Nýjasta verkefni ríkisstjórnarinnar: Flóknara Ísland

Það er furðulegt hvernig þessi sósíalistastjórn ætlar að haga sér. Það er eins og hún skilji ekki stjórnskipunina í landinu.

Ríkisstjórnin byrjaði á því að eyðileggja staðgreiðslukerfi skatta og flækja skattkerfið þannig að endurgreiðslur og aukagreiðslur verða aftur helsta "skemmtun" skattborgaranna og boðar um leið að því kerfi sem hún er nýbúin að koma á, verði breytt í grundvallaratriðum strax á næsta ári og sóa þar með hundruðum milljóna í breytingar á bókhaldskerfum fyrirtækja landsins. Til einskis.

Í gær kom formaður efnahags og skattanefndar með þá tillögu að stofna embætti umboðsmanns skuldara, sem er verkefni sem ráðgjafastofa um fjármál heimilanna sinnir ásamt umboðsmanni neytenda, þannig að það yrði bara enn eitt flækjustigið í stjórnsýslunni.

Nú kemur ríkisstjórnin fram með enn einn flækjufótinn, sérstakar siðareglur, sem hún setur þá sjálfri sér og ráðuneytum sínum.

Þarna sýnir hún fullkomna vanþekkingu eða vanvirðingu við löggjafarvaldið, sem hefur þegar sett stjórnsýslunni lög um störf sín í stjórnsýslulögum.

Ef þau eru ófullkomin, sem þau vafalaust eru á einhvern hátt, á að breyta þeim og bæta. Ekki fara í silkihúfusaumaskap eins og þennan.

En ríkisstjórnin virðist hafa kastað verkefninu Einfaldara Ísland algerlega fyrir róða og tekið upp nýtt, Flóknara Ísland.


mbl.is Siðareglur samþykktar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust er forsenda samstöðu

Það eru slæm tíðindi fyrir þjóðina að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna skuli ekki treysta formönnum stjórnarandstöðuflokkanna fyrir því hvað ríkisstjórnin sé í raun og veru að gera til að koma nýjum Icesaveviðræðum aftur í gang, og á hvaða grundvelli þreifingar milli þjóðanna fari fram.

Þetta er því miður vitnisburður um að raunverulegur vilji ríkisstjórnarflokkanna til að skapa breiða þverpólitíska samstöðu sé ekki fyrir hendi af þeirra hálfu. Hann sé bara fagurgali í orði, en ekki staðreynd á borði.

Þetta sjá viðsemjendur okkar, sem geta ekki búist við öðru en sömu niðurstöðu af sömu vinnubrögðum, og verða því að telja líklegt að væntanlegir þriðju samningar yrði líka felldir og því til lítils að gefa eitthvað eftir eða að ljá máls á viðræðum yfirhöfuð.

Ríkisstjórninni ber skylda til að mynda þverpólitíska samstöðu um þetta mál. Sú samstaða getur ekki byggst á öðru en trausti og ef það er núverandi forystumönnum ríkisstjórnarinnar um megn, valda þeir ekki sínu hlutverki og verða að láta aðra um að sinna því.


mbl.is Langur en rýr fundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband