Er ráðherraræðið orðið algert?
7.5.2008 | 19:34
Sú ríkisstjórn sem nú situr virðist líta svo á að landinu hafi verið skipt upp í lénsríki 12 lénsherra.
Lénsherrarnir fengu úthlutað hver sínu léni, fyrir suma voru búin til lén, meðan aðrir sitja í sínum gömlu lénum og er eigendatilfinning þeirra sífellt að gera meira og meira vart við sig. Lénsherrarnir hafa hver sína stefnuna og markmið og ætla sér að ná þeim einir og sér, jafnvel þótt það stangist á við stefnu annarra lénsherra, eins og t.d. í Evrópumálum. Þeir sem hafa sterkustu eigendatilfinninguna eru farnir að setja sér sjálfir lög og framfylgja þeim að vild.
Má þar nefna Grímseyjarferjumálið sem dæmi, þar sem lénsherra fjármála ákvað í samráði við sérlega aðra lénsherra að ráðstafa fjármunum samkvæmt einhverjum baktjaldasamningi, þótt skýrt sé í Stjórnarskrá lýðveldisins að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi. Reyndar telur lénsherra fjármála sig alls ekki þurfa að leita til Alþingis með þær fjárveitingar sem honum þóknast þó að leita heimilda fyrir en eftir á, sbr ummæli hans um þörfina á að endurskoða fjárlög í kjölfar brostinna forsendna þeirra. Það sé bara hægt að leiðrétta þetta í fjáraukalögum.
Annað dæmi er auglýsing og væntanleg ráðning lénsherra heilbrigðismála á forstjóra Sjúkratryggingastofnunnar. Stofnunnar sem er ekki til og ekki er búið að setja lög um á Alþingi að skuli vera til. Hlutverk og verkefni stofnunarinnar eru meira að segja tilgreind í auglýsingunni, án nokkura fyrirvara. Alþingi má sem sagt ekki breyta neinu og verður að kyngja þessari fyrirætlan lénsherrans.
Nú síðast setti Björn Bjarnason lénsherra dómsmála sér lög um að gera þyrfti Landhelgisáætlun, vann hana og kynnti í gær. Setti oggolítinn fyrirvara um að Alþingi myndi samþykkja fjárveitingarnar, en að öðru leiti var þetta kynnt sem orðinn hlutur og samþykkt stefnumörkun. Það er ekkert í lögum um Landhelgisgæsluna sem mælir fyrir um slíka áætlun og því getur Alþingi ekki verið heimilt að veita fjármuni til vinnslu slíkrar skýrslu, hversu góð og nauðsynleg sem hún annars kann að vera. Þessi stefnumótun er ekki einu sinni lögð fyrir Alþingi sem þingsályktunartillaga, eins og gerist við lögbundnar tilsvarandi áætlanir eins og samgönguáætlun, heilbrigðisáætlun o.s.frv. Hún er bara kynnt með pompi og prakt.
Ekki svo að skilja að ég sé ekki ánægður með að sett séu metnaðarfull markmið um Landhelgisgæsluna, sem er ein almikilvægasta stofnun landsins, en lénsherrarnir verða að fara að lögum og virða Stjórnarskrá lýðveldisins og grundvallarhugmyndir lýðræðisins um þrískiptingu ríkisvaldsins. Þessi dæmi eiga sér því miður allt of mörg systkini í veruleikanum.
Ásta Möller og einkavæðing heilbrigðiskerfisins
7.5.2008 | 09:43
Í kjölfar þess að Siv Friðleifsdóttir lýsti áhyggjum sínum með áætlun Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins sem Guðlaugur Þór gat ekki svarið af sér í Silfri Egils á sunnudaginn var, hefur Ásta Möller greinilega verið sett í að skrifa grein í Morgunblaðið til að reyna að draga úr skaðanum. Biður Ásta Siv að hætta að snúa út úr stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Er Ásta með ýmsar tilvitnanir í heilbrigðisstefnu Sjálfstæðisflokksins, þar sem leiðin til einkavæðingar er reyndar vörðuð, eins og ég hef áður rakið, en hún lætur eiga sig að minnast á að í atvinnumálastefnu flokksins segir með tilvísun í góðan árangur af einkavæðingu bankanna:
"...Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála. "
Þarf frekari vitnanna við?
Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að einkavæða heilbrigðiskerfið með stuðningi Samfylkingarinnar, sem samþykkt hefur stjórnarsáttmála sem rúmar allar nauðsynlegar undirbúningsaðgerðir áður en skrefið verður stigið til fulls.