Á ekki að segja satt?

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, gerði Hafnfirðingum og öðrum Íslendingum grein fyrir þeirri staðreynd að þegar kosið væri að nýju í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, væri sú bæjarstjórn ekki bundin af niðurstöðum íbúakosninganna. Þetta er rétt og óumdeilt, en aðrir stjórnmálamenn, nú síðast Árni Þór Sigfússon, krossa sig og gera tilraunir til að skjóta sendiboðann. Ný tillaga Alcan væri ný tillaga sem taka þarf sjálfstæða afstöðu til.

Þeir þora greinilega ekki að segja þann sannleika sem er óþægilegur. Það gerði Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnfirðinga heldur ekki og reyndar enginn í baráttunni. Þegar svo er bent á þetta og möguleika álversins til að auka umsvif sín innan núverandi starfssvæðis er eðlilegt að hinn almenni kjósandi í Hafnarfirði finnist hann hafi verið hlunnfarinn. Jón sýnir þarna karakterstyrk, sem aðrir stjórnmálamenn ættu að líta til, því auðvitað er ekkert þægilegt að vera sá sem bendir á þessar staðreyndir.

Þetta sýnir hve margslungið og vandmeðfarið íbúalýðræðið er og nauðsynlegt að vanda allan undirbúning slíkra kosninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Einhverjir hafa bent á að nýjar íbúakosningar þurfi til, ef breyta á um stefnu í þessu máli.  Hvað Jón Sigurðsson varðar virtist hann urrandi fúll útaf úrslitum íbúakosningunni. Eiga menn eitthvað erfitt með að sætta sig við lýðræðislegar niðurstöður. Það er svo sem ekkert nýtt að menn tapi sér vegna kosningaúrslita. Davíð átti t.d. fræga rispu þegar kjósendur í Reykjavík greiddu R-listanum fleiri atkvæði en D-listanum. Sagði að kjósendur hefðu kosið með óbragð í munni og kenndi svo fréttastofum Rúv um að hafa verið hlutdrægar. Eithvað svipað virðist í gangi núna þó Jón og Geir  gangi ekki jafnlangt og Davíð í fýlu sinni útí lýðræðið. Það er hinsvegar umhugsunarvert hvað mikla ókurteisi þessir stjórnmálamenn sýna kjósendum með þessum viðbrögðum sínum!

Auðun Gíslason, 3.4.2007 kl. 13:02

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Er þetta ókurteisi? Lúðvík Geirsson bendir réttilega á að "Sveitarstjórn getur efnt til almennrar atkvæðagreiðslu í sveitarfélagi eða hluta þess til þess að kanna vilja kosningarbærra íbúa um tiltekið málefni. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er ekki bindandi um afgreiðslu málsins fyrir sveitarstjórn nema hún hafi fyrir fram ákveðið að svo skuli vera."

Málið er að atkvæðagreiðslan snéri að afgreiðslu á ákveðinni deiliskipulagstillögu, sem snýr að notkun lands sem Alcan á sunnan Reykjanesbrautar. Hún snéri ekki að því hvort álverið mætti auka framleiðslugetu sína. Hún snýr heldur ekki að því að Alcan geti ekki komið með aðra tillögu seinna sem sveitarfélagið þarf að afgreiða. Sú tillaga þyrfti að vera það breytt að um raunverulega nýja tillögu væri að ræða, en hún getur hæglega innifalið álver. Tel alveg ljóst að ef deiliskipulagstillagan yrði borin upp aftur, í lítt breyttri mynd, þyrfti aðra íbúakosningu.

Þetta er það sem ég les úr orðum Jóns, að hann sé að benda þeim sem vilja þeim sem vilja ekki stækkun álversins og þeim sem vilja álverið og alla stóriðju burt úr landinu að með niðurstöðum kosninganna sé á engan hátt verið að loka fyrir um frekari þróun álversins við Straumsvík.

Það er kurteisi að gera fólki það ljóst og ókurteisi af hálfu þeirra sem stofnuðu til þessara kosninga skuli ekki hafa bent kjósendum á það.

Gestur Guðjónsson, 3.4.2007 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband