Eru VG auðtrúa eða klækjarefir?
15.8.2008 | 21:22
Sú saga sem Árni Þór Sigurðsson bar út í kvöldfréttum Sjónvarpsins í gær um að Ólafur F hefði verið tilbúinn til að víkja til að rýma fyrir Tjarnarkvartettinum getur verið merki um tvennt.
Annað hvort er borgarstjórnarflokkur VG auðtrúa eða klækjarefir og víla ekkert fyrir sér þegar kemur að stjórnmálum, þvert á allan fagurgalann.
Kannski er þetta blanda af hvoru tveggja.
Fram hefur komið að Ólafur F hefði verið tilbúinn að skoða að greiða fyrir meirihluta Tjarnarkvartettsins með því skilyrði að Óskar Bergsson krefðist afsagnar hans og byggi um leið til svarinn fjandmann Ólafs F úr sér, sem Ólafur F gæti svo hamast á með brigslyrðum út kjörtímabilið.
Það kom ekki til greina af hálfu Ólafs F að Tjarnarkvartettinn í heild sinni skoraði á hann. Ólafur var heldur ekki tilbúinn að segja af sér, heldur var hann tilbúinn til að taka Tjarnarkvartettinn í gíslingu, sömu gíslingu og íhaldið hefur verið í síðastliðna 203 daga, með því að víkja tímabundið frá.
Ólafur F má í sjálfu sér alveg vera með tilraunir til að hanna slíka atburðarás, það lýsir kannski best hans nálgun á stjórnmál, en það er alveg ótrúlegt að Árni Þór Sigurðsson skuli bera þetta yfirhöfuð á borð fyrir flokksmenn sína, Samfylkinguna, að maður tali ekki um Óskar Bergsson.
Halda VG virkilega í ljósi sögunnar að hægt hefði verið að treysta Ólafi F, fyrst hann var ekki tilbúinn að segja af sér eða er þetta hin endanlega birtingarmynd klækjastjórnmála VG?
Ég trúi því ekki að VG hafi verið tilbúin að gangast sjálfviljug í gíslingu Ólafs F og framlengja vitleysuna sem verið hefur í gangi síðustu 203 daga. Nei, það getur enginn viljað, er það?
![]() |
Framsóknarfélög styðja Óskar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Glæsileg byrjun á stórmótaferli Bergs Inga
15.8.2008 | 10:21
Bergur Ingi Pétursson stóð sig eins og hetja í sleggjukastinu í morgun. Hann hefur verið í mikilli framför og eðlilegt að menn nái ekki endalaust að bæta sig, en þetta er hans 6. besti árangur frá upphafi skv afrekaskrá FRÍ .
Maður þarf líka að hafa í huga að Bergur hefur ekki haft langan tíma að vinna út frá því að vera með öruggt Ólympíusæti, heldur verið að berjast við það fram á síðustu stundu að komast til Kína yfirhöfuð, sem hefur óneitanlega áhrif á það hvernig æfingarnar eru settar upp.
Ég er sannfærður um að þessi reynsla mun nýtast þessum 23 ára afreksmanni vel í framtíðinni og tel að hægt sé að panta strax flugmiða fyrir hann á stórmót næstu margra ára.
![]() |
Bergur Ingi kastaði 71,63 metra í Peking |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)