Landsskipulag: Góð hugmynd misskilin í framkvæmd

Grunnhugmyndin með landsskipulagi kom frá okkur Framsóknarmönnum og var samþykkt sem ályktun á flokksþingi, en hún fól í sér allt annað en það sem nú er verið að fjalla um.

Sú hugmynd fól í sér að ríkið ætti að samhæfa sínar áætlanir og koma þeim á framfæri við sveitarfélögin á einum stað til að einfalda skipulagsvinnu sveitarfélaganna.

Ríkið væri þar með skyldað til innbyrðis samhæfingar en vera ekki að skipuleggja þvers og kruss út frá sitt hvorum forsendunum eins og mörg dæmi eru um.

Það er allt önnur nálgun en að ríkið deili og drottni eins og felst í því frumvarpi sem nú er komið fram og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vill koma í gegn með lófaklappi Græna netsins.

Eftir sem áður þurfa sveitarfélögin auðvitað að taka afstöðu til þeirra óska sem koma fram um landnotkun í sinni skipulagsvinnu, þ.á.m. óska ríkisins um landnotkun til vegagerðar, flugvalla, fjarskiptamannvirkja, línulagna o.s.frv en endanlega ákvarðanatökuvaldið á að vera hjá sveitarfélögunum en skipulagsvinnan ætti að vera einfaldara hvað varðar óskir ríkisins með tilkomu þess landsskipulags sem Framsókn vildi koma í lög.


mbl.is Græna netið vill landsskipulag á næsta þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðlæti Gísla Marteins og Þorleifs við fjaðraskreytingar

Síðan ég fór að taka þátt í borgarmálunum, fyrst í meirihluta í umhverfisráði, svo í miðborgarstjórn í 2. meirihluta, sem reyndar aldrei fundaði, í 3ja meirihlutanum sem áheyrnarfulltrúi í menningar- og ferðamálaráði og núna sem varaformaður í umhverfis- og samgönguráði hefur það verið brýnt fyrir mér að það sé óskráð og skráð regla að það sem gerist í undirnefndum borgarstjórnar og starfshópum hans sé trúnaðarmál.

Endanlegar ákvarðanirnar eru teknar í borgarráði og svo borgarstjórn, sem hafa fulla heimild til að breyta ákvörðunum ráða og starfshópa, svo það er varasamt að vera að tjá sig um mál fyrr en búið er að fjalla um málin í borgarstjórn.

Maður hefur oft tekið þátt í góðu starfi og komið með hugmyndir og ábendingar, sem manni hefði þótt gaman að skrifa um, en það má ekki og það verður maður að virða, nema í mesta lagi um það sem fram kemur í sjálfum fundargerðum ráðanna og þá sérstaklega bókunum þess, en fundargerðir starfshópanna eru aftur á móti ekki opinberar og á ekki að fjalla um.

Þess vegna fannst mér skrítið að sjá Gísla Martein skrifa um frábært mál sem verið er að vinna að í starfshópi um kaffihús í Hljómskálagarðinum. Við erum að vinna í því í mikilli einingu fulltrúar minnihluta og meirihluta eins og hann lýsir ágætlega, en engin niðurstaða er komin, þótt málið sé komið í góðan farveg og muni efalaust fá góða niðurstöðu.

Svona gerir maður ekki...

Á sama hátt gerir maður ekki eins og Þorleifur Gunnlaugsson VG sem fór að tala um úrlausnir í málefnum útilegumanna sem sínar, meðan að það rétta var að velferðarráð er að vinna að þeirri lausn sem hann lýsir í góðri sátt og verða endanlegar lausnir kynntar þegar þær hafa farið rétta leið í kerfinu.


Er búið að semja um vopnahlé í ríkisstjórninni?

Þögn Samfylkingarinnar í leiðréttingarbaráttu ljósmæðra hefur komið mér afar spánskt fyrir sjónir í ljósi síendurtekinna yfirlýsinga ráðherra hennar og beinlínis árása á samstarfsflokkinn og ráðherra hennar undanfarið þegar erfið og umdeild mál hafa komið upp. Formaður flokksins segir að engin kreppa sé, svo rök fjármálaráðherra um að nú séu ekki aðstæður í þjóðfélaginu til að leiðrétta kjör ljósmæðra halda varla í hennar eyrum og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að þrýsta á um að semja, enda er leiðréttingin í samræmi við stjórnarsáttmálann.

Ég get bara séð eina líklega skýringu á því.

Eftir fylgistap Sjálfstæðisflokksins í síðustu Gallupkönnun og fylgisaukningu Samfylkingarinnar hefur Geir H Haarde farið til Ingibjargar Sólrúnar og sagt hingað og ekki lengra. Ef samstarfið eigi að halda áfram þurfa ráðherrar Samfylkingarinnar að hætta ráðast á Sjálfstæðisflokkinn í hvert skipti sem tækifæri gefst.

Nú þurfi vopnahlé, annars missi forysta Sjálfstæðisflokksins stuðning við áframhaldandi samstarf meðal flokksmanna.

Þau skilaboð hefur formaðurinn borið áfram til ráðherra sinna og þeir hlýða, minnugir þess að ISG hefur að því að ég hef heyrt opna heimild til að víkja ráðherrum, kjósi hún svo að gera. Undarlegt lýðræði það ef rétt er.

Reyndar hefur kvennahreyfing Samfylkingarinnar ekki fengið boðin, sem og ritstjóri vefsíðu þeirra, sem birti mótmæli kvennahreyfingarinnar.

Þau vonast líklegast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn taki ekki eftir mótmælunum, bara þeir kjósendur sem kusu flokkinn út á jafnréttisáherslur.


Bloggfærslur 6. september 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband