Hvað er eftir af Jónínumálinu?
2.5.2007 | 18:16
Í yfirliti sem Alþingi hefur gefið út um veitingar ríkisborgararéttar á síðasta löggjafarþingi, kemur fram að 31 fengu jákvæða afgreiðslu. Af þeim eru 5 eða 16% sem hafa skert ferðafrelsi sem ástæðu og af þeim 5 hafa 2 búið skemur en 2 ár á landinu, þannig að mál stúlkunnar er síður en svo einsdæmi. Allir utan einn hafa persónuleg tengsl við landið og einungis einn er akkur fyrir íslenskt samfélag, sem ég les sem afreksíþróttamann. 9 eru börn, en 22 eru fullorðnir, þannig að fullyrðingar Kolbrúnar Halldórsdóttur og Ögmundar Jónassonar standast engan vegin og lýsa því að Kolbrún, sem er áheyrnarfulltrúi hafi lítið verið að hlusta.
Þetta yfirlit sýnir svo ekki verður um villst að fullyrðingar þeirra þriggja sem unnu málið á Alþingi standast. Ekkert hefur komið fram sem styður dylgjur um að Jónína hafi beitt sér óeðlilega í málinu. Auðvitað leiðbeindi hún stúlkunni. Minna væri nú.
Í framhaldinu verður í rólegheitunum að fara yfir afgreiðslur allra umsækjenda og endurskoða ferlið, sem full ástæða er til að gera, svo það verði ávallt hafið yfir vafa.
Það eftir stendur af málinu eru órökstuddar meiningar Helga Seljan, illa unnið mál af hans hendi, órökstudd gífuryrði fjölda manns og Alþingismennirnir Sigurjón Þórðarson og Össur Skarphéðinsson sem hafa sagt Guðrúnu Ögmundsdóttur, Guðjón Ólaf Jónsson og Bjarna Benediktsson ljúga og efast um heiðarleika Jónínu Bjartmarz, sem greinilega var ætlunin að koma höggi á í upphafi, af hvötum sem hver og einn getur sjálfur ályktað um. Að minnsta kosti segir tímasetning þessarar "uppgötvunar" sitt.
Umsóknir um ríkisborgararétt afgreiddar ágreiningslaust innan allsherjarnefndar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er feykinóg eftir af málinu, Gestur minn, alla vega hvað mig varðar. Ég myndi til að mynda vilja fá nánari útskýringu á því hvað er átt við með 'skertu ferðafrelsi'. Vissulega tilgreindi guatemalíska stúlkan það sem ástæðu, þar eð hún sá fram á vandræði við að ferðast til eða frá landinu í fyrirhuguðu námi sínu erlendis, en hjá mér kemur strax upp í hugann að í hinum tilfellunum gæti það hæglega þýtt ýmislegt fleira, og hugsanlega þá veigameira. Hið sama gildir um 'fjölskyldu- og persónulegar ástæður'. Þar sem ég sé hvergi dálk þar sem tilgreind eru fjölskyldutengsl hér á Íslandi, þá verð ég að álykta sem svo að það falli undir þennan yfirgripsmikla dálk og renni þar af leiðandi saman við ýmis konar persónulegar ástæður. 'Sterk tengsl við Ísland' kæmi helst til greina, en einungis ein manneskja er flokkuð þannig, og við vitum að fleiri en einn eiga sterk fjölskyldutengsl hér á Íslandi, út frá því sem áður hefur komið fram.
Þetta er þó góð byrjun, og ég fagna því að loksins eru komnar einhverjar upplýsingar, og nú er alveg ljóst að það þarf ekki að ljóstra upp neinum persónuupplýsingum um einn né neinn til að greina umsóknirnar, eins og haldið hefur verið fram.
Annars held ég þó að það sé rétt hjá þér að nú fari að hægjast um í málinu og fókusinn muni færast meira á þá almennu staðreynd að kerfinu verður að breyta svo það sé hafið yfir allan vafa. Því miður hef ég heyrt fáa stjórnmálamenn viðurkenna þetta enn sem komið er, en vonandi mun rætast úr því á næstunni.
Þarfagreinir, 2.5.2007 kl. 19:06
Tek undir með þér Þarfagreinir, það er það eftir af málinu að ferlið virðist losaralegt og þarf að hefja yfir allan vafa. Finnst að við eigum að virða einkalíf þeirra hinna sem fengu ríkisfang og hætta að velta okkur upp úr því. Vonandi fer umræðan að snúast um þetta ferli en ekki það sem Helgi fór af stað með, að saka frambjóðanda um óheiðarleika. Það varð honum til minnkunar.
ps. ekki vildi ég vera sá sem tekur við formennsku í Allsherjarnefnd að loknum kosningum ef menn breyta ekki ferlinu!
Gestur Guðjónsson, 2.5.2007 kl. 19:12
"... af þeim 5 hafa 2 búið skemur en 2 ár á landinu, þannig að mál stúlkunnar er síður en svo einsdæmi."
Af hverju greinirðu ekki frá þeim mun sem er á þessum tveim síðast nefndu?
Án þess ég ætli í einhvern hanaslag við þig út af þessu - því síður vil ég draga taum dónans í Kastljósinu (les: Helga Seljan) - en jafnvel þið flokksbræður verðið að viðurkenna að svona málsmeðferð er náttúrulega fyrir neðan allar hellur. Það eru líka útúrsnúningar nefndarmanna sem þykjast ekkert muna, hafa ekki heyrt orð frá Sigurjóni Þórðarsyni o.s.frv.
Svo, þegar maður lítur til þingræðislanda í kring eru ráðherrar og aðrir valdamenn að segja af sér, á Englandi t.d. einn vegna þess að vinur húshjálparinnar fékk svona sérmeðferð.
Ég veit það er erfitt að viðurkenna að menn úr mínu liði hafi brotið af sér en það ætti að vera hverjum flokki kappsmál að geta bent á að í þeim flokki séu menn látnir sæta ábyrgð.
Valdimar Gunnarsson, 2.5.2007 kl. 19:47
Valdimar: Ég þekki ekki muninn á þeim tveimur, frekar en þú. Þótt ég gerði það mætti ég ekki greina frá því. Ef þú lest það sem ég hef skrifað um þetta mál, þá hef ég einmitt sagt að svona mál þyrftu að vera hafin yfir allan vafa og ljóst að skýra þurfi verklagsreglur, hvort sem breyta þurfi þeim eða útskýra betur. Þú getur ekki haldið öðru fram. Svo getur þú ekki rökstudd að hún hafi hlotið sérmeðferð, þeas frekari sérmeðferð en þau hin 149 sem hlutu íslenskt ríkisfang á kjörtímabilinu, þannig að krafa þín um afsögn er ekki réttmæt, en þetta mál á Englandi var einmitt ekki farið af stað með málið nema vegna þess að það var hægt að sýna fram á að um spillingu hafi verið að ræða.
Gestur Guðjónsson, 2.5.2007 kl. 20:19
Fyrir alla sem ekki eru í Framsóknarflokknum, er ljóst að mjög líklega var um sérmeðferð var að ræða, þangað til að einhver raunveruleg ástæða kemur í ljós (skert ferðafrelsi hmhmhm, sammála þarfagreini). Leiða má líkum að því að einhverjir þeir sem hafi farið yfir umsóknina hafi vitað bæði hver stúlkan var og hvar hún bjó, jafnvel hitt hana og otað hennar tota, leynt eða ljóst. Eitthvað þýðir þögn Guðjóns og það að gögnum er haldið frá öðrum nefndarmönnum. Menn eiga enn eftir að gera hreint fyrir sínum dyrum. Auðvitað kom Jónína ekki að málinu sjálf, en um sérmeðferð var að ræða á einhvern hátt. Það þarf nú ekki annað en að þekkja til fólks sem að í raunverulegri neyð hefur sótt um ríkisborgararétt. Hvað það svo þýðir er bara að þetta er sorglegt kerfi sem við búum við og leitt að GG nenni að standa í því að verja það. Það er eins og vissum öflum sé erfitt að vinna gegnsætt og lýðræðislega, það lærist vonandi í stjórnarandstöðunni
Pétur Henry Petersen, 2.5.2007 kl. 22:09
Pétur "Eitthvað þýðir þögn Guðjóns og það að gögnum er haldið frá öðrum nefndarmönnum." Guðjón Ólafur tjáði sjónvarpinu að hann hefði ekki þekkt til þessara tengsla stúlkunnar og ráðherrans og í kvöld kom í ljós að Sigurjón Þórðarson hefur fullan aðgang að öllum gögnum málsins. Það kom í ljós í viðtali við hann í dag að hann væri fyrir norðan. Auðvitað fær hann þau ekki send með faxi, eftir að hann hafi beðið um þau á bloggsíðu sinni. Minna væri nú
"Auðvitað kom Jónína ekki að málinu sjálf, en um sérmeðferð var að ræða á einhvern hátt." Þú vilt sem sagt dæma Jónínu seka, veist bara ekki á grundvelli hvers. Það er sanngjarnt eða hitt þó heldur
Gestur Guðjónsson, 2.5.2007 kl. 22:16
Yndislegt að fylgjast með þér Gestur. Þú heldur áfram að leggja flokk þinn í einelti með stanslausri umræðu um málið. :D
Gaukur Úlfarsson, 3.5.2007 kl. 00:30
Gaukur: Ég var einmigtt að hugsa það sama í morgun. Nú er Kastljósið á leiðinni inn í 6. daginn með þetta mál. Dragandi einn og einn lið inn í umræðuna í einu. Það er greinilega gert itl að valda ráðherra sem mestum skaða. Það eru aldeilis vönduð og óhlutdræg vinnubrögð eða hitt þó heldur og ekki stendur steinn yfir steini í árásum þeirra á ráðherra. Þeir hafa aftur á móti sýnt að það er þörf á meiri upplýsingu um veitingu ríkisfangs, þær upplýsingar komust til skila strax þegar Sigmar tók við af Helga. Svo er dóttir Vilhjálms borgarstjóra látin taka viðtalið við Bjarna Ben. Merkilegt.
Gestur Guðjónsson, 3.5.2007 kl. 08:18
Sæll Gestur, ég hef komið nokkuð reglulega inná þessa síðu hjá þér til að fræðast um það nýjasta hverju sinni í þessu "Jónínu" máli og tek undir með Gauk að það er enginn ötulli en þú að viðhalda lífi í þessari umræðu. En frá mínum bæjardyrum séð þá er alveg ljóst að þegar Alþingi tók listann frá allsherjarnefnd til samþykktar þá hefði Jónína eins og góðum stjórmálamanni sæmir átt að víkja úr sæti og ekki taka þátt í þeirri atkvæðagreiðslu sökum tengsla við einn af þeim aðilum sem á listanum var. En það gerði hún ekki heldur ákvað að þegja um þessi tengsl og samþykkti listann. " Löglegt en siðlaust"
Síðan fellur þú beint í þá gryfju um óeðlileg vinnubrögð að ýja að því að Bjarni Ben hafi fengið vinveittan fréttamann sendan til viðtals. Finnst þér það málefnalegt?
Tjörvi Dýrfjörð, 3.5.2007 kl. 10:40
Hvað er eftir? Einfalt: Spilling!
Auðun Gíslason, 3.5.2007 kl. 12:13
Tjörvi: Það er rétt hjá þér að það var ekki rétt af mér að vera að gagnrýna fréttamannavalið fyrir Bjarna, það er ómálefnalegt, ég hef ávallt reynt að vera málefnalegur og ég get alveg tekið undir það að Jónína hefði ekki átt að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, þótt það hafi að vísu ekki skipt neinu máli í afgreiðslu málsins.
Finnst að þingmenn framtíðarinnar eigi að draga þann lærdóm af þessu máli að þeir eigi að gera grein fyrir tengslum sínum við afgreiðslu mála sem tengjast þeim persónulega áður en atkvæðagreiðsla hefst, hvort sem það er í pontu, við forsætisnefnd eða formenn þingflokkana. Það hefur ekki verið hefðin hingað til, en mætti taka upp. Ástæðan fyrir því að ég hef fjallað svona mikið um þetta mál er sú að fyrir það fyrsta blöskrar mér framkoma fjölmiðla í málinu, sem skjóta fyrst og spyrja svo og eru að halda áfram með það í dag. Framsóknarmenn í sanngirni sinni og hógværð hafa verið allt of linir við að svara fyrir sig og því hefur Göbbelsaðferðin við að hrópa vitleysuna nógu oft, virkað, enda þeim ekki svarað. Vil ekki sjá að það sé talað af svona mikilli ósanngirni um flokkinn minn.
Gestur Guðjónsson, 3.5.2007 kl. 18:37
Gestur sæll
Þú slærð því föstu að ég þekki ekki mun á tveim málum sem tilgreind eru. Þetta er dónaskapur því hvað veist þú um mig og hvað ég veit. Þessi tvö dæmi sem ég vísaði til voru reyndar ekki eins í töflunni góðu því annað þeirra var líka auðkennt í dálkinu rofin búseta (mig minnir nafnið sé rétt) svo jafnvel þú hefðir átt að geta séð að munur var - og er - á þessum tveim málum.
Síðan heldur þú áfram:
"Svo getur þú ekki rökstudd að hún hafi hlotið sérmeðferð, þeas frekari sérmeðferð en þau hin 149 sem hlutu íslenskt ríkisfang á kjörtímabilinu, þannig að krafa þín um afsögn er ekki réttmæt,... "
Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki alveg hvað á að segja við svona málflutningi. Ef þú gerir þér ekki grein fyrir því að sú meðferð sem þessi umsókn fékk er alls ekki venjuleg þá er sennilega tilgangslaust að ræða málið frekar. Ég vil aðeins benda á að ég hef alls ekki haldið því fram að þetta mál sé einstakt - kannski hafa þessir spilltu þingmenn unnið svona oftar en hitt er ljóst af þeim gögnum sem þegar eru komin fram að lang- langalgengast er að umsækjendur hafi dvalið hér mun lengur en umrædd stúlka, flestir hafa talsvert viðameiri ástæður en þær sem í umsókn hennar voru taldar (og kunna að vera ástæðulitlar).
Ég endurtek það sem ég hef áður sagt, það ætti að vera öllum flokkum kappsmál að sýna og sanna að svona spilling þrífist ekki þar en því miður sýnist mér þeir flestir á einu máli um að hygla hver öðrum og gagnrýnislausar málpípur taka undir - e.t.v. í von um að fá að njóta reykjarins af réttunum síðar
Valdimar Gunnarsson, 3.5.2007 kl. 19:57
Valdimar: Þú ert að misskilja mig. Ég sagði að þú getur ekki frekar en ég metið muninn á þessum tveimur málum, þar sem við höfum engan samanburð um mál þessara tveggja einstaklinga.
Þessi málsmeðferð er venjuleg miðað við þær afgreiðslur sem fara í gegnum Alþingi, Forstjóri Útlendingastofnunnar og dómsmálaráðuneytið og allir þeir nefndarmenn sem unnu málið hafa borið vitni um það, en er auðvitað er þetta ekki venjuleg málsmeðferð miðað við þær afgreiðslur sem fara í gegnum dómsmálaráðuneytið, enda er það akkurat það sem ætlast er til, að dómsmálaráðuneytið sjái um megnið af veitingunum, þegar öllum þeim skilyrðum sem Alþingi hefur sett er fullnægt, en Alþingi ákvað að halda ákveðnum hluta veitinganna hjá sér, þegar þetta var endurskoðað síðast.
Ég tek undir með þér að stjórnsýslan á að vera gagnsæ og vonandi verður þetta mál til þess að tekið verði til í þeim málaflokkum sem það á ekki við, eins og í þessu.
Gestur Guðjónsson, 3.5.2007 kl. 20:10
Þú ert nú ansi röklaus í þessu máli þegar að þú segir:
"""Auðvitað kom Jónína ekki að málinu sjálf, en um sérmeðferð var að ræða á einhvern hátt." Þú vilt sem sagt dæma Jónínu seka, veist bara ekki á grundvelli hvers. Það er sanngjarnt eða hitt þó heldur ""'
Maður þarf nú virkilega að vera með framsóknargleraugun á sér til að sjá ekki að ég er einmitt að segja þá skoðunn mína að hún sé EKKI sek eða allaveganna að svo sé ólíklegt. Ég trúi henni alveg að hún hafi ekki beitt sér í þessu máli, en það var einhver sem gerði það í hennar nafni. Nóg að sinni.
Pétur Henry Petersen, 6.5.2007 kl. 12:33
Pétur: las þetta aftur, biðst forláts.
Gestur Guðjónsson, 6.5.2007 kl. 12:53
og ég tek þá aftur þetta sem ég sagði um gleraugun
Pétur Henry Petersen, 6.5.2007 kl. 13:14
Það náttúrlega segir sig sjálft að þetta mál er blásið upp í pólitískt moldviðri.
Hitt er svo erfiðara að segja til um, hvort moldviðrið á rétt á sér eða ekki.
Stjórnmál á Íslandi hafa jú lengst af snúist um fyrirgreiðslur og margt mun verra komið upp á borð en það sem Jónína er sökuð um.
Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við að stjórnmálamaður beiti sér persónulega við að aðstoða sína nánustu og nýti sér til þess þekkingu sem aflað hefur verið í opinberu starfi. Þetta er hægt til dæmis með því að ráðleggja mönnum að fara þessa leið en ekki hina í gegnum kerfið. En menn þurfa þá að dansa réttu megin við línuna, svolítið eins og fréttamenn sem eiga að flytja fréttir en ekki búa þær til.
Ég er algerlega sammála Valdimar um að pólítísk ábyrgð, svo sem í formi afsagnar, er sorglega fátíð hér á landi, miðað við vestræn lýðræðisríki almennt. Það er svo annað mál hvernig farið hefur verið með "pólitíska ábyrgð" víða um heim. Er það bara ég sem hef það á tilfinningunni að a.m.k. jafn oft séu menn látnir taka pokann sinn fyrir að misstíga sig í einkalífinu en í starfinu?
Að lokum legg ég til að eftirlaunalögin og þjóðlendulögin verði lögð í rúst.
Stefán Jónsson, 8.5.2007 kl. 02:02
Heyr heyr
Gestur Guðjónsson, 8.5.2007 kl. 07:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.