Sjálfstæðisflokkurinn án skýrrar stefnu í umhverfismálum?

Guðfinna Bjarnadóttir opinberaði stefnuleysi Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum í umhverfismálaþætti sjónvarpsins í gærkvöldi. Þegar hún var spurð beinna spurninga varð hún að tala fyrir sjálfa sig og hvað henni fyndist sjálfri, enda stefna Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki afar ómarkviss og ónákvæm og án nokkura beinna tillagna nema að leggja skuli rafstrengi í jörð. Stefnan er einungis sambland af vel til unnu hrósi til umhverfisráðherra Framsóknar og vilja til að klára þau lagafrumvörp sem búið er að vinna í ráðuneytum Framsóknar og almennum lýsingum um að bæta í örfáa hluta umhverfismálanna:

  • Efnahagslegir hvatar verði notaðir í ríkari mæli til að ýta undir almenna notkun vistvænna ökutækja - Rétt er að minna á að fjármálaráðherra hefur ítrekað hafnað öllum undanþágum á gjöldum, t.d. vegna lífdísels.
  • Herða viðurlög við umhverfisspjöllum - auðvitað, held að allir flokkar hafi þennan punkt.
  • Vatnajökulsþjóðgarði fagnað - vilja halda áfram án þess að nefna nein dæmi.
  • Stórefla landgræðslu - nefna hið merka verkefni Kolviður, sem hleypt var af stokkunum og þegar er komið til framkvæmda, ekkert nýtt sem sagt.
  • Gerð verndar og nýtingaráætlunar. Þetta er orðað þannig að þeir eru í raun að boða stóriðjustopp þótt allir frambjóðendur þeirra tali á annan veg. Ekkert er minnst á þá kosti sem þeir vilja halda áfram með og komnir eru í farveg.
  • Færa rafmagnslínur í jörð - eina beina tillagan
  • Auka rannsóknir - á sviði umhverfis og auðlindamála. Flokkurinn vill sem sagt einskorða umhverfisrannsóknirnar við auðlindanýtingu?

Ekkert er minnst á mengun sjávar, sem er grundvöllurinn fyrir heilnæmri fæðu úr hafinu, endurnýtingu og endurvinnslu og ábyrgð fyrirtækja. Stefnan er hvað skýrust hvað varðar eignarhald á auðlindunum og orkufyrirtækja, sem þeir vilja færa í einkaeigu. Engar beinar tillögur eða leiðir, nema að færa rafmagnslínur í jörð. Þegar fara átti í skýrari svör tiltók hún ávallt að hún væri bara að tala um eigin skoðanir.

Í loftslagsmálunum er stefnan að Kyotobókunin sé í gildi. Engar leiðir eða lausnir. Það er reyndar ekki skrítið, þar sem málsvarar flokksins hafa hafnað því að hækkað hitastig jarðar sé af mannavöldum.

Þannig að græni fálkinn er ansi bláleitur, en Guðfinna virðist vel græn. Megi vegur hennar verða sem mestur innan Sjálfstæðisflokksins...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Sæll Gestur.

Fyrst ein spurning: Ertu á launum við að vera framsóknarmaður?

Síðan að efni færslunnar: Ég hélt að ég ætti nú ekki eftir að taka upp hanskann fyrir Sjálfstæðismenn en ég finn mig þó knúinn til að koma Guðfinnu til varnar.

Ég tek það fram að ég sá ekki þennan þátt, enda byggi ég ekki stjórnmálalegar skoðanir mínar á frammistöðu einstakra þingmanna í kappræðum.

Við skulum átta okkur á því að enginn er algóður, jafnvel þó þú kunnir að halda að framsóknarflokkurinn sé það - enda segistu vera 100% framsóknarmaður - , og enginn er alvitur heldur.

Það að einhver einstakur frambjóðandi flokksins geti ekki komið frá sér nógu góðu svari í einum tilteknum málaflokki, eins og þú básúnar hér, finnst mér ekki hafa neitt gildi. Það eru verk flokkanna sem telja, málflutningur þeirra í þinginu og almennur heiðarleiki, sem ég get ekki séð að mikið sé eftir af hjá þínum fyrrum sósíaldemókratíska flokki, sem segja miklu sannari sögu.

Þessvegna geldur framsóknarflokkurinn afhroð á laugardaginn, þrátt fyrir að halda úti öflugum bloggurum sem duglegir eru að benda á meint mistök andstæðinganna.

Ef hún hefði komið fram með einhverja skoðun í einhverju tilteknu máli sem væri arfavitlaus, eins og t.d. að leggja til að Ísland skyldi fara með ófriði á hendur annarri þjóð, eða styðja núverandi kvótakerfi, þá hefði ég stutt þig í því að gagnrýna hana svo kröftuglega sem þú gerir. En að hún, nýliði í baráttunni, standi á gati í einhverju einu máli í beinni útsendingu sjónvarps finnst mér bara ekkert merkilegt. Umhverfismál á Íslandi standa ekki og falla með því. Vitlausar ákvarðanir framsóknarflokksins hafa t.a.m. haft óbætanleg áhrif, og engan ykkar hef ég enn heyrt standa á gati yfir því. 

Þrátt fyrir þessar hnýtingar mínar óska ég þér þó alls hins besta.

Heimir

Heimir Eyvindarson, 9.5.2007 kl. 11:25

2 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sæll Heimir: Nei ég er ekki á launum við að vera framsóknarmaður. Það að hún stóð á gati fékk mig til að skoða stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum og ég er að fjalla um hana, ekki frammistöðu Guðfinnu.

Gestur Guðjónsson, 9.5.2007 kl. 11:29

3 Smámynd: Grímur Kjartansson

Ég horfði á þenna þátt og það eina sem hinir komu með að það ætti að "skoða málið" niður í kjölinn þar er engin stefna heldur bara umræðudreifing.
Guðfinna sagði að það ætti að nýta okkar náttúruaulindir á skynsamlegan hátt og án öfga - þetta finnst mér vera skýr stefna.

Grímur Kjartansson, 9.5.2007 kl. 12:29

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Grímur, já, hún virðist hafa skýra stefnu og er nokkuð sannfærður um að svo sé. En hin skrifaða stefna Sjálfstæðisflokksins er ansi þunn og auðvelt að gera nánast hvað sem er án þess að það sé að fara á sveig við hana.

Gestur Guðjónsson, 9.5.2007 kl. 14:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband