Furðulegar eftiráskýringar Óskars og Guðna

Innanflokksmál eins og þessi á ekki að ræða á opinberum vettvangi, en fyrst Guðni Ágústsson fv. formaður Framsóknarflokksin og Óskar Bergsson fv. borgarfulltrúi hans halda opinberlega fram furðulegum eftiráskýringum um valið á lista flokksins í Reykjavík, verður að leiðrétta það á sama vettvangi.

Óskar Bergsson, þá sitjandi borgarfulltrúi, var mjög áfram um að valið yrði á listann með lýðræðislegum hætti. Sú aðferð var ákveðin á kjördæmaþingi þar sem allir greiddu aðferðinni atkvæði, þar sem fram komu allir frestir og skilyrði.

Undirbúningur tillögunnar var í höndum stjórnar kjördæmasambandsins, einkum hans helsta trúnaðarmanns, formanns FR.

Öll þau sem höfðu hug á að taka sæti á listannum, söfnuðu eðlilega liði til að tryggja sér kosningu með lýðræðislegri aðferð. Það gerði Óskar Bergsson einnig, eðlilega.

Einar Skúlason hlaut góðan hljómgrunn og hlaut yfirburðakosningu. Einar fékk 62% atkvæða og Óskar 38%.

Þannig virkar lýðræðið og lýðræðisþroskinn felst ekki síst í því að taka niðurstöðunni, þótt hún sé ekki sú sem maður myndi helst vilja.

Óskar hefur um árabil verið einn ötulasti lýðræðistalsmaður Framsóknarflokksins, stundum skilgreindur í "órólegu deildinni" gegn "flokkseigendunum" og því er framganga hans og stuðningsmanna hans mér mikil vonbrigði.

En nú er ekkert annað að gera en að hlusta á skilaboð kjósenda, félagsmanna og trúnaðarmannna, taka mark á þeim og bæta vinnubrögðin, því hófsamur og yfirvegaður málflutningur öfgalauss stjórnmálaflokks eins og Framsóknarflokksins er það sem ég tel að sé best fallið til að reisa við íslenskt samfélag og stuðla að endursköpun þess sáttmála sem rofnaði á fyrstu árum þessarar aldar.


mbl.is Telur bellibrögð hafa komið oddvitanum í koll í kosningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég viðurkenni að ég þekki ekki til þess hvernig atkvæðum var smalað eða ekki smalað fyrir þetta prófkjör. Ég hef séð skrif Óskars og Guðna. Ég vona að ásökun þeirra sé ekki réttmæt, þó ég hafi reyndar ekki átt vanda til þess að heyra ósannindi frá Guðna.

Einar nafni minn vakti mér mikið traust. Ég tel að bæði hann og Óskar hafi komið vel fyrir hingað til. Það eina sem mætti finna að þeim er að þeir eru ekki nógu litríkir til að safna fylgjendum á breiðum grundvelli langt út fyrir flokksraðir. Biturð Óskars hryggir mig.

Ég tel þörf á að okkur framsóknarmönnum takist að efla með okkur einingu og þó jafnframt hreinskilna umræðu. Þöggunin á að heyra sögunni til. Við þurfum að leita þess að sætta fólk en án þess að troða einhvern niður eða væla yfir því að einhver flokksbróðir vogi sér að lýsa andstæðum skoðunum. Þannig hryggir mig að heyra ályktun um að Guðmundur Steingríms eigi að yfirgefa flokkinn og slík ályktun hljómar eins og rifrildi í sandkassa á róluvelli. Ef það eru ekki allir velkomnir þá á flokkurinn ekki erindi við alla kjósendur. Við þurfum sættir í Reykjavík og í framvarðasveitinni. En ekki sættir með þöggun.

Einar Sigurbergur Arason, 2.6.2010 kl. 03:45

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Gestur.

Ég er nýkomin í Framsóknarflokkinn í mínum heimabæ, og hefi kynnst þar afar dugmiklu fólki, í flokki með gott skipulag og verklagsreglur, sem hefð er fyrir í flokki sem starfað hefur um áraraðir.

Ég tek undir það að menn skyldu leysa sín mál innan flokksins, og afar óheppilegt að einhver hefjí deilur og erjur sem slíkar opinberlega, ef ekki gengur eins og menn vildu að gengið gæti.

Í mínum huga er Framsóknarflokkurinn einmitt sá flokkur sem laus er við öfga frá vinstri til hægri eins og þú nefnir og sökum þess sá flokkur sem hefur burði til að byggja upp réttlátt samfélag.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 11.6.2010 kl. 02:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband