Ný uppröðun í stjórnmálunum framundan?

Efnahagshruni hefur í ýmsum löndum fylgt endurröðun í stjórnmálalífinu. Nærtækast er að nefna Ítalíu í því samhengi.

Með talsverðri einföldun má segja að í grunninn skiptist fólk í uþb fjórar fylkingar eftir lífsskoðunum. Sósíalistar og íhald eru á ytri væng stjórnmálanna en svo skiptist miðjufylgið, sem ekki fylgir kennisetningum sósíalismans og kapítalismans, í frjálslynt og stjórnlynt.

Í núverandi flokkakerfi skiptast þessi mengi milli margra flokka. Sjálfstæðisflokkurinn skiptist í íhald og frjálslyndan miðjuhóp. Framsókn í frjálslyndan og stjórnlyndan miðjuhóp og íhald. Samfylkingin er sambland af sósíalistum, frjálslyndum og stjórnlyndum miðjumönnum meðan að VG er blanda af sósíalistum og stjórnlyndum miðjumönnum.

Sérstök átakamál um málefni eða persónur skapa svo aukaflokka sem fylgja með og virðist vera pláss fyrir uþb einn í einu. Í dag er Hreyfingin þessi flokkur. Grænu málin náði VG að taka með sér innan flokks og endurinnleiða á dagskránna, eins og kvennalistinn innleiddi jafnréttismálin svo eftirminnilega og vel.

Af hverju þetta riðlast svona tel ég aðallega vera fólgið í tilviljunum. Afkomendur taka til starfa í stjórnmálaflokki "fjölskyldunnar", þótt lífsskoðanirnar séu aðrar. Einhver vinur eða félagi fer í framboð og nær vinahópnum, þótt sundurlyndur sé í stjórnmálaskoðunum, inn í flokkinn og svo framvegis. Þannig er fullt af fólki í "vitlausum" flokki sem aftur skapar fylkingamyndum og sundurlyndi innan flokkanna, sem dregur úr þeim allan kraft og pólítísk umræða verður ekki uppbyggjandi og skapandi hugmyndavinna, heldur niðurdrepandi átök um fordóma gagnvart öðrum fylkinginum innan flokkanna.

Afleiðing af þessu er að flokkarnir hafa fjarlægst sínar grundvallarstefnur, en sem samkvæmt grundvallarstefnusrkám skiptast í VG sósíalista, Samfylkinguna með stjórnlynda miðjumenn, Framsókn með frjálslynda miðjumenn og Sjálfstæðisflokkinn með hægrimennskuna.

Það hefur haft það í för með sér að flokkarnir hafa síðan um 1990 getað komist upp með að smíða sínar kosningastefnuskrár, ekki útfrá sínum grundvallarstefnumálum og stefnu settri af flokksþingum og landsfundum flokkanna, heldur útfrá taktískri greiningu á þjóðarpúlsi Gallup, þar sem allt snýst um að ná í væntanlega kjósendur. Áherslan á það sem þjóðinni er fyrir bestu hefur oft á tíðum átt í vök að verjast í þeim leik.

Á þann hátt hafa stjórnmálaflokkarnir vanrækt og svikið það hlutverk sitt að vera leiðandi í þjóðfélagsumræðu og mótun þess samfélags sem við lifum í.

Hvort nú sé hafin uppstokkun á þessu ástandi, þar sem lífsskoðunarhóparnir skipi sér rétt í flokka væri óskandi, en einhvernvegin held ég að límið í núverandi flokkum sé sterkara en svo að það gerist svona einn tveir og þrír.

En breytinga er þörf. Svo mikið er víst. Hvort sem það gerist undir núverandi nöfnum stjórnmálaflokkanna eða nýjum. Það má bara fá að koma í ljós.


mbl.is Nýr vinstriflokkur í burðarliðnum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband