Fylgi Bjartrar framtíðar
1.5.2013 | 10:49
Það er áhugavert að skoða hvaðan fylgi hinna einstöku flokka er að koma og af hverju. Eðlilega er meirihluti kjósenda ekki mikið að færa sig á milli flokka, enda hlýtur einhver einn flokkur að standa best eða oftast fyrir þær lífsskoðanir sem kjósandinn hefur.
Í einhverjum tilfellum kjósa menn samt aðra flokka en lífsskoðanaflokk sinn. Þá m.a. vegna persóna í öðrum flokkum sem þeir heillast af eða að einhver í eigin flokki hugnast ekki viðkomandi. Einnig getur slíkt framhjáhald verið refsing vegna frammistöðu flokksins.
Þegar fylgi Bjartrar framtíðar, míns flokks, er skoðað, sést að umtalsverður hluti þess kemur frá Samfylkingunni. Það hefur verið túlkað sem svo að Björt framtíð sá krataflokkur, sem hann er ekki. Björt framtíð er frjálslyndur flokkur, sem okkur hefur þótt vanta í íslensk stjórnmál. Sést þetta kannski best á því að íhaldið, kratar og framsókn hafa fyrir kosningar klætt sig í frjálslynd föt til að ná í þessa landlausu kjósendur, verandi nokkur vissir um sitt grunnfylgi.
Evrópuáherslur Samfylkingarinnar hafa líklegast valdið því að margir þessara kjósenda hafa endað með að kjósa þann flokk í fyrri kosningum, enda alþjóðasamvinna órjúfanlegur hluti frjálslyndis. Einnig eru frelsi og svigrúm grundvallarhugtök frjálslyndis, svo ætla mætti að margt frjálslynt fólk sé einnig í Sjálfstæðisflokknum, sem var stofnaður við sameiningu íhaldsflokksins og frjálslynda flokksins á sínum tíma. Einnig er margt frjálslynt fólk í Framsókn, sem hefur snúist í grundvallaratriðum frá frjálslyndi frá 2009, en sá flokkur missti talsvert af því fylgi yfir til Samfylkingar í síðustu kosningum, svo minna fór beint á Bjarta framtíð af Framsókn en annars hefði verið, sem og að fylgisaukning Framsóknar letur fólk eðlilega við að skipta um flokk.
En frjálslynda fylgið hefur sem sagt verið víða og er enn, svo vaxtarmöguleikar Bjartrar framtíðar eru umtalsverðir, en aðalatriðið fyrir Bjarta framtíð er að halda áfram að vera sönn í frjálslyndinu, alveg eins og hinir flokkarnir eiga að einbeita sér að því að vera góðir jafnaðarmannaflokkar, íhaldsflokkar og sólsíalistaflokkar
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.5.2013 kl. 09:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.