Hver verða eftirmál þingsályktunartillögunnar?
22.1.2012 | 11:42
Nú liggur fyrir að Alþingi mun taka afstöðu til þess hvort draga eigi ákæru á hendur Geir H Haarde til baka.
Verði ályktunin samþykkt og ákæran dregin til baka, mun það valda miklum viðbrögðum í samfélaginu, sagt verður að stjórnmálastéttin verndi sjálfa sig og ekki kæmi mér á óvart að mótmæli brytust út í framhaldinu. Staða Geirs og hinna ráðherrana sem til stóð að ákæra yrði algerlega í lausu lofti. Í raun var hann sviptur ærunni með því að ákæra hann, en það er erfitt að sjá að afturköllun ákærunnar muni gefa honum hana aftur.
Verði ályktunin felld, eru Alþingismenn komnir í athyglisverða stöðu, sérstaklega þeir sem skipt hafa um skoðun í málinu. Veltur það á því hvort Geir verður fundinn sekur eða verði sýkn saka.
Verði Geir sýknaður, verða þeir sem vildu ákæra ásakaðir um að hafa ástundað nornaveiðar. Það er reyndar svo stór hópur að það mun líklegast ekki hafa mikil áhrif á einstaka þingmenn. Hin þrjú sem undir voru í upphafi eru þá líklegast laus allra mála.
Verði Geir fundinn sekur eru þeir sem skipta um skoðun í verulega vondum málum sem og þeir sem greiddu atkvæði taktískt í upphafi, þeir Helgi Hjörvar og Skúli Helgason. Um leið verður staða Ingibjargar Sólrúnar, Árna Mathiesen og Björgvins G Sigurðssona afar afkáraleg. Þau hafa ekki getað svarað til saka, ekki varið sig, komið með málsbætur, en verða óhjákvæmilega dæmd um leið, í hugum fólks. Með réttu eða röngu.
Reyndar tel ég líklegast að Landsdómur mun telja Geir hafa sýnt vanrækslu, hann muni fá ákúrur fyrir vanrækslu. Hvort Landsdómur meti að hann hafi sýnt af sér refsivert athæfi veit ég ekki, tel það ólíklegt. Þar með verður dómurinn ekki til þess að setja niður né gera upp stjórnmálalegan hluta hrunsins, heldur enn eitt eldsneytið í umræðubálið og þau hin þrjú í rauninni í sömu eða svipaðri stöðu.
En vonin er kannski að Landsdómur komi með vel rökstuddan dóm, sem getur leiðbeint samfélaginu við að gera upp hina stjórnmálalegu hlið hrunsins, vel stutt rannsóknarskýrslu Alþingis.
Frávísun felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú virðist ekki gera þér grein fyrir því Gestur að ef Landsdómur dæmir Geir sekan um eitthvað, þá mun það að öllum líkindum enda hjá MannréttindadómstólEvrópu.Hæpið er að Mannréttindadómstóllinn taki ekki málið fyrir þar sem um forsætisráðherra þjóðar er að ræða.Það væri vægast sagt mikil skömm fyrir Alþingi íslendinga sem hafa stært sig af elsta þingi heimsins ef Evrópudómstóllinn dæmdi alla málsmeðferðina pólitískan skrípaleik sem hún er.Reyndar tel ég að landsdómur sjái í gegnum skrípaleikinn og sýkni Geir.Landsdómur mun varla þora að taka þá áhættu að Mannréttindadómstóllinn reki málið ofan í þá.En burtséð frá öllu þá mun það ekki vekja minni hneykslun erlendis að ráðherrarnir sem nú eru í forsvari fyrir ESB-ríkisstjórn íslands voru ráðherrar Geirs.Þetta veit Össur Skarphéðinsson.
Sigurgeir Jónsson, 22.1.2012 kl. 21:26
Það er líka ljóst að það er alveg sama hvernig málið fer að það getur aldrei orðið annað en vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins.Því það blasir við öllum að verið er að láta Geir einan taka á sig allar syndir og afglöp þeirra sem á einhvern hátt stigu með í hrunsdansinum og fyrir hann.Og Kannski mættir þú líta aðeins í eigin barm Gestur.Og eru ekki allir sammála um það,þó einkum erlendis að Geir stóð að því að bjarga því sem bjargað varð þegar hrunið skall yfir.
Sigurgeir Jónsson, 22.1.2012 kl. 21:36
Og eftir að hafa lesið Rannsóknarskýrslu Alþingis.þá fæ ég þá tilfinningu að hún sé skrifuð af fólki sem telur sig vera að gera byltingu.Hún er meira og minna pólitiskt rit.Stundum bull.
Sigurgeir Jónsson, 22.1.2012 kl. 21:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.