Faxaflóahafnir á móti samkeppni?
25.9.2007 | 13:28
Í fjölmiðlum undanfarið hafa birst fréttir af því að Faxaflóahafnir ætli að bjóða í NATO stöðina í Hvalfirði. Er haft eftir formanni stjórnar að það sé eðlilegt, enda hafnaraðstaðan á miðju starfssvæði hennar. Þegar nýju hafnalögin voru sett 2003 átti sú breyting sem á þeim voru gerð ætlað að leiða til aukinnar samkeppni milli hafna. Var vísað til þess að á SV horninu gæti orðið raunveruleg samkeppni milli hafna, en viðurkennt að hún yrði kannski ekki mikil úti á landi.
Hvað gerist? Jú, hafnirnar á SV horninu, að Hafnarfjarðar- og Kópavogshöfnum undanskildum, sameinast í eitt félag. Svo mikil varð sú samkeppni eftir allt saman og ekki lagðist Samkeppnisstofnun á móti því. Kópavogshöfn virðist aldrei ætla að verða raunveruleg samkeppnishöfn vegna skipulagsmála, þannig að Hafnarfjarðarhöfn er ein eftir sem mótvægi við Faxaflóahafnir.
Með sölu þessarar aðstöðu gæti hyllt undir að aukin samkeppni yrði á hafnarþjónustumarkaðnum SV horninu, þóknanlegt öllum öðrum en hörðustu kommúnistum. En nei. Stjórn Faxaflóahafna ætlar að taka í taumana og koma í veg fyrir það með því að kaupa hafnaraðstöðuna upp, í samvinnu við Hvalfjarðarsveit. Útboðið er auglýst þannig að einungis hæsta tilboð verður lesið upp. Þannig fengi almenningur ekki að vita á hvaða yfirverði aðstaðan yrði keypt til að hindra samkeppni.
Hafnarstjóri hóf samtímis málflutning gegn þeirri hafnarstarfsemi sem minn vinnuveitandi, Olíudreifing og Hvalur reka í Hvalfirði, með fullyrðingum um að skip færu inn í Hvalfjörð án lóðs, sem fjölmiðlar átu upp án þess að kanna hvort fótur væri fyrir þeim. Það er rétt að það fylgja ekki lóðsar frá Faxaflóahöfnum skipum sem eru að fara inn í Hvalfjörð, en það þýðir ekki að það fylgi þeim ekki lóðsar. Heimurinn er nefnilega örlítið stærri en svo, eins og leiðrétt var við Skessuhorn. Leiðrétting hefur ekki sést víðar.
Það er allrar athygli vert, í ljósi stefnu þeirra stjórnmálaflokka sem að stjórn Faxaflóahafna koma í samkeppnismálum, að þeir skuli allir sem einn samþykkja að koma í veg fyrir samkeppni á þessum markaði með því að fara í kaup á þessum mannvirkjum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.