Ríkisstjórnin tekur ekki mark á Mannréttindanefnd SÞ
9.6.2008 | 13:23
Þetta svar við áliti mannréttindanefndar SÞ er undarleg lesning.
Fyrir það fyrsta er fallinn úrskurður, álit mannréttindanefndar SÞ. Ísland greip til varna gagnvart kærunni og niðurstaða fékkst. Þess vegna er hlálegt að sjá viðbrögð þar sem I. hlutinn eru nýjar og endurteknar varnir Íslands í málinu, söguskýringar og útskýringar. Slíkt á heima í málflutningnum sjálfum, ekki í viðbrögðum við niðurstöðu hans.
"Þessi viðbrögð eru hér með kynnt mannréttindanefndinni og er vænst viðbragða frá henni við framangreindu og hvort nóg sé að gert."
Þessi lokaorð viðbragðanna eru ekkert annað en yfirlýsing um að ríkisstjórnin taki ekki mark á álitinu um leið og ríkisstjórnin viðurkennir að hafa ekki varið sinn málstað með nægjanlegum hætti. Heldur ríkisstjórnin að mannréttindanefndin segi "sorrý, við misskildum þetta aðeins og ætlum að breyta álitinu"!!!
Það er reyndar alveg í samræmi við þá sýn sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa á íslenskum dómstólum, og birtist nú síðast í Baugsmálinu.
Í öðru lagi er því hafnað að greiddar verði bætur. Álit mannréttindanefndarinnar er sem sagt virt að vettugi.
Í þriðja lagi þá er sagt að
"...efnt verði til allsherjarskoðunar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu í náinni framtíð með breytingar í huga þannig að komið verði til móts við kröfur mannréttindanefndar Sþ, eftir því sem unnt er."
...eftir því sem unnt er!
Engar tímasetningar, engin aðferðafræði, engin markmið. Það er alveg greinilegt að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að fara í þá vinnu sem nauðsynleg er til að bregðast við áliti mannréttindanefndarinnar, til þess er líklegast engin eining milli stjórnarflokkanna.
Þetta mál er og í kolvitlausum farvegi. Fyrst ríkisstjórnin náði ekki samstöðu um lagabreytingar, hefði sjávarútvegsráðherra átt að flytja Alþingi skýrslu um álitið fyrir þingfrestun, þar sem einmitt hefði átt að fara yfir þær varnir sem hafðar voru uppi og leggja svo í framhaldinu fram þingsályktunartillögu þar sem verklag við endurskoðun fiskveiðstjórnunarkerfisins væri fest niður, skilgreindir þeir aðilar sem að því starfi ættu að koma og settir tímafrestir niðurstaðna. Þess í stað fer fram umræða utan dagskrár. Ekkert formlegt, bara kjaftasnakk. Ríkisstjórnin virðir þannig löggjafarvaldið og þingræðið að vettugi. Ekki í fyrsta skipti.
Þetta svar er hins vegar bara loft, með smá svifryki og Íslandi til skammar.
![]() |
Svar sent til mannréttindanefndar SÞ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)