Ástir samlyndra vinstri og grænna hjóna?

Þótt ég sé persónulega ekki hlynntur stækkun álversins í Straumsvík, tel að við eigum að nýta losunarheimildirnar fyrir norðan, þá finnst mér þessi grein Andrésar Inga Vigfússonar sem birtist í mogganum í gær afar áhugaverð og styrkir mann í þeirri skoðun að þegar það er næg atvinna geta Vinstri og Grænir hangið saman, en þegar harðnar á dalnum muni leiðir skilja.

"Flokkar hinna vinnandi stétta skammist sín!

Í GEGNUM tíðina hafa flokkar á vinstri væng stjórnmálanna státað af því, að hafa barist fyrir hagsmunum vinnandi fólks í landinu. Lengi vel var innistæða fyrir yfirlýsingum af þessu tagi en nú eru blikur á lofti.

Verkafólk og iðnaðarmenn sinna margvíslegum störfum og misvel er búið að starfsfólki sem hefur ekki valið sér að ganga menntaveginn til að fá fín störf í banka eða opinberri stofnun. Það er á engan hallað þótt fullyrt sé, að verkalýðshreyfingin hafi á undanförnum áratugum hvergi náð betri árangri fyrir sitt fólk en í álverinu í Straumsvík. Kjarasamningar á þeim bænum hafa verið fyrirmynd annarra, réttindi þar eru meiri en annars staðar, launin eru góð og launamunur milli kynjanna er enginn. Um þetta efast í raun ekki nokkur maður og því mætti ætla að störfin í álverinu væru einmitt þau sem stjórnmálaflokkar hinna vinnandi stétta ættu að slá skjaldborg um og verja með ráðum og dáð.

En það er öðru nær! Sá flokkur sem skilgreinir sig lengst til vinstri og leggur ríkari áherslu en aðrir á félagshyggju, jafnrétti kynjanna og réttindi vinnandi fólks, leggur stóriðjuna nánast í einelti og vill helst hafa störfin af okkur sem vinnum í álverinu. Í staðinn er boðið upp á „eitthvað annað" sem að mínu viti eru slæm býtti. Hinn flokkurinn á vinstri vængnum er lítið skárri þótt andstaðan við okkar góðu störf sé ekki eins afdráttarlaus og hjá þeim sem fyrr voru nefndir. Flokkurinn virðist hafa gleymt uppruna sínum enda er svo komið að vinnandi fólk á varla samleið með honum, líkt og endurteknar mælingar gefa ótvírætt til kynna.

Það eru mikil vonbrigði að vinstri flokkarnir skuli vinna gegn hagsmunum þeirra sem treyst hafa flokkunum til góðra verka. Ég vona þeirra vegna að þeir sjái að sér, svo verkafólk og aðrir gamlir stuðningsmenn þurfi ekki að brjóta odd af oflæti sínu og leita yfir á hægri vænginn með atkvæði sitt í komandi alþingiskosningum."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband