvörðun sjávarútvegsráðherra þá á ofangreind yfirlýsing að duga sem mótmælisvottur.
Það er svooo gaman í ríkisstjórninni!