Upp úr skotgröfunum með Evrópuumræðuna !
19.9.2008 | 00:15
Grein þeirra Birkis, Páls og Sæunnar í Fréttablaðinu í dag um að fara eigi í kosningu næsta vor um hvort fara eigi í aðildarviðræður við ESB er eðlilegt framhald af þeirri umræðu sem hefur gerjast innan Framsóknarflokksins á undanförnum árum og áratugum.
Steingrímur Hermannsson vann mikla og vandaða undirbúningsvinnu við gerð EES samningsins, sem ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks rak svo endanhnútinn á. Jón Baldvin hljóp reyndar endasprettinn það hratt að stjórnarskráin var skilin eftir í uppnámi. Málið var ekki klárað til enda og því var hluti Framsóknar á endanum á móti samþykkt hans og þá vegna stjórnarskrárinnar, ekki af heimóttarskap eins og margir hafa viljað halda á lofti.
Kannski voru það klækindi Jóns Baldvins að láta ekki breyta stjórnarskránni til að þurfa ekki í gegnum kosningar með málið og eins til að láta ekki líta út fyrir að framsalið væri eins mikið og raun var og eiga á hættu að Sjálfstæðismenn skiptu aftur um skoðun í málinu.
Að samningnum samþykktum hefði átt að breyta stjórnarskránni í næstu kosningum. Það er enn eftir og ljóst að þarf að gera vegna þess framsals á fullveldi sem hlaust af EES samningnum en reyndar einnig öðrum gjörðum, eins og t.d aðildina að mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur yfirþjóðlegt vald, þar sem niðurstöður hans eru bindandi fyrir Íslendinga.
Það breytir því samt ekki að hægt er að fara í aðildarviðræður stjórnarskrárinnar vegna, en áður en til hugsanlegrar inngöngu kæmi þyrfti að vera búið að breyta henni, þó fyrr hefði verið.
Halldór Ásgrímsson sá þörfina á því að kalla eftir umræðu um stöðu Íslands í Evrópu í sinni formannstíð. Gerði hann það af yfirburðaþekkingu og yfirvegun, en í andstöðu við ýmsa innan flokksins. Af tillitssemi við þá var umræðan ekki keyrð eins mikið áfram og eðlilegt hefði mátt telja og skapaðist talsverð togstreita innan flokksins vegna þess. Að mínu mati var þessi andstaða á misskilningi byggð. Það að keyra umræðu áfram er ekki það sama og að þvinga fram ákveðna niðurstöðu, heldur ósk um að öll vafamál og hagsmunir séu kortlagðir og metnir áður en afstaða er tekin.
Framsókn hefur nefnilega ekki á neinum tímapunkti tekið afstöðu til spurningarinnar um inngöngu í Evrópusambandið, til þess hafa ekki verið nægjanlega skýrar forsendur.
Í stuttri formannstíð Jóns Sigurðssonar var jafnvægi komið á umræðuna innan flokksins. Var það skýr stefna hans að fara þyrfti yfir málið í heild sinni og af yfirvegun og afstöðu yrði að taka í styrkleika en ekki veikleika.
Í augnablikinu stendur íslenskt efnahagslíf veikt, en þar með er ekki sagt að við eigum að hætta að hugsa um landsins gagn og nauðsynjar til framtíðar. Við eigum einmitt að íhuga málið vel núna og gaumgæfa, þannig að við séum tilbúin að taka afstöðu þegar betur árar og við stöndum sterkum fótum á ný. Það gæti orðið fyrr en seinna, því íslenskt efnahagslíf verður örugglega fljótt að jafna sig með allan þann kraft sem býr í þjóðinni og þær auðlindir sem við búum að.
Þess vegna er okkur nauðsyn að halda áfram að leita svara við spurningunni hvort okkar hag sé betur komið innan ESB eða utan. Guðni Ágústsson og í framhaldinu miðstjórn Framsóknar tóku undir hugmyndir Magnúsar Stefánssonar um að halda ætti tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, sem Björn Bjarnason hefur einnig tekið undir og fylgismenn hans keppast um að eigna honum.
Grein þremenninganna er eðlilegt framhald af þessu ferli og ekki í neinni andstöðu við ályktanir flokksþings, miðstjórnar né orða formanns flokksins. Greinin er skrifuð í ljósi þess að umræðan hefur verið í skotgröfum of lengi og nauðsynlegt er að losa um þann hnút, enda eru svör við þeim ágreiningsefnum sem eftir standa pólitísk og þau svör geta einungis stjórnmálamenn veitt í beinum aðildarviðræðum. Embættismenn ESB sem nú eru heimsóttir, í pínlegu fálmi núverandi ríkisstjórnar, geta engin svör veitt. Þeir hafa ekkert umboð til þess.
Ef þjóðin vill að svaranna sé leitað, þarf umboðið að vera skýrt. Skýrasta umboðið og sterkasta samningsstaðan fæst með þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin er óháð öðrum kosningum.
Á þann hátt yrði gengið hreint til verks. Ef þjóðin vill ekki aðildarviðræður er loftið hreinsað og rammi stjórnmálanna skýrari í talsverðan tíma. Sömuleiðis yrði ramminn skýrari ef farið yrði í aðildarviðræður. Þá myndu stjórnmálin sameinast um að ná sem besti niðurstöðu í aðildarviðræðum. Það er alveg ljóst að ESB væri mikill fengur af inngöngu okkar og því allt eins víst að við okkar hagsmunir myndu hljóta ríkan skilning. Það er þó ekki vitað fyrirfram og því ekkert sem segir að niðurstaðan yrði samþykkt af þjóðinni og þar með innganga þegar þar að kæmi.
Svaranna þarf að leita og það sem fyrst, því efnahagslífið og þjóðin öll líður fyrir þá herkví sem málið er í núna.