Hver má vera í stjórnmálabaráttu?
15.9.2008 | 00:28
Í silfri Egils tókust þeir Sigurður Kári og Ögmundur á um framgöngu BSRB í hinum ýmsu málum, nú síðast í meintri hjálp við VG í baráttunni gegn sjúkratryggingafrumvarpinu.
Ögmundur Jónasson er formaður BSRB, það liggur fyrir. Meðan stjórn BSRB samþykkir þessa meðferð fjármuna og þing BSRB samþykkir gjörninginn og kýs stjórn sem styður þetta er ekkert við því að segja.
Ég myndi ekki gera þetta sjálfur, sérstaklega í tilfelli vatnalaganna, en það skiptir ekki máli, það er þing BSRB sem ákveður þetta á endanum og ég er ekki í neinni stöðu til að gagnrýna það hvernig þau samtök ráðstafa sínum fjármunum. Ég er ekki félagi í þeim.
Mér finnst reyndar frekar skrítið að það skuli vera þingmaður úr frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins sem telur sig geta komið fram með þessa gagnrýni, því það hefur varla verið sá fundur hjá SA eða aðildarfélögum samtakanna þar sem þingmenn eða einhverjir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru ekki í sviðsljósinu.
En er það óeðlilegt?
Ég tel svo ekki vera. SA og aðildarfélög þeirra eru hagsmunagæslufélög atvinnurekenda og fellur stefna atvinnulífsins oft þétt upp að stefnu Sjálfstæðisflokksins. Reyndar fellur hún einnig þétt upp að stefnu Framsóknar og í sumum tilfellum að öðrum flokkum og mætti SA og félög þess líta frekar til þess, en stjórnmál er barátta hagsmuna og er því eðlilegt að þau samtök hampi þeim sem þau telji að gæti hagsmuna sinna best.
Þannig er með öll hagsmunasamtök. Þau beina kröftum sínum í þær áttir og nota þær aðferðir sem þau telja að þjóni sínum hagsmunum best. Í opnu lýðræðisþjóðfélagi eru nefnilega allir í stjórnmálum, hver á sinn hátt, en ekki nema fá samtök eru beinir stjórnmálaflokkar sem vilja komast á þing og í sveitarstjórnir.
Í því ljósi verður einnig sérstaklega spennandi að fylgjast með því hversu góðan aðgang þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa að SA í framhaldi af aðskilnaði þeirra í gjaldmiðislmálunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)