Vilja Vinstri Græn og Íslandsflokkurinn Vatnajökul burt?
26.3.2007 | 10:13
Ég heyrði um daginn þá ágætu greiningu að Íslendingar séu ekki umhverfisverndarsinnar, heldur náttúruverndarsinnar. Ég held að það sé mikið til í þessu, amk hvað talsverðan hluta umræðunnar varðar og þetta skýri af hverju allir virðast vera sammála en þó ekki.
Hinir sjálfkölluðu umhverfisverndarflokkar, Vinstri Græn og Íslandshreyfingin byggja málflutning sinn að mestu leiti á því að það eigi ekki að hreyfa við neinu af því sem við eigum sjálf, við eigum ekki að fórna neinu af okkar fyrir mannkynið og jörðina, vegna þess að hver þúfa og barð sé svo einstakt að því megi ekki breyta á nokkurn hátt. Sú umræða er ekki umhverfisverndarumræða, heldur náttúruverndarumræða og glittir víða í sjálfhverfa þjóðrembu í tali þeirra, sbr nafngift nýjustu hreyfingarinnar og ummælum formanns hennar um pulsusjoppuhangandi Pólverja, sem er fyrir neðan allar hellur. Um sjálfhverfu og rembu Steingríms Joð þarf ekki að hafa mörg orð.
Það sem er samt skondnast er að þessir sömu flokkar eru þeir sem básúnast hvað mest yfir því sem gæti gerst ef farið yrði að tillögum þeirra og losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu myndi þar með halda áfram að aukast. Því ekki geta þeir farið fram á að aðrir taki til í sínum ranni ef við gerum það ekki!
Frjálslyndir hafa engan áhuga á umhverfismálum, en hinir flokkarnir, Framsókn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn útiloka ekki að við öxlum okkar byrðar og virðast allir hugsa þetta nokkuð svipað. Samfylkingin vill reyndar að allt verði stoppað strax þar til búið er að kanna allt til hlítar, sem er falleg hugsun, en gengur ekki upp og verður stjórnlaus, því það verða alltaf, alltaf einhver vafaatriði sem þarf að útkljá og það verða alltaf einhverjir sem vilja stöðvar framþróunina með málþófi og útúrsnúningi. Framsókn leggur áherslu á varúð, virðingu og ábyrgð, en Sjálfstæðisflokkurinn, sem er að koma inn í þessa umræðu á síðustu misserum mun móta sína stefnu á væntanlegu landsþingi. Frumvarp Jóns Sigurðssonar um nýtingu náttúruauðlindanna var stórmerkilegt framlag og virkilegt tjón að það skuli ekki hafa hlotið brautargengi. Þar ber stjórnarandstaðan mikla ábyrgð og í rauninni var stjórnarandstaðan með framgöngu sinni að auka enn losun gróðurhúsaloftegunda á heimsvísu, hækka hitastig jarðar og stuðla að því að Vatnajökull bráðni! Skrítin stefna, en líklega staðfesting á greiningunni um dalverpishugsun þessara flokka - þetta er gott, bara ekki í mínum dal..
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.