Græn skref í Reykjavík

Við í meirihluta umhverfisráðs kynntum aðgerðaráætlun okkar fyrir umhverfismál í borginni á kjörtímabilinu í dag. Um er að ræða góð skref sem munu gera borgarbúum auðveldara að haga lífi sínu á umhverfisvænni hátt. Byggjast þau á góðri hugmyndavinnu meirihlutans, undirbúningsvinnu "Reykjavík í mótun" og frábæru starfi embættismanna borgarinnar.

MIKLU BETRI STRÆTÓ

Allar biðstöðvar strætisvagna fá eigið nafn sem birtist meðal annars á ljósaskilti um borð í vögnum. Allar lykilbiðstöðvar munu birta rauntímaupplýsingar og greiðslumáti í strætó verður auðveldaður. Strætó fær oftar forgang í umferðinni á völdum stofnbrautum. Reykvískir námsmenn fá ókeypis í strætó á haustmisseri 2007. 

VERÐLAUNUM VISTHÆFA BÍLA

Ökumenn fá að leggja visthæfum bifreiðum ókeypis í bílastæði borgarinnar. Borgarbúar eru með þeim hætti hvattir til að aka um á visthæfum bílum sem draga úr mengun, skapa minni hávaða og gera umhverfi okkar betra. Visthæfir bílar eru skilgreindir eftir eldsneytiseyðslu og eldsneytisgerð. 

GÖNGUM LENGRA, HJÓLUM MEIRA

Göngu- og hjólreiðastígurinn frá Ægisíðu upp í Elliðaárdal verður breikkaður, upphitaður og vatnshönum þar fjölgað. Göngu- og hjólreiðastígum verður sinnt eins og götum borgarinnar allan ársins hring. Gönguleiðir skólabarna verða merktar og kynntar sérstaklega. Göngustígar sem tengja búsetusvæði eldri borgara og nálæg útivistarsvæði verða upphitaðir og bekkjum og handriðum verður komið fyrir. Merkingar göngu- og hjólreiðastíga munu taka mið af göngu og hjólreiðum sem samgöngumáta. 

LIFANDI OG SKEMMTILEG BORG

Pósthússtræti meðfram Austurvelli verður gert að göngugötu í miðbæ Reykjavíkur á góðviðrisdögum. Miklatún verður endurskipulagt í samráði við íbúa og kaffihúsi komið á laggirnar í Hljómskálagarðinum. Átaki í að koma upp umhverfis- og söguskiltum í borginni verður hrint af stað. Útivistarsvæði á Gufunesi verður klárað. Skilyrði til fuglalífs og fuglaskoðunar í Vatnsmýrinni og á Tjörninni verða bætt.

BETRA LOFT FYRIR ALLA 

Spornað verður við notkun nagladekkja í samráði við ríki og önnur sveitarfélög. Aðgengi borgarbúa að upplýsingum um umhverfisgæði verður aukið. Mótuð verður loftslagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg til tíu ára til að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum. 500.000 tré verða gróðursett í landi Reykjavíkur til aukinnar skjólmyndunar, meiri skógræktar og bindingar koltvísýrings. Virkt eftirlit verður með innilofti í byggingum Reykjavíkurborgar.

MEIRI ENDURVINNSLA

Þjónusta við sorphirðu verður bætt til að auka endurvinnslu. Boðið verður upp á bláar tunnur fyrir dagblöð frá heimilum og þjónusta á grenndarstöðvum verður aukin. Sorphirðugjöld munu taka aukið mið af raunkostnaði af þjónustu og mengun. Bláa tunnan verður að minnsta kosti helmingi ódýrari en svört tunna. Tunnugjald mun taka mið af fyrirhöfn við sorphirðu við að sækja tunnur við heimili fólks.  

BYGGJUM VISTVÆN HVERFI

Nýtt aðalskipulag Reykjavíkur verður unnið frá grunni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þétting byggðar, blanda íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, virðing fyrir hjólandi og gangandi umferð, endurvinnsla og græn svæði verða lykilhugtök í nýjum hverfum Reykjavíkurborgar.  

VISTHÆFARI LEIK- OG GRUNNSKÓLAR 

Lóðir grunn- og leikskóla verða endurbættar. Skólar munu markvisst bjóða upp á lífrænt ræktuð matvæli og birta næringargildi fæðunnar á heimasíðu. Öll hverfi fá eigið náttúrusvæði til útikennslu og umhverfisfræðslu. Allir leikskólar í Reykjavík munu nota vistvæn efni við þrif.   

HÖLDUM BORGINNI HREINNI

Hreinsunar- og fegrunarátak borgarinnar „Tökum upp hanskann fyrir Reykjavík“ heldur áfram og öll hverfi borgarinnar fá andlitslyftingu. 

REYKJAVÍKURBORG TIL FYRIRMYNDAR

Nýjar innkaupareglur borgarinnar innleiða vistvæn innkaup sem meginreglu. Meirihluti bílaflota Reykjavíkurborgar verður visthæfur. Reykjavíkurborg skuldbindur sig til að draga úr útblæstri koltvísýrings í rekstri sínum. Í útboðum á hönnun nýrra mannvirkja borgarinnar verða sett inn umhverfisskilyrði, til að mynda við val á byggingarefni og orkunotkun. Ný mannvirki í borginni taka mið af hjólreiðum sem samgöngutæki


mbl.is Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband