Framsókn í umhverfismálum
9.5.2007 | 18:23
Það kann að hljóma undarlega, en almennt er ekki mikill ágreiningur milli flokkanna um umhverfismál. Umhverfismál eru nefnilega svo mikið meira en virkjanir og náttúruvernd. Þau eru marghöfða þurs, með höfuð manna, dýra, plantna og annars í lífríkinu, jarðvegs, jarðmyndana, vatns, lofts, veðurfars og landslags, samfélags, heilbrigðis, menningar og menningarminja, atvinnu og efnislegra verðmæta.
Framsókn hefur um árabil haft alla þessa þætti í sinni stefnuskrá og á síðasta flokksþingi var stefnan meitluð enn betur, en sjálfbær þróun er grunnstef hennar. Framsókn hefur staðið fyrir byltingu í endurnýtingu og meðhöndlun spilliefna, þannig að aðrar þjóðir eru að taka okkar aðferð upp. Hagrænum hvötum er beitt sífellt meira, þannig að sá sem mengar á að borga. Mengunarvarnarlöggjöfin hefur verið endurskoðuð í þeim anda og ábyrgð fyrirtækja skerpt. Nauðsyn þess sannaði sig við strand Wilson Muuga núna í vetur, en samgönguráðherra kom ekki að þeirri endurskoðun með uppfærslu á siglingalögum og því var bótaskylda eigandans mun minni en ella hefði verið. Sem betur fer gat Jónína Bjartmarz gengið frá samkomulagi við eigendur skipsins um farsæla lausn á því máli. Framsókn hefur komið á nýrri og faglegri aðferðafræði við náttúruvernd með náttúruverndaráætlun og er stefnan að ganga enn lengra og meta ástand allra tegunda dýra og plantna með tilliti til vaxtar, viðgangs og nýtingar, svo ekki þurfi að grípa til dýrra og óþægilegra aðgerða eftir að í óefni er komið. Það er framsýni í anda Framsóknar.
Unnið er að samræmdri stefnu ríkis og nokkurra sveitarfélaga í vistvænum innkaupum í samræmi við innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar og Staðardagskrá 21. Í febrúar var samið við Samband íslenskra sveitarfélaga um áframhald málsins. Þetta eru allt mál sem fer lítið fyrir vegna þess að það er sátt um þau. Þau skipta okkar daglega líf og framtíð okkar miklu máli og er nauðsynlegt að halda áfram á sömu braut, en ekki á braut frjálshyggju Sjálfstæðisflokksins eða bann- og stoppstefnu vinstri flokkanna.
Loftslagsmál eru stærsta mál umhverfismálanna, enda almennt viðurkennt að hækkun hitastigs á jörðinni sé stærsta einstaka ógnin við lífríkið og samfélagið á jörðinni. Um það eru allir flokkar sammála, þótt innan Sjálfstæðisflokksins heyrist reyndar enn efasemdaraddir. Allir jarðarbúar verða að axla ábyrgð og færa fórnir fyrir framtíðina. Líka Íslendingar. Okkur ber skylda til að nýta þær orkuauðlindir okkar sem við teljum forsvaranlegt að gera út frá náttúruverndarsjónarmiðum, því heimurinn þarf orku sama hvað hver segir og áliðnaðurinn er sú aðferð sem best hefur þótt henta til að binda orkuna og flytja hana út, því við erum fyrir löngu orðin sjálfum okkur næg í rafmagni og hita og getum því trauðla náð lengra, nema á sviði samgangna. Þar leika almenningssamgöngur lykilhlutverk.
Til að skýra málstað sinn hefur Framsókn á Íslandskorti sínu sett á skýran hátt fram þau svæði sem mögulega á að nýta, hvaða svæði ber að vernda og hvar eigi að staldra við og skoða málið. Aðrir flokkar flæmast undan, meira að segja Vinstri Græn eru tvístígandi, Samfylkingin virðist hafa eina stefnu í hverju kjördæmi, meðan Sjálfstæðisflokkurinn segir ekki neitt handfast í þessu, frekar en öðrum málum. Bara að það eigi að selja Landsvirkjun.
Ef þér er annt um jörðina og landið okkar er atkvæði þínu best varið hjá Framsókn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.