Vönduð vinna skilar árangri
7.1.2009 | 08:20
Nýi meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð sem hann axlaði, þegar Óskar Bergsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir leystu borgina undan viðjum stjórnleysis.
Að geta skilað fjárhagsáætlun í þessu árferði, þar sem varnarlínan er dregin við að engum verði sagt upp, engin grunnþjónusta skert og engar gjaldskrár hækkaðar, er stórafrek.
Strax í myndun meirihlutans var ákveðið að taka þyrfti á fjármálum borgarinnar af ábyrgð og festu og hefur sú vandaða vinna sem Óskar og Hanna Birna hafa leitt, í mun meiri samvinnu við minnihlutann en áður hefur þekkst, en ekki síður í góðri samvinnu við stjórnkerfi borgarinnar, skilað þeim árangri að borginni verður stjórnað með hliðsjón af eins raunhæfri fjárhagsáætlun og aðstæður í samfélaginu gera mögulegt.
Við í umhverfis- og samgönguráði unnum fjölda hagræðingartillagna með starfsmönnum sviðsins, sem hafa mætt þeim kröfum sem til okkar voru gerðar, auk þess sem við komum með nokkrar miðlægar tillögur sem eru ekki bara til peningalegs hagræðis, heldur einnig umhverfislegs. Umhverfismál þurfa nefnilega ekki alltaf að kosta aukin útgjöld. Góðir búskaparhættir eru nefnilega yfirleitt umhverfisvænni en aðrir. Um tillögurnar var góð sátt alveg fram á síðasta fund, þegar fulltrúar minnihlutans fóru allt í einu að bóka á neikvæðum nótum. Það er þeirra val, sem ég harma, því það er jú auðvitað alltaf betra fyrir borgarbúa að hafa alla sjö ráðsmennina saman í liði við að gera borgina betri, en að vera fjögur við það en hafa þrjá af fulltrúum upptekna við að finna atriði sem hægt er að slá pólitískar keilur með. Vonandi fellur þessi veggur sem fyrst aftur, því hugmyndir minnihlutans eru auðvitað margar góðar, minna væri nú.
Þessari fjárhagsáætlun verður fylgt eftir með nýjum hætti, þar sem hún verður endurskoðuð reglulega, sem er afar jákvætt, sérstaklega í þessu efnahagsumhverfi og vonandi heldur það verklag áfram einnig þegar ísa leysir.
En vinnubrögðin eru til fyrirmyndar, niðurstaðan eftir því og ég er stoltur af því að tilheyra þessum hópi.
![]() |
Rætt um fjárhagsáætlun fram á nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |