Alvarlegur misskilningur Samfylkingarinnar á lýðræðinu

Ríkisstjórnin virðist ætla að halda áfram að beita því eina vopni sem hún hefur beitt í sinni valdatíð á sína eigin þingmenn, stjórnarandstöðuna og nú þjóðina.

Hótunum.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur ítrekað hótað afsögn ríkisstjórnarinnar við hin og þessi tilefni í stað málefnalegar umræðu, en aldrei hefur orðið af efndum þeirra, enda yfirleitt tóm endaleysa.

Nú kemur Þórunn Sveinbjarnardóttir og endurtekur þennan leik og hótar afsögn ríkisstjórnarinnar verði Icesave lögunum hafnað og krefst þess í rauninni að forsetinn segi af sér, verði þau staðfest.

Í þessu felst alvarlegur misskilningur á lýðræðinu og stjórnskipun landsins, þar sem hlutunum er snúið algerlega á hvolf.

Forseti er kosinn í almennum kosningum.

Í Alþingiskosningum kýs þjóðin sér fulltrúa á Alþingi sem setja lög, sem forsetinn svo staðfestir eða sendir í dóm þjóðarinnar

Forsetinn felur ákveðnum aðilum að mynda ríkisstjórn sem framkvæmir vilja löggjafans í trausti meirihluta Alþingis.

Það að þjóðin hafnaði lögum sem borin væri undir hana er ekki vantraust á þá ríkisstjórn eða ráðherra sem í henni sitja. Það væri mikið frekar vantraust á Alþingi og þá þingmenn sem samþykktu viðkomandi lög. Ekki á þá ríkisstjórn sem hefur það hlutverk að fara að þeim lögum sem í gildi eru hverju sinni og framfylgja þeim.

En í rauninni er höfnun eða synjun á ákveðnum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu ekki vantraustsyfirlýsing á nokkurn aðila. Hún er einfaldlega ákvörðun um tiltekin lög.

Það að stilla sjálfum sér upp á aftökubekk sem tengdur er slíkri atkvæðagreiðslu, er ekkert annað en skrumskæling á lýðræðinu og gíslataka á málinu, þar sem þjóðinni er ekki leyft að taka sína ákvörðun óáreitt, heldur þarf hún í leiðinni að taka ákvörðun um allt aðra hluti en standa á atkvæðaseðlinum.

Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra og lýsir alvarlegum misskilningi á stjórnskipun landsins og virkni lýðræðisins.


mbl.is Segir valið standa milli ríkisstjórnar og forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband