Að loknu Umhverfisþingi

Sat Umhverfisþing í gær og í dag. Þar hélt Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra ræðu og kynnti áherslur sínar sem umhverfisráðherra. Það kom mér á óvart að í kynningarriti hennar og í ræðu hennar minnst hún hvergi á sjálfbæra þróun. Hugtak sem er og verður að vera gegnumgangandi í allri umhverfisumræðu og var megininntak í ræðu hins aðalræðumanns þingsins, Achim Steiners framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðana. Ætla að leyfa henni njóta vafans og flokka þetta undir handvömm.

Ég efast ekki eina sekúndu um einlægan vilja hennar við að koma stefnumiðum sínum og öðrum góðum verkum í framkvæmd og ætla þar með ekki að vera jafn ósanngjarn og Samfylkingin var gagnvart umhverfisráðherrum Framsóknarflokksins í sinni gagnrýni. Verkefnin eru brýn og aðkallandi.

Málið snýst nefnilega um peninga og þá kemur að þætti Árna Mathiesen fjármálaráðherra og raunverulegan vilja Geirs H Haarde, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og ríkisstjórnarinnar allrar. Fram kom að framlög til málaflokksins, að undanskildum framlögum til Vatnajökulsþjóðgarðs og lausn húsnæðismála, myndu einungis halda í við verðlagsþróun. Engin raunhækkun.

Ég verð að segja að það er talsvert annar raunveruleiki en bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn boðuðu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að maður tali nú ekki um fyrirheit Fagra Íslands.

Tökum dæmi úr áherslum ráðherra:
  • Ráðherra vill efla samstarf við sveitarfélög og frjáls félagasamtök á sviði náttúru og umhverfisverndar. Einnig vill ráðherra gera félagasamtökum betur kleift að leita sérfræðiaðstoðar við að gera athugasemdir og veita umsagnir um skipulags- og umhverfismál. Þannig geta þau veitt nauðsynlegt aðhald og gegnt eftirlitshlutverki sínu betur en nú er.

Í þennan lið eru ætlaðar 10 milljónir á næsta ári. Sama krónutala og á síðasta ári.

  • Að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði lögð fyrir Alþingi eigi síðar en 2009. Tryggt verði að mikilvægum svæðum verði ekki raskað meðan unnið er að heildstæðri flokkun allra nýtingarkosta

Í þetta verkefni finn ég ekki nema 60 milljónir í fjárlagafrumvarpinu. Rammaáætlun 1 kostaði 555 milljónir, en hér er verið að leggja til að endurvinna hluta hennar og klára Rammaáætlun 2, ef ætlunin var að fara í sömu vinnu og Framsókn lagði til í þjóðarsáttartillögum sínum. Áætlaður kostnaður við rammaáætlun 2 er um 3-400 milljónir og ef gera má ráð fyrir að 50-100 milljónir þurfi í endurvinnslu rammaáætlunar 1 er alveg ljóst að ríkisstjórnin stendur ekki að baki ráðherra með þessi fyrirheit.

Með lokaskilaboðum sínum á þinginu um að hún sæi fram á að verða andófsmaður í ríkisstjórninni virðist hún fyrirfram vera búin að gefast upp á að ná meira fjármagni til málaflokksins. Ég vona svo sannarlega að til þess þurfi ekki að koma og Samfylkingin í anda Fagra Íslands kosningaloforðapakkans og Sjálfstæðisflokksins í anda græna fálkans, sýni þessum málaflokki meiri upphefð en fjárlagafrumvarpið gefur tilefni til að ætla.


mbl.is Náttúruverndarmál rædd á Umhverfisþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband