Jafnvægi og framfarir - ábyrg efnahagsstefna - mikil vonbrigði
12.4.2007 | 00:58
Ég vistaði nýjasta riti Jóns Sigurðssonar, fv. Ráðherra, með mikilli eftirvæntingu á tölvuna mína áðan og las með áfergju.
Ég varð því miður fyrir miklum vonbrigðum með þetta rit, sem Jón stendur einn nafngreindur að. Vonaðist eftir því að þarna færi vel grunduð röksemdafærsla fyrir því hvernig Samfylkingin ætlaði að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar, kæmist hún til valda. Þannig fannst mér titill hennar vera og þannig var hún kynnt í fjölmiðlum.
Það sem vísar fram á við er að á komandi árum geti allt farið í kalda kol ef ekki verði dregið úr ríkisútgjöldum, þ.e.a.s. velferðinni. Þeirra eina svar er að gefast upp og ganga í Evrópusambandið og vona það besta. Að öðru leiti var þetta svartmálning á ástandinu, samanburður á breytum milli hagkerfa sem eru í sitt hvorum takti, órökstuddar fullyrðingar víða, margendurtekinn samanburður á appelsínum og eplum, en annars endurtekning á stefnumálum Samfylkingarinnar, sem reyndar hafa ekki verið samþykkt af landsfundi hreyfingarinnar. Að ógleymdum tillögum um að leggja landbúnaðinn í rúst.
Mig býður í grun að þetta rit sé sett fram til þess í fyrsta lagi að reyna að mála efnahagsástandið eins svörtum litum og hægt er, sem veldur reyndar miklu efnahagstjóni í sjálfu sér, en ekki síður að búa fyrirfram til afsökun fyrir því að Samfylkingin nái ekki tökum á efnahagsstjórninni, komist hún til valda.
Nokkur atriði stinga sérstaklega:
Í ritinu er margendurtekið að aðhald ríkisfjármála hafi ekki verið nægt. Þau hafi aukist mjög á undanförnum árum. Mikill meirihluti útgjalda ríkissjóðs eru laun. Ríkisstjórnin gerði stórátak í því að hækka laun umönnunarstétta og kennara. Er það sem sagt skoðun Samfylkingarinnar að það hefði ekki átt að gera? Hefði átt að skera niður í heilbrigðisgeiranum eða almannatryggingum, sem tekur stærstan hluta útgjalda ríksins. Hefði átt að spara í menntamálum? Engar slíkar tillögur hafa komið fram af hálfu Samfylkingairnnar og hefur málflutningur þeirra nánast undantekningarlaust verið í átt til útgjaldaaukningar. Þetta er ekki traustvekjandi og krefst skýringa.
Fullyrt er að hreinar skuldir þjóðarbúsins hafi snaraukist. Ég fann engar tilvísanir og engar tölur þessari fullyrðingu til stuðnings. Hvernig metur Jón eignir Íslendinga í útlöndum?
Svo er leitt líkum að því að upptaka Evru sé það eina sem hægt sé að gera til að ná stjórn á efnahagsvandanum. Sú röksemdafærsla gengur ekki þar sem við verðum að vera búin að ná stjórn á honum ÁÐUR en innganga í EU kemur til greina. Bent er á að stýrivaxtatólið sé veikt, en ekki er bent á neitt betra. Bindiskylda bankanna, hitt tól Seðlabankans, er ekki rædd í skýrslunni eins og hún sé ekki til. Þannig að Samfylkingin vill líklegast, eins og Davíð Oddsson taka upp atvinnuleysi sem hagstjórnartæki, líkt og m.a. draumalöndin á Norðurlöndunum gera.
Hátt gengi krónunnar er ekki orsök hagstjórnarvanda heldur afleiðing þess ástands sem hér hefur ríkt undanfarin misseri. Gríðarlegar fjárfestingar síðustu ára og innkoma viðskiptabankanna á íbúðalánamarkað hafa leitt af sér mikið álag á hagkerfið sem Seðlabankinn hefur aftur reynt að milda með hækkun stýrivaxta. Þær hækkanir hafa ekki haft tilætluð áhrif, ekki síst vegna þess að fjárfestingar innanlands eru í auknum mæli fjármagnaðar með erlendu lánsfé og falla því utan áhrifasvæðis Seðlabankans. Rétt er að halda því til haga að bankarnir sögðust alls ekki ætla inn á íbúðalánamarkaðinn í aðdraganda breytinganna. Aðgengi íslensks almennings að lánsfjármagni er nú eðlileg miðað við nágrannaþjóðirnar og munu þensluhvetjandi áhrif af þeirri aðlögun fara að deyja út.
Staða ríkisfjármála er máluð svört, þótt nú sé ríkissjóður nánast skuldlaus. Halli á fjárlögum 2008 er sérstaklega nefndur, þrátt fyrir að öllum sé kunnugt um að það hafi verið fyrirfram ákveðið fyrir löngu og skipulagt til að tryggja mjúka lendingu efnahagslífsins við lok stórframkvæmdanna fyrir austan. Fara á í þau verkefni sem frestað var vegna þeirra. Verkefni sem ég trúi ekki að Samfylkingin sé mótfallin.
Eftir það er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi, sem þó er í rauninni óþarfur, þar sem búið er að greiða niður skuldir ríkisins.
Samstilling efnahagsaðgerða er gagnrýnd og þá sérstaklega að tímabundin lækkun lánshlutfalls íbúðalána frá íbúðalánasjóði hefði verið felld niður. Það hefði verið gaman að sjá hvaða gagnrýni hefði komið, hefðu lánshlutfallið ekki verið hækkað á ný.
Í kafla 2.2 stendur "Þegar litið er yfir framvinduna á síðustu 10-15 árum sést að hið opinbera hefur tekið til sín hærra hlutfall af vaxandi landsframleiðslu án þess að samfélagslegum verkefnum sé nú betur sinnt en áður" - á hverju byggist þessi fullyrðing? Hvernig er hægt að fullyrða að samfélagslegum verkefnum sé ekki betur sinnt. Það er greinilegt að Jón hefur ekki búið á Íslandi undanfarin ár.
Allt í allt var þessi lesning vonbrigði og gefur ekki fyrirheit um að Samfylkingin hafi upp á mikið að bjóða í stjórn efnahagsmálanna, þrátt fyrir flott kynningarstarf í kringum ritið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Samfylkingin hefur EKKERT upp á að bjóða. Enda hrynur fylgið af henni, og ef satt
reynist í Blaðinu í dag að Jón Baldvin muni fara fram með Ómari í Íslandshreyfingunni
yrði það rothögg á Samfylkinguna örfáum vikum fyrir kosningar.
Guðmundur Jónas Kristjánsson, 12.4.2007 kl. 09:46
Þetta rit er um stöðu efnahagsmála og er grunnurinn af efnahagsstefnunni sem verður kynnt á landsþinginu um helginar -- þannig að vonbrigðum þínum verða mætt þá :)
Jónas Tryggvi Jóhannsson, 12.4.2007 kl. 13:06
Þetta er bara greining á ástandinu eins og það er og hvernig efnahagsmálum hefur verið stjórnað. Einnig hver séu helstu viðfangsefnin framundan. Svona greining er svo nýtt í stefnumörkun.
Svona eiga flokkar að vinna.
Eggert Hjelm Herbertsson, 12.4.2007 kl. 13:24
Var að skoða drög að ályktunum Samfylkingarinnar um efnahagsmál. Þar er ekkert fjallað um það aðhald í ríkisrekstrinum sem ritið kallar eftir. Þannig að ekki er Samfylkingin að fara eftir eigin greiningu á ástandinu.
Liðir 1 til 5 eru samhljóða. Bæta hagstjórnina. Ekkert sagt hvernig. Bara að það eigi að gerast og í samráði við 6-8 eru teknir frá ályktunum Framsóknar. Liðir 9 og 10 fjalla ekki um efnahagsmál, heldur neytendamál sem Framsókn gerir hærra undir höfði en svona. Liðir 11-13 eru samhljóða Framsókn, en eru samt þensluhvetjandi. Ég veit ekki hvernig hægt er að réttlæta lið 14, að allar lífeyrissjóðsgreiðslur beri fjármagnstekjuskatt sem rennur í dag til ríkisins eingöngu. Liður 15 gengur of skammt og gerir samkeppni á bankamarkaði ekki eins mikla og ef farið er að tillögum Framsóknar. Liður 16. Þarna eru krötunum vel lýst, rústa íslenskum landbúnaði á grundvelli rangfærslna í skýrslu Jóns, þar sem hann telur bara til framleiðslutengda styrki í viðmiðunarlöndum en ekki aðra styrki til landbúnaðinum þar.
Liður 17 er ótrúlega vitlaus. Á sem sagt að heimila fyrirtækjum að ákveða í hvað skattarnir okkar fara, með því að veita þeim þennan afslátt? Þau hafa ekki mitt umboð til þess, það er Alþingis að ákveða hvernig farið er með skattfé. Skattaafsláttur er ekkert annað en úthlutun á skattfé.
18 til 20 eru afritun frá ályktunum Framsóknar, en Samfylkingin má skammast sín fyrir að hafa staðið í vegi fyrir að atriði 20 hefði komist til framkvæmda í vor.
Sem sagt: Samfylkingin ætlar að bæta hagstjórnina. Einhvernvegin.
Gestur Guðjónsson, 12.4.2007 kl. 14:49
Framsókn hefur verið að setja í sína kosningastefnuskrá mál sem Samfylkingin hefur verið að tala um síðustu vikur og mánuði, ég get sýnt þér bæklinga frá Samfylkingunni með mörgum atriðum sem Framsókn er nú að setja í stefnuskrá. COPY/PASTE
Eggert Hjelm Herbertsson, 12.4.2007 kl. 15:25
Að sjálfsögðu er einhver samhljómur með flokkunum og get ég sýnt þér á móti helling af ályktunum frá okkur sem seinna komu í Samfylkingarályktanir. Sérstaklega frá þingi okkar árið 2001 og 2003
Gestur Guðjónsson, 12.4.2007 kl. 17:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.