Friðhelgi eignarréttarins
28.10.2007 | 22:44
Atli Gíslason lögmaður og alþingismaður skrifaði athyglisverða grein í Fréttablaðið á föstudaginn var. Veltir hann fyrir sér friðhelgi eignarréttarins og vísar í ákvörðun eigenda jarðar sem vatnsréttindi í Þjórsá fylgja og nýtt væru í Urriðafossvirkjun, að hætta samningaviðræðum um sölu eða leigu á þeim. Veltir hann í því sambandi upp réttmætum spurningum um forsendur eignarnáms, hvenær hagsmunir eru almannahagsmunir og hvenær ekki og hvenær almannahagsmunir eru þá svo ríkir að þeir réttlæti eignarnám og hvenær ekki.
Í framhaldi af lestri greinarinnar hef ég verið að velta eignarréttinn svolítið fyrir mér. Atli lýsir ágætlega þeim rétti sem þessir einstaklingar hafa til að neita að ganga til viðskiptasamninga um hlunnindi sem sannarlega eru jarðarinnar. En um leið og þeir neita og það hefði í för með sér að virkjunin yrði ekki byggð, hvernig er þá farið með rétt þeirra sem einnig eiga vatnsréttindi í Þjórsá og vildu hugsanlega nýta þau hlunnindi? Er réttur þeirra sem ekki vilja nýta hlunnindi meiri en þeirra sem vilja nýta? Eiga þeir sem vilja nýta en geta það ekki kannski skaðabótarétt á hendur þeim sem ekki vilja nýta?
Þessi hlunnindi eru eðli málsins samkvæmt þannig að oftast er einungis er hægt að nýta þau þvert á landamerki og eru ónýtanleg hverri einstakri jörð fyrir sig. Mér finnst þetta dæmi kenna manni það að það þurfi að skýra lagarammann um þetta, svipað og gert hefur verið með veiðihlunnindi.
ps: Reyndar er sérstakt að VG sé nú orðið svona umhugað um friðhelgi eignarréttar einstaklinga, þegar flokkurinn hefur barist fyrir því að þessi réttindi verði sameign þjóðarinnar. Það hentar ekki núna, kemur á óvart?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.