Íhaldið hræðist nýjan formann SUF
11.6.2008 | 11:51
Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn sér ógn í nýjum formanni Sambands ungra framsóknarmanna, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, sem kjörin var á þingi sambandsins um helgina.
Í dálkinum klippt og skorið í miðopnu 24 stunda er beitt bókstaflegum moldarburði til að ata hana og spyrða við einhverja arma innan Framsóknar og henni stillt upp sem andstæðingi Björns Inga Hrafnssonar og hún sett í lið með Guðna formanni. Allir Framsóknarmenn eru í liði með Guðna formanni, einnig Björn Ingi.
Ég veit ekki betur en að þessi glæsilegi lögfræðingur hafi sjálfstæðar skoðanir sem eru á engan hátt í liði með neinum í þeim skilningi sem íhaldið þekkir best innan eigin vébanda og vill greinilega að sé innan annara flokka. Hennar skrif bera vitni um það. Til dæmis veit ég ekki betur en að Bryndís hafi afar svipaðar skoðanir og Björn Ingi í evrópumálum, sem hefur verið helsta ágreiningsefnið innan Framsóknar undanfarin ár, sem Guðni hefur nú sett í afar farsælan farveg og losað flokkinn undan þeirri skoðanakúgun sem ástunduð er hjá íhaldinu og krötum gagnvart þeirri umræðu.