Treystir Björn ekki björgunarsveitunum?
30.3.2007 | 16:58
Ég hef oft verið hrifinn af Birni Bjarnasyni, þótt sumum finnist að það megi ekki, en í hans síðasta máli er ég það ekki.
Í ljósi reynslu minnar af innleiðingu og framkvæmd hafnar- og siglingaverndar er ég sannfærður um að það er raunveruleg þörf á að sameina þær greiningardeildir, sem eru starfandi í landinu, undir einn hatt, svo hægt sé að nýta fjármuni sem best, auka fagmennsku og ekki síður til að hægt sé að hafa raunverulegt eftirlit með þeirri starfsemi, svo flugmálastjórn sé ekki með eina deild, tollurinn með aðra, ríkislögreglustjóri með þá þriðju, siglingastofnum þá fjórðu, utanríkisráðuneytið þá fimmtu og svo mætti örugglega lengi telja. Efling Landhelgisgæslunnar til björgunar og eftirlitsstarfa er einnig rós í hans hnappagat í mínum augum.
Vandinn er hins vegar sá að Björn hefur komið því orði á sig að hann vilji stofna íslenskan her, viljandi eða óviljandi. Slíkt er í djúpri andstöðu við íslenska þjóðarsál og því er öllum hugmyndum hans tekið með varúð og rýnd með þeim gleraugum. Ég ætla líka að taka hugmyndum hans um varalið lögreglunnar með mikilli varúð og tel þær algerlega óþarfar. Í lögum um almannavarnir segir
"Það er borgaraleg skylda þeirra, sem eru á aldrinum 1865 ára, að gegna, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi, þar sem þeir dveljast, samkvæmt fyrirmælum, er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar."
"Ef hætta vofir yfir eða tjón hefur orðið, má kveðja hvern fulltíða mann, sem tiltækur er, til tafarlausrar aðstoðar við störf í þágu almannavarna.
Á hættutíma hefur ríkislögreglustjóri ákvörðunarvald um flutning hjálparliðs á milli umdæma til aðstoðar á hættusvæði, að höfðu samráði við viðkomandi lögreglustjóra og almannavarnaráð."
"Þeir, sem starfa eiga í hjálparliðum, skulu taka þátt í námskeiðum og æfingum, sem þeir hafa verið kvaddir til. Þeim ber að hlýða fyrirmælum og fara eftir starfsreglum. Óheimilt er að hverfa úr starfi án leyfis.
Ef hætta vofir yfir, má starfsmaður ekki fara úr lögsagnarumdæminu án samþykkis lögreglustjóra eða þess, er hann tilnefnir."
Miðað við þau verkefni sem Björn segir að þetta varalið eigi að hafa er því ekkert sem þörf er á að bæta og hingað til hafa björgunarsveitirnar gegnt þessu hlutverki fyrir hönd almennings, endurgjaldslaust, af stakri prýði og heiðarleika. Var stjórnandi olíuhreinsunaraðgerða um borð í Wilson Muuga og kynntist ég af eigin raun hversu öflugt er að hafa sveitirnar og hve dýrmætar þær eru okkur. Ég fæ ekki séð annað en að þessar sveitir verði einungis til að auka flækjustigið og fjöldinn er svo lítill miðað við allan fjöldan í björgunarsveitunum að muni litlu um þær en kostnaðurinn verði mikill. Frekar ætti að setja þessa fjármuni sem styrk til björgunarsveitanna til að bæta þjálfun þeirra enn frekar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég fór og skoðaði þetta mál um daginn og er ekki um að ræða að björgunarsveitunum sé ekki treystandi, þær eru mjög mikilvægar. Málið er að þær eru að sinna ýmsum öðrum störfum líka og er um að ræða að virkja fleiri en bara björgunarsveitir til starfa. Ég skoðaði þetta og bloggaði 31.3 um málið.
Verið er að tala um verndun mikilvægra mannvirkja eða staða, landamæragæslu, verkefnum vegna öryggisgæslu, mannfjöldastjórnun, almennum löggæsluverkefnum, umferðarstjórn og sérstökum verkefnum.
Nú hvaða fólk á síðan að skipa þetta varalið lögreglu og almannavarna? Samkvæmt tillögunni yrði kallað til starfa fólk úr röðum björgunarsveita, slökkviliðs, sjúkraflutninga, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögreglumanna eftir sérstaka þjálfun á vegum ríkislögreglustjóra.
Herdís Sigurjónsdóttir, 2.4.2007 kl. 14:58
Með því að taka 240 af björgunarsveitarmönnum úr þeim hlutverkum sem þeim er ætlað í þeirra bráðnauðsynlega skipulagi, er hætt við að verið sé að taka innan úr þeim. Líklegast færu bestu einstaklingarnir í þessa sveit, þeir einstaklingar sem eru komnir í stjórnunarstöður innan sveitanna og skilja þar með eftir skarð, sem þyrfti svo að brúa ef bæði þyrfti að kalla út varaliðið og björgunarsveitirnar.
Hef starfað í einum þeirra undirhópa sem er að undirbúa viðbragðsáætlun fyrir inflúensufaraldur, sbr spönsku veikina, og sumir vilja kalla fuglaflensufaraldur. Við þá vinnu hefur mér orðið ljóst að það þarf miklu meira en einhverja 240 manns til að sinna svona störfum, og eðlilegt að horft verði frekar til þeirra stétta sem "losna" ef almannavarnaástand skapst og hafa þjálfun í að halda uppi aga, en hinir sem hafa hlutverk haldi þeim áfram. Horfi ég þá sérstaklega til kennara og eins væri hægt að virkja háskólanema.
Eins og ég skrifaði ganga almannavarnalögin út frá þegnskyldukvaðningu, sem er lang ódýrata fyrirkomulagið og virkasta, því þá er hægt að velja þá sem kallaðir eru inn m.v. þá vá sem fyrir dyrum er. Þess vegna er betra að hafa þetta einfaldara og gera þeim mun betri viðbragðsáætlanir.
Gestur Guðjónsson, 2.4.2007 kl. 15:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.